Líkur á brjóstakrabbameini
Hlutfallslegar líkur er tala eða prósentutala sem ber saman líkur eins hóps á að fá brjóstakrabbamein við annan hóp. Það eru svona líkur sem oft birtast í rannsóknarniðurstöðum þar sem iðulega er borinn saman hópur kvenna með mismunandi tegundir brjóstakrabbameins í því skyni að kanna hvort líkur séu minni eða meiri á að konur annars hópsins fái brjóstakrabbamein en konurnar í hinum hópnum (annað hvort við fyrstu greiningu eða endurkomu sjúkdómsins). Að skilja hlutfallslegar líkur getur hjálpað þér að svara mikilvægum spurningum: Breyti ég ákveðnum þáttum í lifnaðarháttum mínum eða fari í ákveðna meðferð, hve mikið eyk ég eða minnka líkur á að greinast með brjóstakrabbamein í fyrsta sinn eða fá það aftur?
Dæmi um auknar líkur á brjóstakrabbameini
Margar rannsóknir hafa sýnt að konur sem fá sér tvo eða fleiri áfenga drykki á dag eru líklegri til að fá brjóstakrabbamein en aðrar. (Drykkur er skilgreindur sem 360 ml af venjulegum brjór, 150 ml af léttvíni eða 45 ml af 89% vínanda). Þessum hlutfallslegu líkum heyrir þú ýmist lýst sem prósentutölu eða venjulegri tölu.
-
Í samanburði við konur sem ekki neyta áfengis hafa konur sem fá sér tvo eða fleiri drykki á dag 25% meiri líkur á að fá brjóstakrabbamein. Með öðrum orðum eru líkur þeirra á að fá brjóstakrabbamein einhvern tíma á ævinni 25% meiri en þeirra sem ekki neyta áfengis. Það merkir ekki að ævilíkur þeirra á að fá brjóstakrabbamein séu 25% — það táknar að líkur þeirra á að fá brjóstakrabbamein eru 25% meiri samanborið við konur sem ekki drekka — en þannig er oft sagt frá niðurstöðum eða hættu á krabbameini í sjónvarpi, blöðum eða á netinu.
-
Samanborið við konur sem ekki neyta áfengis hafa konur sem það gera 1,25% hlutfallslegar líkur á að fá brjóstakrabbamein. Þetta er sú tala sem rannsakendur nota og birtist í vísindaritum þegar talað er um hlutfallslegar líkur. Talan „1" er notuð fyrir viðmiðunarhópinn (konur sem ekki drekka) þar sem líkur þeirra breytast ekki af þessum sökum. Stafirnir fyrir aftan kommuna ,25 lýsa hlutfallslegri aukningu áhættunnar fyrir hinn hópinn og er önnur aðferð til að tákna 25% hærri líkur á ævinni (25% = 0,25) Önnur leið til að orða þetta er að segja að konur sem fá sér tvo drykki eða fleiri á dag séu með 1,25 sinnum meiri líkur (1 + 0,25) á að fá brjóstakrabbamein en þær sem ekki drekka áfengi.
Hlutfallslegar líkur geta verið viðsjárvert hugtak því að flestir einblína á prósentutöluna sem talað er um í fréttum — þ.e. 25% meiri líkur — sem hljómar afar illa svo ekki sé meira sagt. Vissulega eru 25% meiri líkur á að fá brjóstakrabbamein (samanborið við fólk sem ekki drekkur) töluvert há tala, en hún segir heldur ekki manneskju hver hættan er af að fá sér tvo eða fleiri áfenga drykki á dag það sem hún á eftir ólifað. Þar sem konur í þessum hópi eru 1,25% líklegri til að fá brjóstakrabbamein en aðrar er nauðsynlegt að margfalda altækar líkur kvenna í þjóðfélaginu (13% eða 0,13) með hlutfallslegu líkunum (1,25) (*tölurnar eru bandarískar og því miður hærri hérlendis ef eitthvað er):
-
0,13 x 1,25 = 0,1625 eða 16%. Það táknar að altækar líkur konu á að fá brjóstakrabbamein einhvern tíma á ævinni, neyti hún tveggja eða fleiri áfengra drykkja á dag eru rúmlega 16%. Það er nokkurn veginn 1 af hverjum 6 á móti 13% sem er ein af hverjum 8 konum sem ekki neyta áfengis.
Margir aðrir þættir hafa áhrif á hverjar líkurnar eru á að fá brjóstakrabbamein. Á netinu eru til tæki til að meta líkurnar miðað við gefnar forsendur, t.d. hér.
Dæmi um minnkaðar líkur á brjóstakrabbameini
Gerum ráð fyrir a þú hafir greinst með brjóstakrabbamein og farið í fleygskurð, en með slíkri aðgerð er æxlið skorið burt ásamt rönd af heilbrigðum vef. Altækar líkur á að brjóstakrabbamein taki sig upp í sama brjósti eru u.þ.b. 25%. Farir þú hins vegar í geislameðferð á brjóstvefnum sem eftir er, má draga úr líkunum um 60%. Til að lýsa þessum minnkandi líkum á sjúkdómnum kann læknir þinn að segja:
-
Samanborið við konur sem aðeins fara í fleygskurð og ekki geislameðferð verða líkur á að þú fáir aftur krabbamein í sama brjóst 60% minni, farir þú í geislameðferð eftir skurðaðgerðina.
