Spurt og svarað um geislameðferð

Eðlilegt er að manneskja sem er að byrja nýja læknismeðferð sé svolítið smeyk – jafnvel dauðskelfd eftir atvikum. Hjá konum sem eru að byrja í geislameðferð virðist þessi ótti að einhverju leyti eiga sér rætur í og styrkjast af algengum misskilningi í sambandi við meðferðina.

 Er geislameðferð ekki sársaukafull?

Nei, í rauninni ekki.

Flestir sjúklingar finna ekki fyrir neinu þegar þeir taka við daglegum geislaskammti. Fáeinir segjast finna fyrir svolítilli hitatilfinningu eða fiðringi á svæðinu á meðan verið er að geisla það. Með tímanum mun húðin á svæðinu sem verið er að meðhöndla verða þurr, sár, koma kláði í hana eða brenna. Þetta getur verið óþægilegt en yfirleitt ekki svo mjög að konan vilji að meðferðinni sé hætt eða hlé gert á henni.

Meira um hvernig hægt er að takast á við viðbrögð húðarinnar.

 Gerir geislameðferð mig geislavirka?

Aðeins í ákveðnum tilfellum.

Sértu geisluð utanfrá verður þú aldrei nokkurn tíma geislavirk. Geislinn sem þú færð á þig fer inn í vefinn á augabragði – og engin geislun situr eftir þegar slökkt hefur verið á tækinu. Á meðan þú ert að reyna að halda daglegum venjum þínum er mikilvægt að minna vini, fjölskyldu og samstarfsfólk á að engin hætta er á að þau verði fyrir geislavirkni af þínum völdum. Fáir þú innvortis geislameðferð sem “viðbót” við lok meðferðar, verður þú geislavirk á meðan hið geislavirka efni er í þér. Á meðan þú færð þess háttar meðferð ertu höfð í einangrun.

 Verður geislameðferð til þess að ég missi hárið?

Nei, að minnsta kosti ekki hárið á höfðinu.

Sértu á leið í geislameðferð missir þú ekki hárið á höfðinu (hár á geirvörtu eða neðantil í holhöndinni, næst brjóstinu, kann að detta af meðan á meðferð stendur en það vex aftur). Sá misskilningur að geislameðferð valdi því að þú missir hárið stafar af því að ruglað er saman áhrifum krabbameinslyfjameðferðar og geislameðferðar. Þar sem margir sjúklingar fara í geislameðferð strax að lokinni lyfjameðferð er skiljanlegt að hliðarverkunum þessara tveggja meðferða sé ruglað saman. Meðferð með krabbameinslyfjum hefur áhrif á allan líkamann og þess vegna er líklegt að þú missir hárið af hennar völdum. Geislameðferð er hins vegar meðferð sem beinist eingöngu að vefjum á brjóstasvæðinu og hugsanlega aðliggjandi eitlum. Því aðeins missir þú hárið af höfðinu að það sé geislað. 

 Veldur geislameðferð á brjóst og eitla ógleði og uppköstum?

Nei, það er ekki rétt.

Geislameðferð á brjóst og eitla veldur ekki ógleði eða uppköstum. Líklegast er að þessar sögur spretti af því að oft er ruglað saman geislameðferð og áhrifum meðferðar með krabbameinslyfjum. Viss krabbameinslyf geta valdið ógleði og uppköstum. Lyf eins og Tamoxifen® og ákveðin verkjalyf geta sömulieðis valdið vægri ógleði. Einnig getur átt sér stað að maginn verði viðkvæmur af streitu og áhyggjum sem þú kannt að finna fyrir í kjölfar veikindanna.

 Mun geislameðferð  auka líkur á að ég fái aftur krabbamein?

 Nei, það er ekki rétt.

Tilgangurinn með því að geisla brjóstið er einmitt sá að minnka líkur á að krabbamein taki sig upp. Að geisla annað brjóstið eykur ekki líkur á að þú fáir krabbamein í hitt brjóstið. Vissulega er ákveðið samband fyrir hendi milli geislunar og krabbameins því að ungar stúlkur sem fá geislameðferð á miðmæti (eitlasvæði á bak við bringubeinið) sem meðferð við Hodgkinsveiki eru líklegri til að fá brjóstakrabbamein en aðrar. Það stafar af því að brjóst sem er að vaxa eru viðkvæmari fyrir geislaskemmdum en fullþroska brjóst. Einnig var lítill hluti kvenna sem varð fyrir geislun af völdum kjarnorkusprengjunnar sem varpað var á Hiroshima í síðari heimsstyrjöld líklegri til að fá brjóstakrabbamein síðar á ævinni en aðrar konur. Sá skilningur er nú almennt viðurkenndur að það stafi af því að konurnar urðu fyrir geislun á allan líkamann. Geislum í lækningarskyni eins og þú munt fá er aftur á móti beint hárnákvæmt á brjóstasvæðið með nánast engri “dreifingu” á önnur svæði líkamans.

ÞB