Spurt og svarað - Almennt um brjóstakrabbamein

Hverjar eru líkurnar á að þú fáir brjóstakrabbamein? Hvaða meðferð er best fyrir þig?

Það sem þú ekki veist KANN að skaða þig. Rangar upplýsingar geta gert það að verkum að þú gerir þér ekki grein fyrir hverjar eru þínar eigin líkur á að fá brjóstakrabbamein og það getur komið í veg fyrir að þú verndir heilsuna eins vel og þér annars væri unnt. Hafðu staðreyndir á hreinu og verndaðu sjálfa þig.  Á Landspítala Háskólasjúkrahúsi er deild erfða- og sameindalæknisfræði þar sem er veitt klinisk erfðaráðgjöf í tengslum við brjóstakrabbamein og erfðatengd vandamál. Hægt er að panta tíma í erfðaráðgjöf á Landspítala í s.543-5070. Greiða þarf komugjald og blóðtökugjald.

Hér á eftir fara nokkrar algengar sögusagnir um brjóstakrabbamein og á eftir fylgja sögusagnir um tilteknar meðferðarleiðir.

Finnst brjóstakrabbamein bara hjá miðaldra og gömlum konum?


Líkur á brjóstakrabbameini aukast með aldrinum, en það getur komið fram á hvaða aldri sem er. Frá fæðingu til 39 ára aldurs fær ein kona af hverjum 231 brjóstakrabbamein (líkurnar eru <0,5% - minni en 0,5%); frá aldrinum 40-59 ára eru líkurnar ein af hverjum 25 konum (4% líkur); frá aldrinum 60-79 ára eru líkurnar ein af hverjum 15 (næstum 7%). Gerir þú ráð fyrir að ná níræðisaldri, eru líkurnar á að þú fáir einhvern tíma brjóstakrabbamein einn á móti sjö en meðaltalslíkurnar um14,3% á ævinni allri. Þess má líka geta að karlmenn geta fengið brjóstakrabbamein og á Íslandi greinast 1-2 á ári.

Hafi ég einhvern áhættuþátt brjóstakrabbameins er líklegt að ég fái sjúkdóminn?


Engin vissa er fyrir því að þú fáir brjóstakrabbamein, jafnvel þótt þú sért með sterkan áhættuþátt eins og til dæmis gallaðan arfbera brjóstakrabbameins. Af konum með BRCA1 og BRCA2 ættgengan, afbrigðilegan arfbera fá um 40-80% brjóstakrabbamein einhvern tíma á ævinni sem þýðir að 20-60% fá það ekki. Aðrir áhættuþættir tengjast miklu minni líkum á því að greinast nokkru sinni með brjóstakrabbamein.

Finnist engin tilfelli krabbameins í fjölskyldunni fæ ég það þá ekki?


Hjá sérhverri konu eru einhverjar líkur á að hún fái brjóstakrabbamein. Um það bil 80% allra kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein þekkja engin dæmi um sjúkdóminn í fjölskyldu sinni. Hækkandi aldur – notkun og slit líkamans – er stærsti einstaki áhættuþáttur brjóstakrabbameins. Hjá konum sem eiga einhverja fjölskyldusögu um brjóstakrabbamein kunna líkur að aukast lítillega, mikið eða ekki neitt. Hafir þú áhyggjur af þessu skaltu ræða við lækni þinn um fjölskyldusöguna eða tala við ráðgjafa í erfðafræði. Kannski hefurðu áhyggjur að ástæðulausu.

Eru það aðeins tilfelli brjóstakrabbameins í móðurfjölskyldu sem geta haft áhrif á líkurnar á brjóstakrabbameini?


Brjóstakrabbamein, hvort heldur er í móður- eða föðurætt, hefur jafn mikil áhrif á líkur þínar á að fá sjúkdóminn. Það er vegna þess að helmingur arfbera þinna kemur frá móður, hinn helmingurinn frá föður. Hins vegar eru líkur á að karlmaður með arfbera brjóstakrabbameins fái sjúkdóminn minni en konu með svipaðan arfbera. Viljir þú vita meira um um fjölskyldusögu föður þíns, skaltu fyrst og fremst athuga hvernig konum í föðurættinni hefur farnast – ekki einungis körlunum.

 Getur það að nota svitalyktareyði valdið brjóstakrabbameini?


