Frekari rannsóknir og meðferðarleiðir

Eftir að hafa farið í skurðaðgerð og geislameðferð þarftu hugsanlega að íhuga fleiri meðferðir og fer það eftir tegund krabbameinsins, stærð æxlis og hvar það er.

Könnun á ástandi eitla

Flestar konur með staðbundið mein í mjólkurgangi (DCIS) þurfa ekki að láta fjarlægja varðeitla (grein á ensku). Þessi tegund krabbameins - DCIS - sáir sér sjaldan í eitla. Hins vegar fylgir sumum tegundum DCIS hætta á að í brjóstinu kunni að leynast ífarandi krabbameinsfrumur þótt þær sjáist ekki. Þær gætu sáð sér í eitla. Sértu innan við fimmtugt, að ekki sé minnst á fertugt, kann læknir þinn að vilja að ástand eitla verði kannað.  

Læknirinn kann að mæla með að varðeitlar séu teknir  ef þú ert með:

 • staðbundið mein (DCIS) af hárri gráðu,

 • mjög stórt æxli eða

 • DCIS sem sýnir snemmbúin teikn um hugsanlega íferð. 

Varðeitillinn — sá sem næstur er brjóstinu — er sá eitill sem ber ábyrgð á því að sía burtu krabbameinsfrumur sem kunna að leitast við að sá sér út fyrir brjóstið. Líklegast er að krabbameinsfrumur sái sér í þann eitil, takist þeim það á annað borð. Þegar eitillinn hefur verið fjarlægður rannsakar meinafræðingur hann í smásjá og leitar að krabbameinsfrumum. Niðurstöður slíkrar rannsóknar eru skráðar í meinaskýrsluna.

Hvort taka þarf varðeitil er hugsanlega ekki ákveðið fyrr en eftir að niðurstöður úr rannsókn á vefjasýni liggja fyrir eða eftir að brjóstið hefur verið skorið og niðurstöður meinaskýrslu liggja fyrir. Ákvörðun um hvort taka eigi eitla er mikilvæg vegna þess að upplýsingarnar sem þannig fást geta hjálpað lækninum að sníða meðferðaráætlun að sérstökum þörfum þínum.

Séu mjög litlar líkur á að krabbamein hafi borist í eitla er engin ástæða til eitlanáms enda muntu vilja losna við aukaverkanirnar sem fylgja því að taka eitla.

Séu meiri líkur en minni á að krabbamein hafi borist í eitla er rétt að láta rannsaka þá. Niðurstöðurnar kunna að hafa mikil áhrif á hvers konar meðferð þú færð. Séu eitlarnir hreinir og engar krabbameinsfrumur að finna, verður meðferðin tiltölulega einföld. Hafi krabbameinsfrumur sáð sér í eitla, þarf meðferðin að vera ágengari en ella.

Hefbundið brottnám holhandareitla kemur því aðeins til greina að í varðeitli eða -eitlum hafi fundist krabbameinsfrumur.

Hafir þú þegar farið í skurðaðgerð og fengið að vita niðurstöður meinafræðirannsóknar er að ýmsu að hyggja, hafi krabbameinsfrumur fundist í eitli eða eitlum.

Segja niðurstöðurnar að um hreint staðbundið mein í mjólkurgangi sé að ræða - (DCIS)?

 • Þá þarftu ekki að láta taka neina eitla.

 • Líkur á að krabbameinsfrumur sái sér í eitla eru nánast engar.

Segja niðurstöðurnar að þú sért með staðbundið mein með smásjáríferð í mjólkurgangi (DCIS-M I)?

 • Líkur á að krabbamein sái sér í eitla eru örlítið meiri en væri meinið hreint staðbundið krabbamein, en mjög litlar engu að síður.

 • Krabbameinsfrumur eru byrjaðar að sækja út úr mjólkurgangi eða -kirtli, en hefur ekki tekist að brjóta sér leið út úr gangnaveggnum.

 • Sjáist aðeins örlítill blettur með smásjáríferð, þarf að öllum líkindum ekki að taka eitla.

 • Sjáist smásjáríferð víða kann læknir að mæla með að tekinn sé eitill og hann sendur í rannsókn. 

Segja niðurstöðurnar að þú sér með ífarandi krabbamein inn á milli eða saman við DCIS (IDC-DCIS)?

