Spurt og svarað um lyfjameðferð
Er betra að fá meira en minna af krabbameinslyfjum?
Hér á ekki við að betra sé meira en minna.
Mestu máli skiptir í lyfjameðferð við krabbameini að lyfin séu rétt sett saman, hvorki meira né minna en fyrirskipaðir skammtar segja til um. Mikilvægt er þó að fá að minnsta kosti staðlaðan skammt en það hefur enga raunverulega kosti að stækka eða fjölga skömmtum umfram það.
Ef ég veikist ekki af lyfjameðferðinni kemur hún þá ekki að tilætluðu gagni?
Rangt.
Hugmyndin um að enginn verði "óbarinn biskup” í krabbameinslyfjameðferð á ekki við rök að styðjast. Ekkert samband er á milli þess hve illa lyfjameðferðin fer í þig og árangurs í baráttunni við krabbameinið. Hver og einn bregst við á sinn hátt. Sumar konur verða sjaldan varar við aukaverkanir, aðrar finna fyrir þeim daglega.
Verður yngri konum fremur óglatt af lyfjunum en þeim sem eldri eru?
Það er rétt.
Því yngri sem þú ert þeim mun líklegra er að þú finnir fyrir ógleði af lyfjunum. Í heilanum er svæði sem sendir frá sér ógleðiboð og þau svæði rýrna með aldrinum.
Þarf manni að verða verulega óglatt af lyfjunum til þess að læknar viti hvernig maður bregst við þeim?
Það þarf engum að verða óglatt. Þú færð ógleðilyf í æð þegar þú færð fyrstu lyfjagjöfina og ógleðilyf til að taka með þér heim og nota eftir þörfum, aðallega fyrstu tvo sólarhringana á eftir.
Verður manni sífellt meira óglatt með hverri lyfjagjöf og þreyttari eftir því sem tíminn líður?
Bæði rétt og rangt.
Líði þér illa eftir hverja lyfjagjöf, á krabbameinslæknir þinn að geta breytt um velgjuvarnarlyf eða breytt skammtinum og öðru sem á að auðvelda þér meðferðina. Þótt þér verði óglatt eftir fyrstu lyfjagjöf þarf það ekki að þýða að þér verði líka óglatt næst eða ógleðin fari versnandi. Hins vegar er þreyta eitthvað sem safnast upp. Þér mun ekki finnast þú hafa eðlilega orku aftur fyrr en meðferðinni er að fullu lokið og einhver tími er um liðinn.
ÞB