Hvaða rannsóknum er verið að vinna að á þríneikvæðu brjóstakrabbameini?
Rannsakendur vinna að því að finna bestu leiðina til að meðhöndla þríneikvætt brjóstakrabbamein. Í klínískum rannsóknum er verið að bera saman árangurinn af ýmsum gömlum og nýjum krabbameinslyfjum í mismunandi samsetningum í því skyni að meðhöndla þríneikvætt brjóstakrabbamein.
Í öðrum klínískum rannsóknum er reynt að komast að því hvort sum marksækin lyf geti komið að gagni við að meðhöndla slík mein. Ólíkt því sem gerist með hefðbundnum meðferðum, svo sem með krabbameinslyfjum og geislum þar sem ekki er unnt að gera greinarmun á hraðvaxandi heilbrigðum frumum og krabbameinsfrumum, verka marksækin lyf þannig að þau „loka fyrir” ákveðna starfsemi í krabbameinsfrumum sem gerir þeim kleift að vaxa og dafna. Vitað er að ekki þýðir að ráðast að viðtökum fyrir estrógen og prógesterón eða HER2 viðtaka þegar þríneikvætt brjóstakrabbamein á í hlut. Lyf sem beinast að annarri starfsemi frumna kunna að reynast árangursrík, en rannsóknir eru enn á byrjunarstigi. Um er að ræða:
-
VEGF ( sem eru upphafsstafirnir í orðunum Vascular Endothelial Growth Factor). Um er að ræða vaxtarþátt æðaþels (innanþekju æða): Til þess að fá súrefni og næringu svo að þau geti vaxið og dreift sér, búa æxli til nýjar æðar (æðamyndun / nýmyndun æða). Lyfið bevacizumab (Avastin®) truflar starfsemi VEGF prótínsins sem örvar þetta ferli. Avastin® bindur sig við vaxtarþátt æðaþels og kemur í veg fyrir að hann geti átt frumusamskipti við viðtaka á blóðfrumum. Með því að loka á samskiptin kemur Avastin® í veg fyrir að vaxtarþátturinn geti örvað nýmyndun æða. Til er annað lyf sem verkar á svipaðan hátt, sutinib (Sutent®).
-
EGFR (upphafsstafirnir í orðunum Epidermal Growth Factor Receptor). Til eru lyf sem ráðast á prótín sem kallast viðtaki vaxtarþáttar þekjufrumna, öðru nafni EGFR. Vitað er að mörg þríneikvæð brjóstakrabbamein eru með „yfirtjáningu” EGFR, sem þýðir að of mikið af þessum viðtökum er á yfirborði frumna. Viðtakarnir taka við boðum sem örva vöxt krabbameinsins. Cetuximab (Eritux®) er lyf sem bindur sig við EGFR. Um leið og það gerist geta vaxtarboð ekki bundið sig við viðtakana á krabbameinsfrumunni og örvað með því mótivöxt hennar.
Klínískar tilraunir með þessi lyf og ýmis önnur gæti skipt sköpum í meðferð við þríneikvæðu brjóstakrabbameini. Víða gefst konum tækifæri til að taka þátt í slíkum tilraunum og eru hvattar til að ræða um það við lækni sinn.
ÞB