Áhættuþættir 

Áhættuþáttur" er allt sem getur aukið líkurnar á að þú fáir brjóstakrabbamein. Margir þeirra þátta sem skipta máli skipta getur þú engin áhrif haft á, svo sem aldur, fjölskyldusögu og heilsufars-/sjúkrasögu. Hins vegar eru áhættuþættir sem unnt er að hafa áhrif á svo sem reykingar, þyngd, hreyfing og áfengisneysla. 

Farðu og ræddu við heimilislækni þinn um mögulega áhættuþætti þína. Hugsanlega getur þú gert ýmislegt til að draga úr líkum á brjóstakrabbameini og þú getur fengið aðstoð  til að bregðast við í tíma. Læknir þinn þarf einnig að vita um þá áhættuþætti sem þú getur ekki haft áhrif á svo að hann viti hverjar líkur þínar raunverulega eru. 

Krabbameinserfðaráðgjöf

Erfðaráðgjöf vegna krabbameina er ferli sem falist getur í nokkrum samtölum og rannsóknum. Nokkur tími getur liðið á milli viðtala.

Ástæður fyrir erfðarágjöf vegna krabbameina geta verið t.d.:

  • Sterk ættarsaga
  • Æxli hafa greinst í pöruðum líffærum (báðum brjóstum t.d.)
  • Tvö eða fleiri (sjaldgæf) æxli greinast í sama einstaklingi eða nánum ættingjum
  • Ráðþegi (sá sem kemur í viðtal) hefur áhyggjur vegna fjöskyldulægs krabbameins
  • Æxli greind hjá ungum einstaklingum, yngri en meðalaldur fyrir viðkomandi krabbamein
  • Samskonar eða skyld æxli hjá mörgum í sömu fjölskyldu
  • Krabbamein sem greinast vísa í ákveðin heilkenni
  • Læknir telur fjölskyldusögu ráðþega gefa tilefni til þess að vísa í erfðaráðgjöf

Ath. Ekki þarf sérstaka tilvísun í erfðaráðgjöf LSH og hægt er að panta tíma milliðalaust. Sími í afgreiðslu erfðaráðgjafar er: 543 5070.

Kostnaður
Greiða þarf komugjald á göngudeild. Einnig þarf að greiða blóðtökugjald þegar blóð er tekið vegna erfðarannsókna.

Aldur er stærsti áhættuþáttur þess að fá brjóstakrabbamein. Því eldri sem þú verður þeim mun meira aukast líkurnar:

  • Á aldrinum 30 til 39 ára eru altækar líkur 1 á móti 233 eða 0,43%. Það þýðir að ein af hverjum 233 konum fær brjóstakrabbamein.

  • Á aldursbilinu 40-49 ára eru altæku líkurnar ein af hverjum 69 konum eða 1,4%.

  • Frá 50 til 59 ára aldurs eru altæku líkurnar ein af hverjum 38 konum eða 2,6%.

  • Á aldursbilinu 60 til 69 ára eru altæku líkurnar ein af hverjum 27 eða 3,7%.

Altækar líkur á að fá brjóstakrabbamein á langri ævi, sé t.d. gert ráð fyrir að kona nái áttræðisaldri, eru 1 á móti 8 með meðaltalslíkum á ævinni allri í kringum 13%. *Þessar tölur eru fengnar úr skrám Krabbameinsstofnunar Bandaríkjanna. Ekki er ólíklegt að svipaðar tölur gildi fyrir íslenskar konur svo og aðrar konur á Vesturlöndum. Viljirðu öðlast gleggri mynd af altækum og hlutfallslegum líkum, skaltu smella á  Að skilja líkur á brjóstakrabbameini.

Líkurnar aukast með aldrinum vegna þess að notkun og slit á líkamanum eykur líkur á afbrigðilegum erfðavísum (stökkbreytingu) eða „mistökum” sem líkaminn finnur ekki og getur ekki leiðrétt.

Að hafa fengið brjóstakrabbamein er áhættuþáttur, hvort heldur er að krabbamein taki sig upp aftur eða nýtt krabbamein myndist. Með öðrum orðum: Hafir þú nú þegar greinst með brjóstakrabbamein einhvern tíma á ævinni, eru líkur á að þú fáir það aftur meiri en hefðir þú aldrei fengið sjúkdóminn. Líkurnar vaxa um 1% á ári, þannig að á tíu ára tímbabili vaxa þær um 10%. Til eru ýmis lyf sem geta stuðlað að því að minnka líkurnar.

Brjóstakrabbamein í fjölskyldunni getur haft talsverð áhrif á líkur á að þú fáir brjóstakrabbamein. Þú skalt þó ekki gera ráð fyrir að brjóstakrabbamein í fjölskyldunni valdi því sjálfkrafa að þú sért í mikilli hættu. Hafi til dæmis amma þín greinst með brjóstakrabbamein við 75 ára aldur, þýðir það EKKI að líkur þínar hafi aukist. Lang líklegast er að amma þín hafi verið 1 af 15 konum sem á þessum aldri fá brjóstakrabbamein af sliti sem fylgir því að eldast.

Annars konar fjölskyldusaga gæti bent sterklega til þess að þú hafir erft gallað gen sem er óháð venjulegri öldrun og tengist tiltölulega meiri líkum á að fá brjóstakrabbamein. Eftirfarandi atriði gætu bent til þess að fyrirfinnast kunni afbrigðilegur erfðavísir (gen)  í fjölskyldunni. (Þetta gildir hvort sem um er að ræða fjölskyldu móður þinnar EÐA föður):

  • Að eiga móður, systur eða dóttur sem hefur greinst með brjóstakrabbamein.

  • Að í mörgum ættliðum fjölskyldunnar finnist konur sem hafa annaðhvort fengið brjóstakrabbamein eða krabbamein í eggjastokka.

  • Eigir þú náinn ættingja sem greindist með brjóstakrabbamein á yngri árum (undir fimmtugu),

  • Eigir þú ættingja sem hefur fengið krabbamein í bæði brjóstin.

Þú getur tekið að erfðum afbrigðilegan erfðavísi brjóstakrabbameins hvort heldur er frá móður EÐA föður. Sé annað foreldri þitt með þetta gen eru 50% líkur á að þú hafir erft genið frá honum eða henni. Komi í ljós að þú hefur þennan afbrigðilega erfðavísi, eru líkur á að þú fáir sjúkdóminn háðar því hvers konar afbrigði er um að ræða, hvernig það hefur hagað sér í fjölskyldu þinni og svo auðvitað því hvernig líkami þinn - sem er engum öðrum líkur - er úr garði gerður. Líkur á brjóstakrabbameini í fjölskyldum sem þessum eru afar breytilegar – allt frá 40% til 80% á langri ævi. Hafðu hugfast að brjóstakrabbamein af völdum meðfædds erfðagalla er ekki endilega alvarlegra eða óviðráðanlegra en aðrar tegundir brjóstakrabbameins.

Sumar tegundir brjóstakrabbameinsgena tengjast einnig auknum líkum á krabbameini í eggjastokkum (frá 20% upp í 60%).

Erfðaráðgjöf  getur hjálpað þér að skilgreina og skilja betur hvað fjöskyldusagan getur þýtt fyrir þig. Í erfðaráðgjöf er lagt mat á upplýsingar um fjölskyldusögu og ættgengi sjúkdóms. Slíka ráðgjöf má finna á Landspítala í síma 543-5070.

 ÞB