Aðalatriðin í sambandi við DCIS
Yfirlit
Staðbundið mein í mjólkurgangi, DCIS, er algengasta tegund brjóstakrabbameins sem er ekki ífarandi. Fjöldi tilfella í heiminum er óþekktur vegna þess að í fæstum alþjóðlegum krabbameinsskrám eru svona tilfelli skráð. Í Bandaríkjunum greinast samkvæmt Krabbameinsfélagi Bandaríkjanna, The American Cancer Society, um 60.000 tilfelli á ári. Tvær ástæður eru taldar fyrir því að talan er svo há og hefur farið vaxandi:
-
Konur lifa mun lengur en áður. Með hækkandi aldri aukast líkur á brjóstakrabbameini.
-
Fleiri konur fara í brjóstamyndatökur og aðferðin við þær hefur tekið framförum. Með betri krabbameinsleit er nú auðveldara að greina krabbamein á frumstigi en áður.
Mikilvægt er að þekkja til allra aðalatriða í þessu sambandi þannig að þú getir rætt þau við lækni þinn og skilið sjúkdómsgreininguna, meðferðina og eftirfylgnina. Það sem þú þarft að vita er:
Hvað þýðir staðbundið mein í mjólkurgangi (DCIS – ductal carcinoma in situ)?
Heitið staðbundið mein í mjólkurgangi felur í sér þrennt:
-
„Í mjólkurgangi" þýðir að upptök meinsins eru í mjólkurgangi eða -göngum.
-
„Mein” eða “carcinoma" vísar til hvaða tegundar krabbameins sem vera skal sem á upptök sín í húðinni eða öðrum vef (þar á meðal í brjóstavef) sem hylur eða þekur innri líffæri (í þekjuvef).
-
In situ er latína og þýðir „á sínum (upprunalega) stað". Það þýðir að krabbameinið er ekki-ífarandi, stundum kallað setmein: það hefur ekki sáð sér inn í eðlilegan aðliggjandi brjóstvef.
Hverjir eiga á hættu að fá DCIS?
Konur sem miklar líkur eru á að fái DCIS líkjast að flestu leyti þeim konum sem miklar líkur eru á að fái ífarandi krabbamein. Sameiginlegir áhættuþættir eru meðal annars:
-
Að hafa aldrei gengið með og alið fullburða barn.
-
Að hafa gengið með og alið sitt fyrsta barn eftir þrítugt.
-
Að hafa snemma orðið kynþroska og blæðingar byrjað.
-
Að hafa seint hætt að hafa blæðingar.
-
Að eiga foreldri eða systkin með brjóstakrabbamein.
-
Að hafa tekið inn hormóna við tíðahvarfaeinkennum lengur en í fimm ár, sérstaklega ef settir voru saman hormónarnir estrógen og prógestín.
-
Að vera með ættgengan, stökkbreyttan arfbera brjóstakrabbameins (BRCA1 or BRCA2).
Hvernig er DCIS greint?
Yfirleitt fylgja engin líkamlega einkenni staðbundnu meini í mjólkurgangi (DCIS). Aðeins hjá fáum konum er hægt að merkja hnút í brjóstinu eða útferð um geirvörtu.
DCIS finnst venjulega við brjóstamyndatöku. Þegar aldraðar krabbameinsfrumur deyja og safnast upp myndast litlar kalkörður (kalkanir) innan frá í frumum sem brotna niður. Brjóstamyndir sýna krabbameinsfrumur sem safnast í svona kalkanir inni í mjólkurgangi sem skugga eða hnút.
Komi eitthvað grunsamlegt fram á brjóstamyndinni þinni, vill læknir þinn trúlega að tekið sé sýni úr brjóstinu. Tvær aðferðir eru tiltækar til að ná sýni úr brjósti með mjög litlu inngripi. (Meiri háttar inngrip eru yfirleitt ekki nauðsynleg þegar um DCIS er að ræða):
-
Fínnálarsýni: Afar fíngerðri nál, holri að innan, er stungið í brjóstið og sóttar í hana frumur til að rannsaka í smásjá. Svona stunga skilur ekki eftir sig ör. *Þetta er sú aðferð sem yfirleitt er notuð hér á landi við fyrstu sýnistöku, öðru nafni „frumusýni”.
-
Grófnálarsýni: Mun stærri nál er stungið í brjóstið til að sækja í það nokkur stærri vefjarsýni úr svæðinu sem virðist grunsamlegt. Til að koma nálinni í gegnum húðina, þarf skurðlæknir að gera lítinn skurð. Þessi aðgerð skilur eftir sig örlítið ör sem sést varla með berum augum eftir nokkrar vikur. Vefjarsýnin eru skoðuð í smásjá. Venjulega hefur verið náð í nægilega mikið af vef til að gera aðrar rannsóknir eins og til dæmis á hormónaviðtökum og HER2-stöðu.
Sýnin eru tekin til að staðfesta greiningu, ekki til að fjarlægja allt krabbamein. Frekari skurðaðgerðar er þörf til að ná burtu öllu krabbameini þannig að skurðbrúnir séu hreinar.
Hve alvarlegt er staðbundið mein í mjólkurgangi (DCIS)?
Mein af þessu tagi er ekki lífshættulegt. Það er ekki ífarandi og er talið forstig krabbameins eða stig 0. Krabbamein á þessu stigi (yfirleitt flokkað sem forstigskrabbamein) er stjórnlítill vöxtur frumna sem sitja inni í mjólkurgöngum þar sem það á upptök sín. Það hefur enn ekki komist upp á lag með að vaxa út úr mjólkurgangi yfir í önnur svæði líkamans.
Þótt þessi tegund krabbameins haldi sig í mjólkurgangi, eykur það líkur á að fá ífarandi krabbamein síðar meir. Á bilinu 25% til 50% kvenna sem AÐEINS eru meðhöndlaðar með skurðaðgerð (án geislameðferðar) fá fyrr eða síðar ífarandi krabbamein. Oftast stingur svona krabbamein sér aftur niður (endurmein) á fyrstu 5 til 10 árunum eftir að konan greindist með DCIS.
Nýtt krabbamein getur fundist allt að 25 árum síðar – eða jafnvel enn síðar. Venjulega greinist það þá á sama stað og DCIS fannst áður. Nýja krabbameinið getur hvort heldur sem er verið ekki-ífarandi (og þar af leiðandi ekki lífshættulegt) eða ífarandi (hugsanlega alvarlegt). Meginmarkmiðið með því að meðhöndla staðbundið mein í mjólkurgangi er að draga úr hættu á ífarandi krabbameini síðar meir.
Yfirleitt felur meðferð við staðbundnu meini í mjólkurgangi í sér aðgerð sem gerir konunni kleift að halda brjóstinu (fleygskurð). Fjarlægja verður æxlið þannig að skurðbrúnir séu hreinar. Til að draga til muna úr hættu á að fá ífarandi krabbamein mæla flestir læknar með viðbótarmeðferð með geislum eftir að meinið hefur verið fjarlægt með skurðaðgerð.
Konur sem greinast með staðbundið mein í mjólkurgangi sem reynist vera með hormónaviðtökum, geta valið þann kost að fara í andhormónameðferð eftir skurðaðgerð til að draga úr hættu á að sjúkdómurinn taki sig upp eða á að fá nýtt krabbamein.
ÞB