Hafðu staðreyndir á hreinu

Fyrst eftir að hafa greinst með brjóstakrabbamein getur reynst erfitt að henda reiður á hugsunum sínum og átta sig á hvað þarf að gera og í hvaða röð. Að vita að þú ert í góðum höndum lækna sem geta og vilja hjálpa þér kann að vega upp á móti því og veitt þér nauðsynlega vissu um að verið sé að gera allt sem hægt er til að fá nákvæma greiningu og velja bestu hugsanlegu meðferð fyrir ÞIG. Það sem á þig er lagt þjónar aðeins þeim tilgangi.

Kannski hófst ferlið með að þú fórst til heimilislæknis eða kvensjúkdómalæknis sem grunar að krabbamein geti verið á ferðinni. Þá sendir hann þig á næstu leitarstöð þar sem þú ferð í brjóstamyndun, ómskoðun eða tekið verður fínnálarsýni, líklega allt þetta. Þaðan verður þér vísað til krabbameinslæknis, skurðlæknis, geislalæknis, eins eða fleiri af þessum þremur, auk annarra sem koma að því að taka fleiri sýni og gera rannsóknir til að ganga úr skugga um eðli meinsins og útbreiðslu þess.

Allar rannsóknir miða að því að greina meinið sem nákvæmast, komast að því hve útbreitt það er og hvers eðlis og ákveða síðan hvernig best sé að hefja meðferð og hvert framhaldið á að verða.

Erfitt getur reynst að nema, skilja og muna allar þær upplýsingar sem á þér dynja í hverju viðtali. Hafðu með þér minnisbók, taktu með þér vin eða ættingja sem getur séð um að henda reiður á öllu þessu.

Á síðunum hér á eftir verða útskýrð öll smáatriði í þeirri heildarmynd sem læknar þínir eru að reyna að setja saman. Sjúkrasaga þín, fjölskyldusaga, niðurstöður rannsókna – allt verður þetta kannað til að fá sem fullkomnasta mynd af krabbameininu í því skyni að ráðast gegn því eins fljótt og með eins góðum árangri og mögulegt er.

 ÞB