Engar sannanir eru fyrir því að virk efni í svitaeyði eða það að draga úr svita í holhönd á annan hátt hafi áhrif á líkur á brjóstakrabbameini. Svokölluð tengsl brjóstakrabbameins og svitalyktaeyðis byggjast á röngum upplýsingum um líffærafræði og vanþekkingu á brjóstakrabbameini.

Getur pillan valdið brjóstakrabbameini?


Nú til dags innihalda getnaðarvarnarpillur smáan skammt af hormónunum estrógen og prógesterón. Ekki hefur verið sýnt fram á samband þeirra við auknar líkur á brjóstakrabbameini. Eldri gerðir af getnaðarvarnarpillum sem innihéldu stærri skammta voru í fáeinum könnunum taldar tengjast minni háttar aukningu á líkum. Getnaðarvarnarpillur eins og þær eru núna geta veitt nokkra vörn gegn krabbameini í eggjastokkum.

Veldur fiturík fæða brjóstakrabbameini?


Með þó nokkrum umfangsmiklum rannsóknum hafa þessi tengsl verið könnuð án þess að tekist hafi að finna greinilegt samband milli þess að neyta fituríkrar fæðu og aukinnar hættu á brjóstakrabbameini. Verið er að vinna að rannsóknum í því skyni að koma þessu atriði á hreint. Þó má fullyrða að heilsusamlegt sé að sniðganga fituríka fæðu af öðrum ástæðum t.d. til að minnka magn óæskilegs kólestróls (gisinna fituprótína) og auka magn æskilegs kólestróls (þéttra fituprótína),  til að rýma fyrir heilsusamlegri fæðu í mataræðinu og stuðla að því að hafa stjórn á líkamsþyngd. Of mikil líkamsþyngd er sannarlega viðurkenndur áhættuþáttur brjóstakrabbameins vegna þess að óþörf fita eykur framleiðslu estrógens annars staðar en í eggjastokkum og bætir þar með við estrógenmagn líkamans. Sértu nú þegar of þung eða hefur tilhneigingu til að þyngjast auðveldlega, er heillaráð að forðast fituríka fæðu.

Er besta leiðin til að finna brjóstakrabbamein að skoða brjóstin sjálf einu sinni í mánuði ?



Vönduð brjóstamyndun með röntgentækni er áreiðanlegasta leiðin til að finna brjóstakrabbamein eins fljótt og auðið er og á meðan auðveldast er að lækna það. Um það bil sem hægt er að finna hnút eða krabbameinsæxli með þreifingu er það yfirleitt orðið stærra en meðalstærð þess krabbameins sem finnst með brjóstamyndun. Engu að síður er mjög mikilvægt að þú skoðir brjóst þín sjálf eða látir heimilislækni þinn skoða þau. Um það bil 25% tilfella brjóstakrabbameins finnast með þreifingu einni saman (ekki röntgenmyndatöku), um það bil 35% finnast einungis með brjóstamyndatöku, en 40% finnast með læknisskoðun og brjóstamyndatöku. Nýttu þér hvort tveggja.

Er eitthvað hægt að gera ef líkur á að fá brjóstakrabbamein eru miklar?


Já, ýmsar áhrifaríkar leiðir eru til sem minnka – en útiloka ekki – líkur á brjóstakrabbameini hjá konum sem er í áhættuhópi með miklar líkur. Þar á meðal eru breytingar á lifnaðarháttum (draga úr áfengisneyslu, hætta að reykja, hreyfa sig reglulega) og lyfjagjöf (Tamoxifen®, sem einnig gengur undir nafninu Nolvadex®). Séu líkurnar yfirgnæfandi kann að verða mælt með skurðaðgerð (fyrirbyggjandi brjóstnámi, og hjá sumum konum að eggjastokkar séu fjarlægðir í forvarnarskyni). Leitaðu ráða hjá lækni eða ráðgjafa í erfðafræði áður en þú ferð að gera þér ákveðnar hugmyndir um hverjar líkur þínar kunni að vera.

Jafngildir það dauðadómi að greinast með brjóstakrabbamein?


Rúmlega 80% kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein sýna engin merki um fjarmeinvörp (merki þess að krabbamein hafi dreift sér út fyrir brjóstasvæði og aðliggjandi eitla). Um 80% þeirra kvenna lifa að minnsta kosti í fimm ár og flestar lifa miklu, miklu lengur. Jafnvel konur með merki um meinvörp af völdum krabbameins geta átt langt líf fyrir höndum. Auk þess finnast nýjar meðferðarleiðir nánast daglega sem allar lofa góðu.