Staðbundið mein í mjólkurgangi - DCIS

(Ductal Carcinoma In Situ)

Hafir þú nýlega greinast með staðbundið mein í mjólkurgangi (eða einhver þér nákomin), eru sjálfsagt margar spurningar sem þér finnst þú þurfa að fá svarað eða rifja upp:

Er DCIS raunverulegt krabbamein?

Yfirleitt hugsum við okkur krabbamein sem sjúkdóm sem vex stjórnlaust. Staðbundið mein í mjólkurgangi, DCIS, er hins vegar tegund krabbameins sem ekki er ífarandi. Það heldur sig inni í mjólkurgangi brjóstsins þar sem það á upptök sín. Það getur vaxið og náð yfir lítinn eða stóran blett í brjóstinu, en það sáir sér ekki ÚTFYRIR mjólkurgang og inn í heilbrigðan aðliggjandi vef, í eitla eða í önnur líffæri.

Í stigunarkerfi sem læknar nota til að flokka krabbamein er DCIS sett í flokk 0. Stundum er einnig talað um það sem „forstigs” krabbamein. Stundum er það einnig kallað setmein, á ensku tis sem eru upphafsstafirnir í tumor in situ sem er latína og þýðir “á sama stað".

Er DCIS þá ekki raunverulegt krabbamein? Svarið er jú, vegna þess að DCIS er stjórnlítill vöxtur brjóstafrumna. Hins vegar hagar þetta krabbamein sér á annan hátt en flestar aðrar tegundir. DCIS brýtur sér ekki leið inn í heilbrigðan vef sem þýðir að það er ekki lífshættulegt eins og annað krabbamein. Engu að síður er nauðsynlegt að meðhöndla DCIS af ítrustu læknisfræðilegri þekkingu.

Hvers konar meðferð verður nauðsynleg?

Sé svæðið sem setmeinið nær yfir nógu lítið er líklegast að þú verðir send í fleygskurð, aðgerð sem gerir það mögulegt fyrir þig að halda brjóstinu því að eingöngu er fjarlægður sá hluti þar sem krabbamein er að finna. Séu æxli aftur á móti stór eða á víð og dreif um brjóstið verður nauðsynlegt að framkvæma brjóstnám, skurðaðgerð sem felur í sér að allt brjóstið er tekið.

Fleygskurði er yfirleitt fylgt eftir með geislameðferð. Venjulega er allt brjóstið geislað, en verið er að gera nýja rannsóknir á því að geisla aðeins hluta brjóstsins.

Sé hið staðbundna krabbamein í mjólkurgangi (DCIS) talið svo alvarlegt að nauðsynlegt sé að fjarlægja allt brjóstið, ferðu ekki í geislameðferð nema rannsókn á rannsóknarstofu leiði í ljós að krabbameinsfrumur er að finna í eða nálægt skurðbrún á brjóstvefnum sem var fjarlægður.

Mælt er með andhormónameðferð, leiði rannsókn á rannsóknarstofu í ljós að krabbameinsfrumurnar eru með hormónaviðtaka. Á þessu stigi er tamoxifen það andhormónalyf sem mælt er með fyrir þessa tegund krabbameins. Ávísað er á lyfið til að draga úr hættu á að krabbameinið taki sig aftur upp og til að minnka hættu á nýju krabbameini. Rannsóknir standa yfir á því hvort meðferð með aromatasetálmum, annarri tegund andhormónameðferðar, geti nýst konum með staðbundið krabbamein í mjólkurgangi (DCIS).

Meðferð með krabbameinslyfjum er óþörf þegar um staðbundið mein í mjólkurgangi er að ræða vegna þess að þessi tegund krabbameins sáir sér ekki í aðliggjandi vefi.

Þarf að taka brjóstið? Fer hárið?

Fæstar konur með staðbundið mein í mjólkurgangi þurfa að fórna brjóstinu. Aðgerð sem felst í að fjarlægja allt brjóstið (brjóstnám) er því aðeins nauðsynleg að meinið sé stórt eða á mörgum stöðum í brjóstinu.

Meðferð með krabbameinslyfjum er óþörf fyrir konur með staðbundið mein í mjólkurgangi (DCIS). Þar af leiðandi missirðu ekki hárið.

