Gráða meins hefur áhrif á meðferðarleiðir

Meðferð flestra kvenna sem greinast með staðbundið krabbamein í mjólkurgangi ( DCIS) felst í fleygskurði. Margar konur fara einnig í geislameðferð eftir fleygskurðinn. Geislameðferð minnkar líkur á að krabbamein taki sig upp á ný um tvo þriðju (66%). Geislameðferð fylgja ýmsar aukaverkanir og hún er tímafrek. Flestar konur komast þó í gegnum meðferðina án þess að hún trufli um of daglegt líf. Þær konur sem líklegast er að hafi gagn af geislameðferð eru þær sem miðlungs eða miklar líkur eru á að fái sjúkdóminn á ný eftir að hafa farið í fleygskurð.

Sé hins vegar talið ólíklegt að þú hafir verulegan ávinning af að fara í geislameðferð getur komið til greina að sleppa henni.

DCIS æxli eru oft flokkuð eftir kerfi sem kallast VNPI (Van Nuys Prognostic Index) – eins konar forspárvísir sem var settur saman árið 1996 og endurbættur árið 2003. Með þessu kerfi er reynt að finna út:

  • Hvaða konum getur farnast vel með skurðaðgerð einni saman (af því að líkur á að sjúkdómurinn taki sig upp eftir fleygskurð eru litlar).

  • Hvaða konur gætu haft töluvert gagn af að fara í geislameðferð eftir skurðaðgerð (vegna þess að líkur á að sjúkdómurinn taki sig upp eftir fleygskurð eru miðlungsmiklar eða miklar).

Með forspárvísinum er tekið tillit til fjögurra mismunandi þátta meinsins (DCIS):

  1. Stærðar æxlis (mældri í millimetrum, mm).

  2. Breiddar hreinnar skurðbrúnar, þ.e.a.s. fjarlægðar frá æxlinu sem var numið brott að skurðbrún heilbrigðs vefjar í brjóstinu (mælt í millimetrum).

  3. Krabbameinsgráðu (vaxtarmynsturs krabbameinsfrumna).

  4. Aldurs þegar meinið greindist.

Hverjum þessara þátta er gefið stig: 1 (lítið), 2 (meðal) og 3 (mikið) eins og sýnt er í töflunni hér að neðan. Samtala allra fjögurra stiga er s.k. VNPI tala. Lægsta hugsanlega samtala er 4 (4 sinnum 1) og hæsta hugsanlega samtala er 12 (4 sinnum 3). Því hærri sem talan er, þeim mun líklegra er að krabbameinið muni taka sig upp á ný.

Stig

1

2

3

Stærð (mm)

≤15

16 - 40

≥41

Skurðbrún (mm)

≤10

1 - 9

≤1

Meinafræðileg flokkun

Ekki-há gráða án frumudauða (gráða 1 eða 2)

Ekki-há gráða með frumudauða (gráða 1 eða 2)

Há gráða með eða án frumudauða (gráða 3)

Aldur (ár)

>60

40 - 60

<40

Tafla fengin úr greininni "The University of Southern California/Van Nuys prognostic index for ductal carcinoma in situ of the breast" eftir Melvin J. Silverstein sem birtist í American Journal of Surgery, Volume 186, Issue 4, October 2003, birt með góðfúslegu leyfi Melvin J. Silverstein.


Tilgangur þessa flokkunar- eða stigakerfis er fyrst og fremst að átta sig á hvaða konur eru ólíklegastar til að fá sjúkdóminn á ný og gætu því sleppt því að fara í geislameðferð. Auðvitað er það góðra gjalda vert að vilja hlífa konum við meðferð sem þær hafa enga þörf fyrir, en Van Nuys kerfið er þó engu að síður aðeins upplýst ágiskun. Það sannar hvorki né afsannar að krabbameini geti tekið sig upp á ný.

Sumar konur eru tilbúnar gera allt sem hægt er til að minnka líkur á að sjúkdómurinn taki sig upp og munu því velja að fara í geislameðferð vegna þess hve áhrifarík hún er og tiltölulega auðveld. Aðrar velja hugsanlega þann kost að lifa með þeim litlu líkum á að sjúkdómurinn taki sig upp sem fyrir hendi eru og sleppa geislameðferðinni. Þess vegna er þetta flokkunarkerfi tæki sem konur ættu að nota í samvinnu við lækni sinn. Gildi kerfisins er alfarið háð aðstæðum hverrar einstakrar konu.

ÞB