 • Hætta á að krabbamein hafi borist í eitla eykst til muna.

 • Krabbameinið telst ekki lengur vera á stigi 0.

 • Krabbameinið telst vera á stigi 1 eða hærra, eftir því hve æxlið er stórt og hvort krabbamein hefur borist í eitla. 

 • Læknir mun að öllum líkindum mæla með að eitlar séu teknir og sendir í rannsókn. 

Hafirðu enn ekki farið í skurðaðgerð og aðeins fyrstu niðurstöður meinafræðiskýrslu þekktar, þarftu engu að síður að fara í  frekari aðgerð (fleygskurð, viðbótarskurð eða brjóstnám), hafi ekki tekist að fjarlægja allt æxlið (hnútinn) við sýnatökuna (t.d. með brottskurði). Sé ástæða til að ætla að eitthvert ífarandi brjóstakrabbamein sé einnig á ferðinni, mun læknirinn mæla með að eitlar séu teknir um leið og þú ferð í næstu aðgerð. Hér á eftir eru ýmsar aðstæður eða spurningar sem gætu komið upp eftir að vefjasýni hefur verið rannsakað:

Segja niðurstöðurnar að með upphaflegu brottskurðarsýni hafi allar smásjárkalkanir verið fjarlægðar og eingöngu fundist staðbundið mein í mjólkurgangi (DCIS)?

 • Trúlega er frekari rannsókn á eitlum óþörf.

Segja niðurstöður að fundist hafi DCIS-M I (ífarandi krabbameinsfrumur hafi fundist innan um staðbundið mein)?

 • Læknir þinn kann að mæla með að taka eitla til rannsóknar.

Sýna niðurstöður annarra leitaraðferða (brjóstamynda, segulómunar) að um marga grunsamlega staði sé að ræða?

 • Hafi sýni aðeins verið tekið úr einum eða tveimur stöðum í brjóstinu er ekki nægilega mikið vitað um brjóstið. 

 • Læknir þinn kann að mæla með að brjóstið verði allt tekið (brjóstnám) finnist krabbamein of víða eða er of stórt til að fjarlægja það með fleygskurði (aðeins hluti brjóstsins tekinn).

 • Hugsanlega verður mælt með að gerð sé varðeitlagreining um leið og brjóstið er tekið. 

Ertu með stórt DCIS æxli með hárri gráðu og útlit fyrir smásjáríferð á öðrum stöðum í brjóstinu?

 • Læknir þinn kann að mæla með að eitlar séu teknir úr holhönd.

Ertu með stækkaðan eitil í holhöndinni sem virðist grunsamlegur jafnvel þótt sýni hafi aðeins leitt í ljós DCIS (staðbundið mein í mjólkurgangi)?

 • Læknir þinn kann að mæla með að taka fleiri eitla en varðeitil til rannsóknir, fari svo að krabbameinsfrumur finnast í stækkuðum eitlum. 

 • Hafðu samt í huga að eftir sýnatöku kunna eitlar að stækka og getur það verið eðlilegt ónæmisviðbragð.

Ætlarðu að láta byggja upp brjóstið strax eftir brjóstnám? 

 • Sé minnsta ástæða til að ætla að krabbamein hafi borist í eitil eða eitla mun læknir þinn að öllum líkindum mæla með að eitlar séu teknir því það er erfiðara að fjarlægja þá eftir að nýtt brjóst hefur verið búið til (eftir enduruppbygginu), einkum þegar stóri bakfellsvöðvinn er notaður.

Þegar um staðbundið mein í mjólkurgangi er að ræða eru margar lausnir tiltækar. Hafir þú einhverjar spurningar eða ert á báðum áttum varðandi meðmæli læknis þíns um að taka eitla og láta rannsaka þá, skaltu leita álits hjá öðrum skurðlækni og/eða geislalækni krabbameins til að fá álit fleiri sérfræðinga.

Greining sem segir að um staðbundið mein í mjókurgangi (DCIS) sé að ræða kann að breytast eftir því sem meira er vitað um krabbameinið. Vegna þess að mein af þessu tagi telst vera á stigi 0, hefurðu tíma til að fá álit annarra, finnist þér þörf á því, og vera þannig viss um að þær ákvarðanir sem teknar eru, verði ÞÉR fyrir bestu. 

ÞB