Sumar tegundir góðkynja hnúta í brjósti tengjast aukinni hættu á brjóstakrabbameini
L. Hartmann og fleiri, New England Journal of Medicine, 21. júlí 2005
Er þessi grein eitthvað fyrir þig? Hafir þú fengið góðkynja (ekki krabbamein) hnút í brjóstið, gæti þessi grein hjálpað þér að átta þig á hvort það hefur einhver áhrif á líkur á að þú fáir brjóstakrabbamein.
Bakgrunnur og mikilvægi rannsóknarinnar: Í ljós kemur að átta af hverjum tíu hnútum sem konur verða varar við í brjósti þegar þær skoða það sjálfar (eða einhver úr heilsugæslunni) reynast góðkynja (ekki krabbamein). Góðkynja hnútur er hópur brjóstafrumna sem geta ýmist virst eðlilegar, eitthvað afbrigðilegar, skipta sér með eðlilegum hraða eða eru hraðvaxandi.
Eftir að tekið hefur verið sýni úr brjóstinu og beðið hefur verið eftir niðurstöðunni er það óumræðilegur LÉTTIR að fá að vita að hnúturinn var ekki krabbamein. Sumir góðkynja hnútar geta þó aukið líkur á að þú fáir brjóstakrabbamein einhvern tíma síðar. Rannsóknir hafa sýnt að konur sem fá góðkynja hnúta í brjóstin eru 50%-60% líklegri en aðrar konur til að fá brjóstakrabbamein.
Góðkynja hnútar eru þó ekki allir sömu gerðar. Óljóst er hvort allar gerðir góðkynja hnúta hafa sömu áhrif á líkur á brjóstakrabbameini.
Í rannsókninni sem hér er sagt frá skoðuðu rannsakendur mikinn fjölda kvenna sem greindust með góðkynja hnút í brjósti. Þeir vildu fá að vita hversu margar kvennanna hefðu síðar fengið brjóstakrabbamein og hvort einhver sérstök tegund góðkynja hnúts í brjósti tengdist auknum líkum á brjóstakrabbameini.
Efniviður og aðferðir: Rannsakendur frá fjórum stofnunum skoðuðu upplýsingar um 9.087 konur sem höfðu gengist undir aðgerð til að fá góðkynja hnút fjarlægðan á Mayo-spítalanum á árunum 1967 til 1991. Konurnar voru á aldrinum 18 til 85 ára. Rannsóknin var fjármögnuð af ýmsum opinberum stofnunum í Bandaríkjunum, einkum þeim sem stunda krabbameinsrannsóknir.
Rannsakendur sendu hverri konu spurningalista þar sem spurt var:
-
Hvort dæmi væru um brjóstakrabbamein í fjölskyldu hennar.
-
Hve gömul hún var þegar aðgerðin var gerð og hvort hún var þá enn í barneign eða komin yfir tíðahvörf.
-
Hvort hún hefði einhvern tíma greinst með brjóstakrabbamein.
Rannsakendur skoðuðu líka meinafræðiskýrslur kvennanna eftir skurðaðgerð og bættu upplýsingum úr þeim við svörin sem þeir fengu beint frá konunum.
Síðan tók meinafræðingur, sérfræðingur í meinafræði krabbameins, vefjarsýni úr góðkynja hnútum sem fjarlægður hafði verið hjá hverri einstakri konu sem þátt tók í rannsókninni, og skoðaði í smásjá. Meinafræðingurinn flokkaði hvert sýni í einn af þremur mismunandi flokkum:
-
Breytingar með eðlilegum vaxtarhraða – trefjavefur sem myndar liðbönd og sinar eða vökvafylltar blöðrur (belgir) með frumum sem vaxa á eðlilegum hraða.
-
Breytingar með óeðlilegum vaxtarhraða - frumur vaxa og búa til nýjar frumur hraðar en eðlilegt er – án afbrigða – þ.e. fruman virðist vera eðlileg.
-
Breytingar með óeðlilegum vaxtarhraða – frumurnar vaxa og búa til nýjar frumur hraðar en eðlilegt er – og eru afbrigðilegar –þær líta öðru vísi út en eðlilegar frumur. Í afbrigðilegum, hraðvaxandi frumum í mjólkurgangi, eru afbrigðilegu frumurnar (vefjaraukinn) í mjólkurganginum. Í afbrigðilegum hraðvaxandi frumum í mjólkurkirtli er afbrigðilegu frumurnar að finna í mjólkurkirtlunum. Orðið “frumubreyting” er notað til að lýsa hvorri tegundinni sem er.
