Fjölskyldusaga og aðstæður hafa áhrif á meðferðarleiðir
Það getur haft áhrif á hvernig staðbundið mein í mjólkurgangi - DCIS -verður meðhöndlað séu tilfelli brjóstakrabbameins algeng í ættinni þinni. Mörg tilfelli brjóstakrabbameins getur þýtt að meiri hætta er á að nýtt brjóstakrabbamein myndist síðar meir.
Þetta á við bæði föður- og móðurætt. Sumt vegur þó þyngra en annað. Það telst mikil og sterk fjölskyldusaga hafi nokkrir nánir ættingjar fengið brjóstakrabbamein og hugsanlega einnig krabbamein í eggjastokka. Þetta á einkum við þegar það gerist fyrir fimmtugt.
Séu mörg dæmi um brjóstakrabbamein í ættinni gæti það hjálpað þér að fá erfðaráðgjöf. Þegar farið hefur verið ítarlega yfir fjölskyldusöguna, kann læknir þinn að leggja til að þú farir í rannsókn þar sem leitað verður af afbrigðilegum arfberum brjóstakrabbameins, BRCA1 og BRCA2.
Hluterk þessara arfbera er að sjá til þess að brjóstafrumur vaxi eðlilega og koma í veg fyrir krabbameinsvöxt. Þegar arfberarnir eru óeðlilegir -stökkbreyttir - eru þeir taldir tengjast auknum líkum á brjóstakrabbameini. Talið er að rekja megi um 10% brjóstakrabbameina til afbrigðilegra BRCA1 og BRCA2 arfbera (*7-8% hér á landii).
Að greinast með DCIS eykur líkur á að greinast seinna meir með ífarandi krabbamein. Því er mjög mikilvægt að þekkja heilsufarssögu þína og heilsufarssögu móður þinnar, systur eða systra og dóttur eða dætra, svo og kvenkyns ættingja föður þíns. Það kann að hjálpa þér að ákveða hvort þú eigir að fara í erfðarannsókn. Það getur einnig hjálpað þér að komast að niðurstöðu um hvernig arfgerð þín gæti haft áhrif á meðferðina sem verður fyrir valinu í þínu tilfelli.
Komi til dæmis í ljós að þú ert með stökkbreyttan arfbera, gætirðu tekið þann kost að láta framvegis fylgjast vel með þér með rannsóknum og myndatökum. Einnig er til í dæminu að bregðast mun harðar við og taka inn lyf sem minnka líkurnar — eða fara jafnvel í fyrirbyggjandi skurðaðgerð.
Aðstæður þínar
Aðstæður þínar geta haft áhrif á hvernig meðferð þú ákveður að þiggja.
Hefurðu aðgang að geisladeild?
Á LSH - Landspítala, háskólasjúkrahúsi er sérstök geisladeild þangað sem konur fara í geislameðferð.
Að fara í geislameðferð krefst margra heimsókna á geislunardeild. Sé brjóstið allt geislað þarf að mæta á deildinna fimm daga vikunnar í fimm til sjö vikur. (Meðferðin sjálf tekur lítinn tíma.) Þú þarft að búa í nágrenninu eða vera tilbúin að dveljast í nokkrar vikur að heiman.
Þegar beitt er tækni sem felst í að geisla hluta brjóstins er geislað tvisvar á dag í fimm daga alls (eina viku).
Hefurðu aðgang að lýtalækni til að láta búa til nýtt brjóst?
Farir þú í brjóstnám gætir þú tekið þann kost að láta búa til nýtt brjóst. Læknir sem framkvæmir slíka aðgerð kallast lýtalæknir. *Á LSH eru starfandi afar færir læknar sem hafa þjálfun í að búa til ný brjóst. Þig gæti langað til að hitta konur sem hafa gengið undir þannig aðgerð og fá leyfi til að tala við þær og skoða jafnvel árangurinn. Ræddu það við lækni þinn.
Það er alltaf til góðs að tala við aðra áður en ákvörðun er tekin. Ákvarðanir sem þú stendur frammi fyrir gætu til dæmis verið:
-
Hvort þú ætlar að láta búa til nýtt brjóst eða ekki (margar konur gera það, mjög margar sleppa því).
-
Hvaða lýtalæknis þú vilt fara til ef þú ákveður að láta búa til nýtt brjóst.
-
Hvort þú vilt láta búa til nýtt brjóst um leið og þitt er tekið eða síðar? Sé búið til nýtt brjóst í sömu aðgerð og brjóst er tekið, verður lýtalæknir að geta unnið með skurðlækninum sem tekur brjóstið á sömu skurðstofu.
Felstar konur sem fara í fleygskurð sleppa því að láta byggja upp brjóstið. Hafir þú hins vegar farið í fleiri en einn fleygskurð á sama brjósti kann það að vera orðið mjög frábrugðið hinu brjóstinu. Sumar konur í þessum sporum gætu hugleitt að láta laga brjóstið með skurðaðgerð.
Biddu lýtalækninn að sýna þér myndir af brjóstum sem hafa verið lagfærð eða byggð upp á nýtt, bæði tilfellum þar sem vel hefur tekist til og þar sem miður hefur tekist til. Þannig áttu auðveldara með á átta þig á þeim möguleikum sem þú gætir átt í stöðunni.
Hvernig tekur þú ákvarðanir?
Hver manneskja hefur sína eigin aðferð við að taka ákvarðanir, til dæmis með því að:
-
„Fylgja innsæinu" og gera það sem þú gerir vegna þess að þér finnst það vera rétt.
-
Rannsaka og kynna þér málin ýtarlega og gera aðeins það sem þér finnst skynsamlegt hvernig sem á það er litið.
-
Spyrja og ráðgast við vini, ættingja og þína nánustu, heyra hvað þeim finnst og ákveða þig svo.
-
Halda hlutunum fyrir sjálfa þig og gera upp hug þinn á eigin spýtur eftir að hafa talað við lækni/lækna.
Þú ákveður hvað þér er fyrir bestu. Að takast á við DCIS, allt frá greiningu þar til fullum bata er náð, er langt ferli og því margar ákvarðanir sem þarf að taka á meðan á því stendur.
Farðu yfir og ræddu í þaula við lækna þína þær upplýsingar sem liggja fyrir um ástand þitt og heilsufarssögu, brjóstamyndir og niðurstöður annarra greininga, svo og meinafræðiskýrsluna. Traust ráð frá læknum þínum getur veitt þér það sjálfstraust og þá þekkingu sem þú þarft á að halda til að taka þá ákvörðun sem er best fyrir þig.
*Málsgreinar merktar stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB