Hvernig myndast brjóstakrabbamein?
|
Þversneið af brjósti |
Brjóstið er kirtill og skapað til þess að framleiða mjólk. Mjólkurkirtlar í brjóstinu framleiða mjólk sem síðan rennur gegnum mjólkurganga út í geirvörtur.
Eins og í öllum öðrum hlutum líkamans vaxa frumur í brjósti og hvílast á víxl. Tímabilum vaxtar og hvíldar í hverri frumu er stjórnað af erfðavísum (genum) í kjarna hennar. Frumukjarninn er eins og stjórnklefi í hverri frumu. Þegar frumurnar starfa rétt er frumuvöxtur eðlilegur og honum haldið í skefjum. Þegar erfðavísar (gen) þróa með sér afbrigði (stökkbreytast), kunna þeir hins vegar að glata hæfileikanum til að stjórna hringrás vaxtar og hvíldar. Viljirðu lesa um hin ýmsu stig brjóstakrabbameins skaltu smella hér.
Brjóstakrabbamein er vöxtur brjóstafrumna sem fylgir ekki hefðbundnum reglum um frumusamskipti í líkamanum
Ífarandi krabbameinsfrumur hafa þann eiginleika að geta brotist í gegnum eðlilega brjóstvefshimnu og dreift sér (sáð sér) til annarra hluta líkamans. Krabbamein er ævinlega af völdum einhvers konar “afbrigðileika” í erfðavísum (genum) eða “galla” í erfðaefni. Hins vegar er krabbamein aðeins í 5-10% tilfella ættgengt, þ.e.a.s.fengið í arf frá föður eða móður. Þess í stað eru um 90% alls brjóstakrabbameins af völdum genagalla sem verður af völdum öldrunar eða því að vera til og lifa, ef svo má að orði komast.
Vissulega er það svo að sérhver kona getur gert ýmislegt til að halda líkama sínum eins heilbrigðum og unnt er, með því til dæmis að borða vel samsetta fæðu, reykja ekki, reyna að forðast mjög mikla streitu og hreyfa sig reglulega. Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er hægt að fullyrða að krabbamein sé einhverju að kenna. Að vera með sektarkennd eða segja við sjálfa þig að þú hafir fengið krabbamein af einhverju sem þú eða einhver annar gerði þjónar engum tilgangi og getur jafnvel haft slæm áhrif á þig.
ÞB