Til að komast að því hvaða tegundir góðkynja hnúta tengjast ekki auknum líkum á brjóstakrabbameini fylgdu rannsakendur konunum eftir í mörg ár eftir að hnúturinn var fjarlægður. Flestum konunum var fylgt eftir í 15 ár.
Til að meta hvort góðkynja hnútur í brjósti eykur líkur á að fá brjóstakrabbamein þurftu rannsakendur að vita hve margar konur væru líklegar til að fá brjóstakrabbamein miðað við MEÐALTALIÐ hjá þjóðinni. Rannsakendur notuðu SEER-skrána, risavaxið bandarískt gagnasafn um hversu margt fólk fær krabbamein árlega (nýgengi) og hve lengi það lifir eftir að það greinist (lifun). Krabbameinsstofnun Bandaríkjanna (The National Cancer Institute) hefur umsjón með skránni.
Árangur: Á þeim tíma sem fylgst var með konunum greindust 707 með brjóstakrabbamein af þeim 9.087 sem þátt tóku í rannsókninni . Til samanburðar höfðu rannsakendur gert ráð fyrir því, miðað við SEER-skrána, að 453 konur af hverjum 9.087 í röðum almennings (án þekktrar sögu um góðkynja hnút í brjósti) myndi greinast með brjóstakrabbamein á þessum sama tíma. Þetta þýðir að það að greinast með góðkynja hnút í brjósti jók líkur á að fá krabbamein síðar meir um 56%. Þessa aukningu á líkum var hægt að sjá í 25 ár eftir að upphaflegi góðkynja hnúturinn hafði verið fjarlægður með skurðaðgerð.
Góðkynja hnútar í brjóstum þeirra 9.087 kvenna sem um var að ræða flokkuðust þannig:
-
66,7% (hjá 6.061 konu) höfðu eðlilegan vaxtarhraða.
-
29,6% (hjá 2.690 konum) höfðu óeðlilegan vaxtarhraða en eðlilegar frumur.
-
3,7% (hjá 336 konum) höfðu óeðlilegan vaxtarhraða og afbrigðilegar frumur.
Rannsakendur komust að þeirri niðurstöðu að TEGUND hins góðkynja hnúts hefði afgerandi forsagnargildi um líkur á brjóstakrabbameini. Samanborið við venjulega íbúa á SEER-skránni (konur sem hvorki höfðu greinst með brjóstakrabbamein né góðkynja hnút í brjósti) voru konur sem rannsóknin náði til (þær sem höfðu greinst með góðkynja hnút í brjósti):
-
424% líklegri til að fá brjóstakrabbamein ef vaxtarhraði góðkynja hnúts var óeðlilegur og frumur afbrigðilegar (4 sinnum meiri en líkur hjá öðrum konum).
-
88% líklegri til að fá brjóstakrabbamein ef vaxtarhraðinn var óeðlilegur en frumurnar eðlilegar útlits.
-
27% líklegri til að fá brjóstakrabbamein ef vaxtarhraðinn var eðlilegur og frumurnar eðlilegar útlits.
Væru krabbameinstilfelli þekkt í fjölskyldum hafði það einnig áhrif, þannig að líkur kvennanna á að fá brjóstakrabbamein jukust. Þetta var borið saman við meðaltalið:
-
Konur með mikla krabbmeinssögu í fjölskyldunni (einn náinn ættingi með brjóstakrabbamein fyrir 50 ára aldur, eða tveir eða fleiri ættingjar, þar af að minnsta kosti einn náinn, með brjóstakrabbamein) voru 93% líklegri til að fá brjóstakrabbamein. Náinn ættingi í þessu samhengi er móðir, systir eða dóttir.
-
Konur með litla krabbameinssögu í fjölskyldunni (einhver ættingi sem ekki fellur undir skilgreininguna hér að ofan) voru 43% líklegri til að fá brjóstakrabbamein.
-
Konur þar sem engin tilfelli brjóstakrabbameins voru þekkt í fjölskyldunni voru 18% líklegri til að fá brjóstakrabbamein en meðaltal segir fyrir um.
