Hvernig þríneikvætt brjóstakrabbamein lítur út og hagar sér
Nauðsynlegt að vita hvað „viðtakar” eru til að átta sig á hvað þríneikvætt brjóstakrabbamein er. Viðtakar eru prótín sem finnast á yfirborði margra brjóstakrabbameinsfrumna. Viðtakarnir gera frumunum kleift að taka við boðum um að vaxa.
-
Hormónaviðtakar taka við vaxtarboðum frá hormónunum estrógen og prógesterón. Í 75% tilfellum kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein finnast frumur sem eru með estrógen-viðtökum og teljast estrógen-viðtaka-jákvæð, en í um 65% tilfellum eru frumur með viðtaka fyrir bæði estrógen og prógesterón.
-
Í færri tilfellum brjóstakrabbameins – um 20-30% - finnst yfirtjáning HER2-viðtaka, þ.e.a.s. á frumunum eru of margir HER2-viðtakar. Því fleiri HER2-viðtaka sem frumurnar hafa, þeim mun líklegra er að æxlið haldi áfram að vaxa.
Móthormónalyf og HER2 marksækin lyf trufla boðin og koma í veg fyrir að þau nái til krabbameinsfrumna.
Um 10-20% brjóstakrabbameina eru án viðtaka – þá eru frumurnar það sem kallað er „ósérhæfðar”. „Þríneikvætt” er tilraun til að þýða enska heitið „triple-negatvie” sem lýsir brjóstakrabbameinsfrumum án estrógen-, prógesterón-, og/eða HER2-viðtaka. Það þýðir að brjóstakrabbameinið bregst ekki við móthormónalyfjum, þar á meðal tamoxifeni, anastrozole (Arimidex®), exemestane (Aromasin®), letrozole (Femara®) eða fulvestrant (Faslodex®). Þríneikvætt brjóstakrabbamein bregst heldur ekki við marksæknum lyfjum sem vinna á HER2, svo sem trastuzumab (Herceptin®) eða lapatinib (Tyverb®). Hins vegar má meðhöndla þríneikvætt brjóstakrabbamein með frumudrepandi lyfjum – krabbameinslyfjum – og geislum. Um þríneikvætt brjóstakrabbamein er einnig þetta að segja:
-
Það er yfirleitt ágengara en aðrar tegundir brjóstakrabbameins.
Rannsóknir sýna að meiri líkur eru á að þríneikvætt brjóstakrabbamein sái sér út fyrir brjóstið og meiri líkur eru á að meinið taki sig upp aftur eftir meðferð en gerist með aðrar tegundir brjóstakrabbameins. Líkurnar virðast vera mestar fyrstu árin eftir meðferð. Í Kanada var gerð rannsókn á 1.600 konum sem birt var árið 2007. Hún sýndi að konum með þríneikvætt brjóstakrabbamein var hættara en öðrum við að meinið tæki sig upp einhvers staðar annars staðar en í brjóstinu – en aðeins fyrstu 3 árin. Svipaðar niðurstöður hafa komið út úr öðrum rannsóknum. Þegar frá líður verða líkur á að þríneikvætt brjóstakrabbamein taki sig upp svipaðar og gerist með aðrar tegundir brjóstakrabbameins.
Þær konur sem lifa lengur en í fimm ár frá greiningu virðast einnig vera færri í hópi þeirra sem fá þríneikvætt brjóstakrabbamein en hinna. Rannsókn sem birt var árið 2007 sýndi að af 50 þúsund konum með brjóstakrabbamein á öllum stigum lifðu 77% þeirra sem greindust með þríneikvætt brjóstakrabbamein í að minnsta kosti 5 ár frá greiningu á móti 93% þeirra sem voru með annars konar brjóstakrabbamein. Önnur rannsókn á rúmlega 1.600 konum sem birt var 2007 sýndi að meiri líkur voru á að konur með þríneikvætt brjóstakrabbamein létust innan fimm ára frá greiningu, en ekki að þeim tíma liðnum. Tölur úr þessum rannsóknum sem sýna hve oft mein tók sig upp og hve margar konur lifðu af og hve lengi eftir greiningu mynda meðaltöl fyrir þessa tegund brjóstakrabbameins. Þættir eins og gráða og á hvaða stigi meinið er hafa áhrif á batahorfur. -
Það hneigist til að vera af hærri gráðu en aðrar tegundir brjóstakrabbameins. Því hærri sem gráðan er, því minna líkjast krabbameinsfrumurnar eðlilegum, heilbrigðum brjóstafrumum í útliti og vaxtarmynstri. Á skalanum 1 til 3 er þríneikvætt brjóstakrabbamein oft af gráðu 3.
-
Frumugerðin er oftast svokölluð „grunngerð”. Það þýðir að frumurnar líkjast grunnfrumunum sem fóðra mjólkurganga (þekjufrumum). Þetta er nú talin vera ný undirtegund brjóstakrabbameins sem rannsakendur hafa borið kennsl á með erfðatækni. Eins og á við um aðrar tegundir brjóstakrabbameins er unnt að finna tengsl milli krabbameina af grunnfrumugerð og fjölskyldusögunnar, en slíku þarf þó ekki að vera til að dreifa. Þessar tegundir krabbameina hafa tilhneigingu til að vera ágengari og af hærri gráðu en önnur – rétt eins og þríneikvætt brjóstakrabbamein. Talið er að flest þríneikvæð brjóstakrabbamein séu af grunnfrumugerð.
Eðlilegt er að finna til kvíða við að heyra að krabbamein sé 1) oft ágengara en aðrar tegundir og 2) svari ekki meðferðum eins og með móthormónalyfjum eða herseptíni. Engu að síður er brýnt að hafa hugfast að unnt er að meðhöndla þríneikvætt brjóstakrabbamein. Um þessar mundir beinist athygli vísindamanna mjög að þríneikvæðu brjóstakrabbameini og leitað er nýrri og betri leiða til að ráða bót á því. Á netinu fjölgar þeim sem ræða einmitt um þessa tegund og hugsanlega getur þú fundir einhvern sem deilir með þér sömu áhyggjum og hvíla á þér.
ÞB