Getur krabbameinið tekið sig upp aftur eftir meðferð?

Hafir þú fengið staðbundið mein í mjólkurgang eru meiri líkur hjá þér á að meinið taki sig upp og/eða að þú fáir nýtt brjóstakrabbamein en hjá konu sem aldrei hefur fengið brjóstakrabbamein. Líkur á að staðbundið krabbamein í mjólkurgangi taki sig upp sem ífarandi krabbamein eru á bilinu 25%-50%. Engu að síður getur verið uppörvandi að vita að DCIS er í sjálfu sér EKKI ífarandi.

Á eftirfarandi síðum geturðu kynnt þér eftirfarandi:

Aðalatriðin í sambandi við DCIS

Kynntu þér hvað staðbundið krabbamein í mjólkurgangi (DCIS) felur í sér, hverjir eiga á hættu að fá það, hvernig það er greint og hversu alvarlegt það er.

Tegundir og mismunandi gráður DCIS

Kynntu þér mismunandi gráður og vaxtarmynstur DCIS.

Hvernig gráða hefur áhrif á meðferðarleiðir

Hvernig umfang DCIS hefur áhrif á meðferðarmöguleika

Meinið verður rannsakað í því skyni að finna hvaða svæði eru sýkt, stærð æxlis, hvar mörk hreinnar skurðbrúnar liggja, niðurstöður geislarannsókna eftir að vefjasýni hefur verið tekið og hvort fyrir hendi er blóðug útferð úr geirvörtu.

Hvernig sérkenni DCIS æxlis geta haft áhrif á meðferðarmöguleika

Sérhvert æxli hefur sín eigin einkenni, og læknar tala stundum um þau sem sérkenni eða „persónuleika” æxlisins. Einkennum staðbundins meins í mjólkurgangi er lýst út frá gráðu fjölda dauðra krabbameinsfruma í æxlinu, vaxtarmynstri, smásjáríferð, stöðu hormónaviðtaka og hvernig stig sjúkdómsins kynni að breytast við ákveðnar aðstæður.

Hvernig fjölskyldusaga og einkalegir þættir geta haft áhrif á meðferðarmöguleika

Mörg tilfelli brjóstakrabbameins í fjölskyldu þinni er atriði sem getur haft áhrif á meðferðarmöguleika þína, hvaða möguleika þú átt á að sækja geislameðferð, komast í aðgerð til að byggja upp brjóstið, svo og þínar eigin óskir og ákvarðanir.

Hvernig staðbundið mein í mjólkurgangi (DCIS) er meðhöndlað

Krabbameinslæknirinn þinn mun ræða við þig um hvers konar aðgerð sé best að þú farir í: fleygskurð (og þá heldurðu brjóstinu að töluverðu leyti) eða brjóstnám (þar sem brjóstið er allt fjarlægð), hugsanlega geislameðferð – allt eftir aðstæðum þínum.

Hvort er rétt fyrir þig að fara í fleygskurð eða brjóstnám?

Ákvörðun um það hvort rétt er að þú farir í fleygskurð eða brjóstnám, með eða án geislameðferðar, er háð útbreiðslu meinsins í brjóstinu.

Viðbótarmeðferð (fyrirbyggjandi meðferð) og eftirfylgni

Stundum getur verið gagnlegt að kanna ástand varðeitla, jafnvel þótt vitað sé að DCIS sáir sér afar sjaldan út fyrir brjóstið. Einnig gæti andhormónameðferð haft hlutverki að gegna til að draga úr hættu á brjóstakrabbameini síðar meir. Hér geturðu einnig kynnt þér ýmislegt um eftirfylgd og umönnum að meðferð lokinni.

Sérfræðingurinn sem fjallar um staðbundið mein í mjólkurgangi, DCIS, er Marisa Weiss, M.D., krabbameinslæknir og sérfræðingur í geislalækningum við Thomas Jefferson University Health System, Philadelphia, PA.

Dr. Weiss er meðlimur í Ráðgefandi læknaráði breastcancer.org þar sem eiga sæti yfir 60 sérfræðingar á þeim sviðum læknisfræðinnar sem tengjast krabbameini.

ÞB