Fleygskurður eða brjóstnám - hvort er betra fyrir þig?

Sé staðbundið mein að finna á fleiri en einum stað í brjóstinu, mæla sumir læknar sjálfkrafa með brjóstnámi. Ástæðan er sú að ekki hafa verið gerðar rannsóknir sem sýni að fleygskurður sé jafn árangursríkur og brjóstnám þegar finnast fleiri en eitt æxli. Slíkar rannsóknir eru mjög erfiðar í framkvæmd. Erfitt er að ná til nógu margra kvenna í þessari aðstöðu og gefa helmingnum kost á að halda brjóstinu en taka brjóst af hinum helmingnum og bera síðan saman í klínískri tilraun árangurinn þegar fram líða stundir.

Það þýðir hins vegar ekki að þú verðir óhjákvæmilega að fara í brjóstnám, finnist staðbundið krabbameinsæxli á fleiri en einum stað í brjóstinu. Sé þér mikið í mun að halda brjóstinu skaltu tala við lækni þinn um hverra kosta þú átt völ.

Hvort meðferð sem leyfir þér að halda brjóstinu er sú rétta fyrir þig er háð stærð æxlisins, hvort mein er að finna á fleiri en einum stað í brjóstinu og hvort skurðbrúnir reynast hreinar af krabbameinsfrumum. Hér eru nokkur dæmi um atriði sem gætu haft áhrif á ákvörðunina: 

Þegar fleygskurður kann að reynast betri en að taka allt brjóstið:

  • Þú ert með tvö lítil eða meðalstór staðbundin krabbameinsæxli nálægt hvort öðru í sama fjórðungi brjóstsins sem tekst að fjarlægja með hreinum skurðbrúnum: Í þessu tilfelli er ekki óskynsamlegt að íhuga aðgerð sem gerir þér kleift að halda brjóstinu, þ.e. fleygskurð og geislameðferð. Brjóstamynd að lokinni skurðaðgerð kann að reynast mikilvæg til að ganga úr skugga um að allir grunsamlegir staðir hafi verið fjarlægðir.

  • Þú ert með tvö lítil eða meðalstór staðbundin krabbameinsæxli í mismunandi fjórðungum brjóstsins en engin önnur teikn um eitthvað afbrigðilegt (metið út frá vandaðri röntgenbrjóstamynd og segulómskoðun): Meðferð sem gerir þér kleift að halda brjóstinu kynni að koma til greina. Bæði svæði þarf að fjarlægja með hreinum skurðbrúnum og það gæti þýtt tvo fleygskurði og stundum endurtekna skurðaðgerð. Brjóstamyndataka eftir aðgerð kann að reynast mikilvæg í því skyni að ganga úr skugga um að allt grunsamlegt hafi verið fjarlægt úr brjóstinu. Eftir skurðaðgerð þarf að geisla allt brjóstið. (Geislun á hluta brjósts er ekki viðeigandi fyrir konur með fleiri en eitt æxli í brjóstinu.) 

Þegar valið er ekki augljóst og frekari rannsókna er þörf:

  • Þú ert með lítið eða meðalstórt staðbundið mein en krabbameinsfrumur finnast víða í skurðbrúnum: Að skera aftur er augljós kostur til að komast fyrir vandamálið og ná hreinum skurðbrúnum. Finnist enn krabbameinsfrumur í stakri skurðbrún eftir endurtekna skurðaðgerð, gæti læknir þinn þurft að skera aftur til að fá brúnina hreina. Sýni röntgenmynd af brjóstinu ekkert grunsamlegt eftir þá aðgerð, eigið þið læknir þinn auðveldara með að ákveða hvort rétt sé fyrir þig að halda brjóstinu.

  • Þú ert með meðalstórt staðbundið krabbameinsæxli og krabbameinsfrumur finnast á fleiri en einum stað eftir fleygskurð eða endurtekna aðgerð: Nauðsynlegt verður að meta ástand þitt betur áður en þú og læknir þinn getið ákveðið hvort rétt sé að þú fáir meðferð sem leyfir þér að halda brjóstinu.

Þegar betra er að taka brjóstið en reyna að halda því:

  • Staðbundin DCIS krabbameinsæxli finnast um allt brjóst eða ná yfir stórt svæði eða mörg svæði í brjóstinu.

  • Sannreynt hefur verið að þú ert með stökkbreyttan krabbameinsarfbera  eins og BRCA1 eða BRCA2 í viðbót við DCIS greininguna. Þá er ástæða til að taka fast á málum og velja brjóstnám, jafnvel þótt æxlið sé smávaxið.

  • Meinaskýrslan sýnir staðbundið mein á stóru svæði í brjóstvef og krabbameinsfrumur í skurðbrúnum, jafnvel þótt röntgenmynd af brjósti sýni einungis meðalstórt grunsamlegt svæði. Það á einnig við þegar röntgenmynd sýnir mikið af örsmáum kalkhópum um allt brjóstið.

  • Segulómmynd sýnir stórt grunsamlegt svæði sem nær langt út fyrir DCIS meinið sem fannst þegar vefjarsýni var tekið. Það táknar að skuggaefnið sem var sprautað í þig áður en þú fórst í segulómun hefur sest að á ákveðnum svæðum þar sem er mögulegt að krabbamein finnist. 

  • Mörg grunsamleg svæði eru víðsvegar um brjóstið, eftir því sem fram kemur á myndum og í niðurstöðum meinarannsóknar.

  • Fjarlægður var meðalstór eða stór fleygur brjóstavefjar og DCIS af hárru gráðu fannst um allan vef.

  • Fjarlægður var meðalstór eða stór fleygur brjóstvefjar og krabbameinsfrumur fundust víða í skurðbrúnum. Í þannig tilfelli kann að vera óraunsætt að gera ráð fyrir að hægt sé að ná hreinum skurðbrúnum með endurtekinni skurðaðgerð. 

Tilfellin sem hér var lýst eiga það sameiginlegt að staðbundið krabbamein í mjólkurgangi finnst á meðalstóru eða stóru svæði í brjóstinu. Allan grunsamlegan vef verður að fjarlægja til að ná öllum krabbameinsfrumum. Með því að taka svo mikið af brjóstvef kann að verða mjög lítið eftir af honum. Við þær aðstæður gæti brjóstnám aukið líkurnar á að ná öllu brjóstakrabbameini og með því að láta taka allt brjóstið og búa til nýtt  gætir þú fengið brjóst sem þú yrðir ánægðari með. Þær eru einnig margar konurnar sem kjósa brjóstnám án þess að láta byggja brjóstið upp á ný. 

 ÞB