Hins vegar lágu ekki fyrir upplýsingar um ættingja nema hjá rúmlega helmingi kvennanna sem tóku þátt í rannsókninni (53%).
Rannsakendur skoðuðu einnig meðalaldur kvenanna sem höfðu greinst með góðkynja hnút í brjósti. Meðalaldur allra kvennanna í rannsókninni var um það bil 51 ár. Konurnar sem höfðu verið með hnúta með eðlilegan vaxtarhraða voru örlítið yngri (um það bil 50 ára). Konur sem afbrigðilegar frumur fundust hjá sem einnig sýndu óeðlilegan vaxtarhraða voru ívið eldri (um 58 ára).
Rannsakendur leituðu síðan að sambandi milli mismunandi áhættuþátta brjóstakrabbameins. Þeir komust að því að hjá konum sem greindust með óeðlilegan frumuvöxt og afbrigðilegar frumur (atypical hyperplasia) skipti máli á hvaða aldri þær voru þegar þær greindust. Þegar þær voru bornar saman við meðaltalið í SEER-skránni kom í ljós að:
-
Konur yngri en 45 ára með óeðlilega hraðan frumuvöxt og afbrigðilegar frumur voru sjö sinnum líklegri til að fá brjóstakrabbamein.
-
Konur á aldrinum 45 til 55 ára með óeðlilega hraðan frumuvöxt og afbrigðilegar frumur voru fimm sínnum líklegri til að fá brjóstakrabbamein.
-
Konur eldri en 55 ára með óeðlilega hraðan frumuvöxt og afbrigðilegar frumur voru þrisvar sinnum líklegri til að fá brjóstakrabbamein.
Mikilvægt er að veita því athygli að hjá konum sem höfðu verið með hnút í brjósti sem hafði eðlilegan vaxtarhraða og dæmi um brjóstakrabbamein í fjölskyldunni voru óveruleg eða engin, jukust líkurnar á brjóstakrabbameini EKKERT.
Niðurstöður: Rannsakendur komust að þeirri niðurstöðu að ákveðnar tegundir góðkynja hnúts í brjósti geta aukið líkur á brjóstakrabbameini. Rannsakendur ályktuðu einnig sem svo að fjölskyldusaga og aldur við greiningu gæti einnig haft áhrif á líkurnar.
-
Konur með óeðlilega hraðan frumuvöxt og afbrigðilegar frumur voru 424% (fjórum sinnum) líklegri til að fá brjóstakrabbamein heldur en meðaltalskona sem ekki hafði fengið góðkynja hnút í brjóstið. Ef þetta er skoðað í samhengi er rétt að líta á altækar líkur kvenna (notaðar eru heilar tölur til að gera þær auðskiljanlegri). Líkur kvenna eru að meðaltali 5 af hverjum 100; af konum með óeðlilega hraðan frumuvöxt og afbrigðilegar frumur (atypical hyperplasia) eru það 20 af hverjum 100 konum sem má búast við að fái brjóstakrabbamein.
-
Líkur kvenna með of hraðar frumuskiptingar en að öðru leyti eðlilegar frumur voru 88% meiri en annarra á að fá brjóstakrabbamein. Miðað er við altækar líkur þýðir það að búast má við að 10 af hverjum 100 fái brjóstakrabbamein.
-
Líkur kvenna með góðkynja hnút þar sem vaxtarhraði frumna var eðlilegur voru 27% meiri en annarra. Í altækum líkum táknar það að búast má við að 6 af hverjum 100 fái brjóstakrabbamein.
Hjá konum sem voru yngri en 45 ára og voru með óeðlilega hraðan frumuvöxt í brjóstinu og afbrigðilegar frumur var hættan á að fá brjóstakrabbamein mun meiri en hjá öðrum. Þær voru sjö sinnum líklegri til að fá brjóstakrabbamein en meðaltalskonan.
Fyndust eðlilegar frumur með eðlilegan vaxtarhraða í hnút, engin dæmi um náinn ættingja með brjóstakrabbamein eða dæmin væru fá um fjarskylda ættingja, jukust líkur á brjóstakrabbameini EKKERT.
Í þessari rannsókn voru góðkynja hnútar flokkaðir þannig:
-
66,7% (hjá 6.061 konu) engar frumubreytingar.
-
29,6% (hjá 2.690 konum) aukinn vaxtarhraði en engar frumubreytingar.
-
3,7% (hjá 336 konum) aukinn vaxtarhraði og frumubreytingar.
Það þýðir að aðeins 3,7% kvennanna voru í þeim hópi þar sem líkur á brjóstakrabbameini voru mestar og 67% í hópnum með minnstu líkunum.
Lærdómur sem draga má: Af 10 konum sem finna hnút í brjósti munu átta fá þann úrskurð að um meinlausan (góðkynja) hnút sé að ræða. Sértu ein af þessum átta konum andarðu léttar og þakkar þínum sæla. Samtal þitt við lækninn verður trúlega stutt og hressilegt.
Rannsóknin bendir hins vegar til að svarið “ekki krabbamein” ætti ekki að binda endi á samræður þínar við lækninn. Þessi rannsókn gæti stuðlað að því að þú og læknir þinn kynnið ykkur eftir föngum hvernig best sé að gæta brjóstaheilsu þinnar framvegis. Þar sem rannsóknin var umfangsmikil, með nákvæmum meinafræðilegum athugunum og 15 ára eftirfylgni, eru niðurstöðurnar áreiðanlegar og veita góða hugmynd um hvernig breytingar sem framkalla hnút í brjósti geta haft áhrif á líkur á að þú fáir brjóstakrabbamein.
Segi meinafræðiskýrslan þín að hnúturinn sé góðkynja er það frábært! En - þú þarft að fá að vita meira. Hvaða TEGUND af góðkynja hnút fékkstu? Eru frumur hraðvaxandi (skipta þær sér ört) eða eru þær afbrigðilegar á einhvern hátt?
Meinafræðingar nota ekki allir sömu orðin á sama hátt til að lýsa mismunandi tegundum brjóstafrumna. Það eru mörg stig á milli eðlilegrar frumu og krabbameinsfrumu og sumar þessara breytinga geta verið óverulegar. Þannig kunna tveir meinafræðingar að flokka sams konar frumuhóp á tvo mismunandi vegu. Meinafræðingurinn talar kannski ekki heldur um vaxtarhraða eða hraðvaxandi frumu heldur aukinn mítósa eða frumuskiptingu. Biddu lækninn um afrit af skýrslunni þinni. Sé þar eitthvað sem þú skilur ekki, skaltu biðja um skýringar.
Þegar bæði þú og læknir þinn eruð orðin sátt við lýsinguna á þessum góðkynja hnút, skaltu fara yfir það sem þú veist um brjóstakrabbamein í fjölskyldunni og aldur þinn þegar hnúturinn fannst. Með því að skoða þessi atriði hefurðu betri hugmynd um hvaða líkur eru á að þú fáir brjóstakrabbamein.
Flestar konur sem fá úrskurð um að sýnið hafi verið góðkynja hafa enga ástæðu til að vera áhyggjufullar. Í þessari rannsókn höfðu 67% kvennanna fengið hnút sem sýndi að frumur endurnýjuðu sig með eðlilegum hraða og voru eðlilegar að öðru leyti. Og hjá konum með þannig hnút OG enga eða litla krabbameinssögu í ættinni AUKAST LÍKURNAR EKKERT.
Hjá um það bil 30% hafði vaxtarhraði frumnanna aukist en þær voru eðlilegar að öðru leyti. Aðeins 4% þeirra voru með hraðvaxandi, afbrigðilegar frumur (atypical hyperplasia) sem tengist mestri hættu á að fá brjóstakrabbamein.
Segi meinafræðiskýrslan þín að frumur séu afbrigðilegar og fjölgi sér óeðlilega hratt og þú ert auk þess yngri en 45 ára eða mörg tilfelli brjóstakrabbameins að finna í fjölskyldunni, eru auknar líkur á að þú fáir brjóstakrabbamein í framtíðinni. Breytingar á lifnaðarháttum, lyf og skurðaðgerð eru allt saman leiðir sem hægt er að fara til að draga úr hættunni. Talaðu við lækni þinn um þessar leiðir og athugaðu hvort þér finnst vit í einhverri þeirra.
Með því að heimsækja brjostakrabbamein.is reglulega getur þú aflað þér nýjustu upplýsinga um hvernig hugsanlega má draga úr líkum á að fá brjóstakrabbamein.
ÞB