Meðferð sem hefur áhrif á allan líkamann
Konur sem greinast með staðbundið mein í mjólkurgangi (DCIS) eiga ljómandi möguleika á að lifa löngu og heilbrigðu lífi. Með því að bæta and-estrógen meðferð (andhormónameðferð) við skurðaðgerð og geislameðferð gerir þú mjög góðar horfur svolítið betri.
-
Tamoxifen: Til eru margar rannsóknir þar sem kannaður hefur verið árangur þess að nota tamoxifen ýmist í staðinn fyrir eða í kjölfar geislmeðferðar að loknum fleygskurði þegar um er að ræða krabbamein á fyrstu stigum með hormónaviðtökum. Tamoxifen er and-estrógenlyf sem lokar á estrógen í brjóstinu og á þannig þátt í að hægja á vexti krabbameinsfrumna. Rannsóknir benda til að konur með krabbamein með estrógenviðtökum (estrógenviðtaka-jákvætt krabbamein) sem taka inn tamoxifen, geti minnkað líkurnur á að fá ífarandi krabbamein eða á því að meinið taki sig upp.
-
Aromatase-hemlar: Ekki hefur verið sýnt fram á svo óyggjandi sé að anastrozole (Arimidex®), letrozole (Femara®) og exemestane (Aromasin®) geri konum eitthvert gagn sem greinast með staðbundið mein í mjólkurgangi (DCIS). Nú standa yfir nokkrar klínískar rannsóknir þar sem verið er að leita svara við þeirri spurningu.
Eftirlit
Þótt DCIS sé ekki ífarandi og teljist krabbamein á stigi 0, er samt áríðandi að fara reglulega í eftirlit hjá lækni og á leitarstöð. Einnig er brýnt að láta fylgjast vel með hinu brjóstinu. Læknir þinn kann að vilja hitta þig oftar en einu sinni á ári og fer það eftir aðstæðum og ástandi.
Verðir þú vör við einhverjar breytingar í brjóstinu áður en komið er að reglulegu eftirliti hefurðu að sjálfsögðu samband við lækni þinn þegar í stað og pantar tíma.
Við hverja heimsókn ætti læknir að:
-
Leita að einkennum eða teiknum um að sjúkdómurinn sé hugsanlega að taka sig upp eða nýtt krabbamein að myndast,
-
fara yfir niðurstöður greiningarmynda af brjóstinu, eins og brjóstamynda, ómskoðuna og segulómunar,
-
kanna hvort einhver vandamál hafa komið upp í framhaldi af krabbameinsmeðferðinni (eins og t.d. beingisnun af völdum andhormónalyfja) og
-
kanna og ræða við þig atriði sem tengjast því að eldast svo sem liðverki, hreyfingu, matarlyst og mataræði.
Þessar heimsóknir eru vel til þess fallnar að styrkja samband þitt við lækninn og ræða hverja þá spurningu sem þú kannt að hafa varðandi heilsufar þitt, hvort sem það er þungun, eitthvað sem snertir kynlífið, tíðahvarfaeinkenni eða annað sem þú hefur þörf fyrir að ræða.
ÞB