Hvaða meðferðum er beitt á þríneikvætt brjóstakrabbamein
Eins og aðrar tegundir brjóstakrabbameins er þríneikvætt brjóstakrabbamein meðhöndlað með skurðaðgerð, geislameðferð, og/eða krabbameinslyfjum. Fer það eftir einkennum krabbameinsins, svo sem stigi og gráðu, hvers konar meðferð telst vænlegust til árangurs.
Mörgum sem greinast með þríneikvætt brjóstakrabbamein þykir erfitt að vita að ekki komi til viðbótarmeðferðar eftir meðferð með krabbameinslyfjum, svo sem með móthormónalyfjum eða herseptíni. Þeim finnst eins og ekki sé nóg gert til að vinna bug á krabbameininu. Líði þér þannig, ertu svo sannarlega ekki ein um það. Nokkrar rannsóknir hafa leitt í ljós að brjóstakrabbamein án hormónaviðtaka – en það á við um þríneikvætt brjóstakrabbamein – bregst betur við krabbameinslyfjum en hormóna-jákvæð mein. Farir þú eftir þeirri meðferðaráætlun sem talin er skynsamlegust í þínu tilfelli og gerir á sama tíma allt sem í þínu valdi stendur til að lifa heilsusamlega – eins og að neyta hollrar, fitusnauðrar fæðu, hreyfa þig reglulega og draga úr áfengisneyslu – leggur þú þitt af mörkum til að vinna á krabbameininu.
Hugsanlega veltir þú fyrir þér hvort rétt sé að fara í öflugri meðferð eins og brjóstnám í stað fleygskurðar eða fleiri lyfjagjafir eða fá stærri skammta af krabbameinslyfjum. Rökrétt er að álíkta að þar sem þríneikvætt brjóstakrabbamein er oft ágengara en annað brjóstakrabbamein, sé rétt að fara í öflugri meðferð. Eins og stendur eru viðmiðunarreglur (standard) þær að ekki er mælt sérstaklega með því að fólk með þríneikvætt brjóstakrabbamein fari að jafnaði í öflugri meðferð en aðrir.
Gerðar hafa verið rannsóknir á því hvort heppilegt geti verið að konur með þríneikvætt brjóstakrabbamein fari í meðferð með krabbameinslyfjum áður en þær fara í skurðmeðferð. Árið 2008 voru birtar niðurstöður rannsóknar sem gerð var á M.D. Anderson Cancer Center. Hún sýndi að sumar konur með þríneikvætt brjóstakrabbamein höfðu gagn af því að fara í krabbameinslyfjameðferð fyrir skurðaðgerð og hurfu þá öll merki um sjúkdóminn. Ævilíkur þessara kvenna voru svipaðar þeim sem konur með annars konur brjóstakrabbamein höfðu. Í rannsókn á rúmlega 100 konum sem niðurstöður voru birtar úr árið 2007 reyndust sumar konur með hormónaneikvætt og þríneikvætt brjóstakrabbamein hafa gagn af meðferð með krabbameinslyfjum fyrir skurðmeðferð. Þær sýndu fullkomna svörun við krabbameinslyfjunum þannig að öll merki um sjúkdóminn hurfu, síðan fóru þær í skurðmeðferð. Fleiri rannsókna á gildi þess að fara í krabbameinslyfjameðferð fyrir skurðmeðferð er þörf.
Við þetta má bæta að konur með þríneikvætt brjóstakrabbamein þurfa ekki endilega að fara fremur í brjóstnám en fleygskurð. Með lækni þínum ákveður þú hvers konar skurðmeðferð er best fyrir þig miðað við aðstæður þínar. Þar sem læknar eru enn að bæta við þekkingu sína og skilning á þríneikvæðu brjóstakrabbameini, kunna skoðanir þeirra að vera skiptar. Þú gætir viljað fá álit fleiri en eins læknis og það kann að hjálpa þér.
ÞB