Vísindamenn myndu trúlega orða þetta svona:
-
Samanborið við konur sem ekki fara í geislameðferð eru hlutfallslegar líkur á brjóstakrabbameini 0,40 (1 - 0,60 = 0,40). Hér er aftur miðað við töluna „1" fyrir viðmiðunarhóp sem ekki fer í viðbótar- eða fyrirbyggjandi meðferð til að minnka líkurnar. Talan 0,60 er dregin frá tölunni 1 vegna þess að hún táknar hve mikið líkurnar minnka. Með öðrum orðum eru líkurnar á því að meinið taki sig upp aftur í sama brjósti 40% eins og hjá þeim.
Að gefnum þessum forsendum má spyrja hverju geislameðferð myndi raunverulega breyta í þá átt að minnka altækar líkur á að meinið taki sig upp í sama brjósti? Til að finna það út þarf að margfalda hættu á endurkomu án geislameðferðar (25% eða 0,25) með hlutfallslegu líkunum 0,40:
-
0,25 x 0,40 = 0,10. Í þessu tilbúna dæmi eru altækar líkur á að meinið taki sig upp í sama brjósti 10%, eða 1 á móti 10, sé farið í geislameðferð, á móti 25%, eða 1 á móti 4, sé það ekki gert. Með öðrum orðum: Ein kona af hverjum 10 sem fer í geislameðferð má búast við að krabbameinið taki sig upp í sama brjósti, en ein af hverjum 4 sem ekki fara í geislameðferð.
Hlutfallslegu líkurnar er því tala sem segir þér hve mikið eitthvað sem þú gerir, ákveðin hegðun eða meðferð, getur breytt líkum á brjóstakrabbameini samanborið við þær sem ekki gera slíkt hið sama. Hlutfallslegar líkur sem nema:
-
0,5 táknar að líkurnar minnka um helming eða 50%.
-
1,88 táknar að líkurnar aukast um 88%.
-
3,0 táknar að líkurnar þrefaldast og fara upp í 300%.
Eins og þessi dæmi sýna getur þekking á því hve mikið líkur á brjóstakrabbameini aukast eða minnka með því að breyta ákveðnum lifnaðarháttum eða fara í ákveðna meðferð stuðlað að því að þið læknir þinn takið þær ákvarðanir sem koma þér að mestu og bestu gagni. Þetta eru tilbúin dæmi. Finna má meira um líkur á brjóstakrabbameini í kaflanum Minnkaðu líkurnar. Þar má m.a. finna nánari upplýsingar um áhættuþætti sem unnt er að hafa áhrif á svo sem:
Reykingar sem að einhverju leyti eru taldar auka líkur á brjóstakrabbameini.
Mataræði sem skiptir miklu máli þegar kemur að líkum á mörgum tegundum krabbameins, brjóstakrabbamein þar með talið. Sumir fullyrða að 30% af öllum tilfellum brjóstakrabbameins megi rekja til ófullnægjandi eða óholls mataræðis. Með vísindalegum rannsóknum hefur þó ekki tekist að sýna fram á svo óyggjandi sé hvaða fæðutegundir auka hættuna. Skynsamlegt getur verið að takmarka neyslu á rauðu kjöti og annarri dýrafitu (þar á meðal fitu í osti, mjólk og mjólkurís), þar eð í þannig fæðu kunna að leynast hormónar, aðrir vaxtarþættir, sýklalyf og skordýraeitur og sýnt hefur verið fram á samband þess að neyta mikils af rauðu og/eða unnu kjöti og auknum líkum á brjóstakrabbameini. Almennt er mælt með fitusnauðu mataræði, ríku af ávöxtum og grænmeti.
Þyngd. Að vera of þung er vissulega þekktur áhættuþáttur og eykur líkur á brjóstakrabbameini, einkum hjá konum sem komnar eru úr barneign. Fituvefur verður meginuppspretta estrógens í líkamanum þegar eggjastokkarnir hætta að framleiða hormóninn. Því meiri fita, þeim mun meira estrógenmagn sem kann að auka líkur á brjóstakrabbameini.
Áfengi. Rannsóknir hafa sýnt frám á tengsl áfengisneyslu og aukinnar áhættu á brjóstakrabbameini. Áfengisneysla í miklu magni getur takmarkað hæfni lifrarinnar til að stjórna magni estrógens í blóði. Áhættan er í því fólgin að estrógen örvar vöxt brjóstafruma.
„Pillan". Getnaðarvarnarlyf í pilluformi virðast auka örlítið hættu á brjóstakrabbameini en aðeins í ákveðinn tíma. Konur sem hættu að nota pilluna fyrir áratug eða meira virðast ekki vera í aukinni hættu.
Streita. Ekki hefur verið hægt að sýna fram á með óyggjandi hætti að streita auki líkur á brjóstakrabbameini. Óhætt mun þó að fullyrða að of mikil streita er ekki til góðs, hvorki fyrir almenna líkamsheilsu né líðan að öðru leyti. Allt sem gert er til að draga úr streitu, auka vellíðan, gleði og ánægju getur haft ómæld áhrif á lífsgæðin. Einkum er bent á að huglægar athafnir eins og að stunda hugleiðslu, jóga, sjónsköpun og bænir kunni að reynast mikilvægir þættir í daglegum eða vikulegum gjörðum og til eru þeir vísindamenn sem fullyrða að athafnir sem þessar styrkji ónæmiskerfið.
- Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB