Svona er DCIS meðhöndlað

Þú þarft að ákveða með lækni þínum hvort þú ferð í aðgerð sem leyfir þér að halda brjóstinu að mestu leyti eða lætur taka það alveg.

Algengasta meðferðin við DCIS er aðgerð sem leyfir konum að halda brjóstinu, þ.e.a.s. fleygskurður með eftirfarandi geislameðferð. Aðrir kostir — fleygskurður án geislunar eða brjóstnám — eru að líkindum ekki nægilegir eða ganga of langt. Aðstæður er þó mismunandi.

Meðferð sem gerir það mögulegt að halda brjóstinu

Flestar konur sem greinast með DCIS geta haldið brjóstinu. Finnist DCIS aðeins á einum stað og unnt að fjarlægja það með hreinum skurðbrúnum getur konan haldið brjóstinu. Yfirleitt er það góður kostur miðað við brjóstnám.

Þegar æxlið hefur verið fjarlægt er brjóstið yfirleitt geislað til að minnka hættu á að krabbamein taki sig upp í brjóstinu. Lestu um rannsókn (á ensku) á því hvernig þessar tvær meðferðir minnka hættu á að sjúkdómurinn taki sig upp. Þú getur lesið meira um geislameðferð að lokinni skurðaðgerð vegna DCIS neðar á síðunni. 

Skurðaðgerð:

Eftirfarandi skurðaðgerðir eru framkvæmdar til að fjarlægja krabbameinið:

 • Fleygskurður er aðgerð sem gerir konum kleift að halda brjóstinu. Með henni er skorið burt allt svæðið þar sem krabbameinsfrumur er að finna, jafnvel þótt enginn hnútur sé fyrir hendi.

 • Annar brottskurður er aðgerð þar sem meiri vefur er fjarlægður eftir að fleygskurður hefur verið gerður í því skyni að ná fram hreinum skurðbrúnum.  Finnist krabbameinsfrumur í skurðbrúnum eða þær eru mjög naumar, er líklegt að læknirinn mæli með að skera aftur.

Í sumum tilfellum þarf að finna rétta staðinn í brjóstinu með einhverjum þeirra leitaraðferða sem fyrir hendi eru. Þegar DCIS greinist aðeins á röntgenmynd og ekki hægt að þreifa það, þarf að staðsetja meinið; finna þarf nákvæma staðsetningu áður en skurðlæknir getur fjarlægt það. Er það gert með því að stinga staðsetningarnál inn á svæðið og henni stýrt með röntgentækni. Yfirleitt er sú tækni brjóstamyndataka eða ómun. Sjáist DCIS hins vegar aðeins á segulómmynd gæti þurft að staðsetja meinið með þeirri tækni.

Geislameðferð:

Eftir fleygskurð eða annan brottskurð ræðir læknir þinn hugsanlega við þig um geislameðferðina og þá kosti sem eru fyrir hendi: Að geisla allt brjóstið, að geisla hluta brjóstsins eða sleppa því að geisla brjóstið eftir fleygskurðinn. 

 • Allt brjóstið er geislað með tæki sem kallast línuhraðall.  Brjóstsvæðið sem á að meðhöndla er skilgreint til að ákvarða geislaskammtinn. Læknirinn mun forðast eða minnka eftir föngum þá geisla sem lenda á aðliggjandi vefjum og ekki þarfnast meðferðar. Í geislameðferð er brjóstsvæðið geislað fimm daga í viku í um það bil fimm vikur. Í eina viku eða tvær eftir það eru gefnir svokallaðir viðbótarskammtar  á svæðið þar sem meinið var. Að geisla allt brjóstið eftir fleygskurð er viðtekin meðferð (standard). Meðferð sem þessi getur minnkað líkur á að krabbamein taki sig upp  um helming og allt að tveim þriðju. Með fleygskurði eingöngu eru um 30% líkur á að krabbamein taki sig upp (þær geta verið minni eða meiri eftir aðstæðum). Geislamefðferð getur minnkað þann mun niður í 10% eða minna þegar krabbameinið er ífarandi og í 15% ef það er staðbundið (DCIS). 

 • Hluti brjóstsins er geislaður með nýrri tækni sem verið er að prófa í klínískum tilraunum (*í Bandaríkjunum). Konur geta tekið þátt í tilrauninni, hafi meinið aðeins verið á einum stað og verið fjarlægt með hreinum skurðbrúnum. Þessa geislun má framkvæma á nokkra mismunandi vegu:

  • Með því að nota sérstakt tól sem kallast MammoSite — sem er slanga með blöðru á endanum. Blöðrunni er komið fyrir inni í brjóstinu þar sem meinið var. Tvisvar á dag í tíu skipti samtals er geislavirkri kúlu skotið inn í blöðruna sem sendir frá sér geisla á þann hluta brjótsins. Meðferðin tekur um fimm til tíu mínútur. Eftir fimm daga meðferð er blaðran fjarlægð. Sjúklingur kemur á göngudeild og þarf ekki að dvelja á sjúkrahúsi. 

  • Mörgum holum plasthylkjum er komið fyrir í brjóstinu þar sem meinið var. Viðeigandi geislaskammtur er settur í hylkin. Þetta er ýmist gert á göngudeild eða sjúklingurinn dvelur á spítala og fer eftir því hvers konar geislar eru notaðir. 

  • Með því að veita mörgum litlum geislum utanfrá á svæðið þar sem meinið var. Þetta er gert á göngudeild.

  • Með því að gefa einn geislaskammt strax eftir uppskurð og áður en sjúklingi er ekið út af skurðstofu. Þegar þessari aðferð er beitt er sjúklingurinn enn sofandi á skurðarborðinu. Þetta er tiltölulega ný meðferðartækni og ekki útbreidd. Hún hefur það einnig í för með sér að ekki fást endanlegar meinafræðilegar niðurstöður.  

Hvaða kosti er um að velja í sambandi við að geisla hluta brjóstsins fer algjörlega eftir búsetu, hvar þú býrð og hvert þú sækir þjónustuna. Þótt mikill áhugi sé á því að geisla aðeins hluta brjóstsins þegar um er að ræða staðbundið krabbamein í mjólkurgangi (DCIS) vegna þess að meðferðin tekur skemmri tíma en hin viðtekna og aukaverkanir eru minni í smærri hluta brjóstsins, hefur hún enn ekki sannað gildi sitt og engar rannsóknarniðurstöður hafa verið birtar enn sem komið er.  

Konur geta tekið þátt í klínískri tilraun (á ensku)  þar sem helmingur kvenna fer í geislun á allt brjóstið og hinn helmingur fær geislameðferð á hluta brjóstsins. Þessi tilraun kallast NSABP B-39 og verður fljótlega boðið upp á hana á flestum krabbameinsstöðvum. *Þetta á augljóslega ekki við hér á landi, en fróðlegt að vita að verið er að gera þessa tilraun.

 • Þér kann að gefast kostur á að sleppa því að fara í geislameðferð eftir fleygskurð ef líkur á að sjúkdómurinn taki sig upp eftir fleygskurðinn einan eru mjög litlar. Í þessum sporum kann geislameðferð að koma að mjög takmörkuðu gagni. Þetta getur átt við ef:

 • Þú ert með DCIS af lágri gráðu á mjög litlum bletti (fáeina millimetra) og meinið er að fullu fjarlægt með hreinum skurðbrúnum  (einum sentímetra eða meira).

 • Þú ert komin yfir sjötugt og átt við annan eða aðra sjúkdóma að stríða sem eru alvarlegri en DCIS. Geislameðferð til að tryggja að allar krabbameinsfrumur séu horfnar gæti skipt minna máli en ýmislegt annað. 

Ákveðir þú að fara aðeins í fleygskurð er mjög brýnt að þú látir fylgjast vel með þér. Það þýðir að þú þarft að fara reglulega til læknis til að láta þreifa brjóstin og í greiningar eins og brjóstamyndatöku, ómskoðun eða segulómskoðun. 

Ákvörðun um að þiggja ekki geislameðferð þarf að taka að vel yfirveguðu máli og í samvinnu við lækna þína. Skynsamlegt gæti einnig verið að leita álits utanaðkomandi læknis eða lækna. 

Brjóstið er allt tekið

Með brjóstnámi  er allt brjóstið tekið. Læknir þinn kann að mæla með brjóstnámi  ef meinið nær yfir stórt svæði eða finnst á mörgum stöðum í brjóstinu. Einnig ef dæmi um brjóstakrabbamein í ættinni  eru mörg eða sýnt er að þú sért með afbrigðilegan, stökkbreyttan arfbera brjóstakrabbameins.  Í því tilfelli gætirðu hugsanlega valið þann kost að láta taka brjóstið til að koma í veg fyrir að fá brjóstakrabbamein síðar meir, en líkur á því aukast með ættgengni. 

ÞB