Sérkenni meins hafa áhrif á meðferðarmöguleika
Hvert krabbamein hefur ákveðin sérkenni sem læknar tala oft um sem persónuleika þess. DCIS - staðbundið mein í mjólkurgangi - eru krabbameinsfrumur sem ekki hafa komist upp á lag með að brjótast í gegnum varnir heilbrigðs vefjar. Meinið kann að virka ógnandi en minnir svolítið á uppreisnargjarnan ungling, sem eru með alls kyns stæla en hefur enn sem komið er ekki gert neitt verulega alvarlegt af sér. Samlíking á við vegna þess að (bandarískir) læknar tala um DCIS krabbameinsfrumur ýmist sem „reiðilegar" eða "óskipulagðar" annars vegar og hins vegar sem rólegar og afslappaðar. Meinafræðingar lýsa „persónuleika" æxlis út frá nokkrum mismunandi eiginleikum.
Gráður krabbameins:
Læknar skipa DCIS-frumum í einhverja af þremur gráðum með hliðsjón af því hve líkar eða ólíkar þær eru heilbrigðum frumum.
-
Gráða I (lág gráða): Þessar frumur fjölga sér hægt og líkjast mjög mikið heilbrigðum frumum í útliti.
-
Gráða II (meðal gráða): Svona frumur fjölga sér hraðar en heilbrigðar frumur og líkjast þeim ekki í útliti.
-
Gráða III (há gráða): Frumurnar eru hraðvaxandi og líkjast á engan hátt heilbrigðum frumum.
Því hærri sem gráða krabbameinsfrumna í DCIS er, þeim mun meiri hætta er á ífarandi brjóstakrabbameini síðar meir.
Dauðar frumur í æxlinu (frumudauði):
Meinafræðingar leitar að dauðum krabbameinsfrumur inni í æxlinu miðju. Finnist þær, táknar það að æxlið vex mjög hratt og því ekki nægilegt blóðstreymi að æxlinu til að næra krabbameinsfrumurnar. Því hafa sumar þeirra drepist.
Meinafræðingur sem kemur auga á bletti af dauðum frumum notar hugsanlega orðin „deplafrumudauði", „há gráða" eða „nabbakrabbamein" til að lýsa meininu. Að dauðar frumur skuli finnast í meininu er talið tengjast auknum líknum á ífarandi krabbameini síðar meir.
Vaxtarmynstur:
DCIS vex á ákveðinn hátt. Vaxtarmynstrið segir lækninum af hvaða gráðu meinið er. Sé vaxtargráðan lág eða í meðallagi, er mynstrið þétt, rimlað eða með totum. Þessi ákveðnu sérkenni sýna
-
hve hratt eða hægt krabbameinsfrumur fjölga sér,
-
líkurnar á að það taki sig upp
-
og taki það sig upp, hvort líklegt er að það gerist innan fimm ára eða síðar.
Er smásæ íferð fyrir hendi eða ekki:
Þótt DCIS teljist staðbundið mein er samt mögulegt að fáeinum krabbameinsfrumum hafi tekist að brjóta sér leið í gegnum vegg mjólkurgangs. Þetta fyrirbæri kallast „DCIS með smásærri íferð" og telst ívið alvarlegri tegund en venjulegt DCIS. Snemmbúin merki um íferð eru talin tengjast lítillega aukinni hættu á að fá raunverulegt ífarandi krabbameins sem getur brotið sér leið í gegnum mjólkurgangavegginn og sáð sér til annarra líkamshluta.
Þegar smásæ íferð finnst, kann skurðlæknir að mæla með að gerð sé varðeitlagreining til að kanna hvort krabbamein hefur borist í eitla.
Mikilvægt er að hafa í huga að greining getur breyst frá því að fyrsta vefjarsýnið var tekið þar til kemur að skurðaðgerðinni. Hugsanlega sýnir fyrsta vefjarsýnið aðeins DCIS. Vefjarsýni sem seinna eru tekin gætu sýnt svæði með ífarandi krabbameini (ekki bara smásærri íferð). Þegar bæði DCIS frumur og ífarandi brjóstakrabbameinsfrumur finnast í sama meini, telst krabbameinið ífarandi. DCIS hluta meinsins þarf einnig að lýsa í meinafræðiskýrslunni, en hefur minni þýðingu en ífarandi meinið.
Eru hormónaviðtakar fyrir hendi eða ekki:
Séu hormónaviðtakar fyrir hendi á DCIS krabbameinsfrumum kann læknir að mæla með að þú farir í andhormónameðferð (and-estrógen). Hún felst í að gefa þér lyf sem minnka magn estrógens í líkamanum og halda estrógeni frá hormónaviðtökunum.
Til að fá upplýsingar um þetta atriði er leitað að hormónaviðtökum á krabbameinsfrumunum. Hormónaviðtakar eru eins og eyru á brjóstafrumum sem hlusta eftir merkjum frá hormónunum estrógen og prógesterón.
-
„ER-jákvætt" krabbamein er með viðtaka fyrir hormóninn estrógen.
-
„PR-jákvætt" krabbamein er með viðtaka fyrir hormóninn prógesterón.
-
„ER/PR-neikvætt" krabbamein er ekki með neina slíka viðtaka.
Rétt er að rannsaka bæði estrógen- og prógesterónviðtaka. Reynist meinið vera með hormónaviðtaka gætir þú haft verulegt gagn af því að taka inn móthormónalyf.
Ekki er langt síðan farið var að rannsaka DCIS með tilliti til þess hvort meinið væri með hormónaviðtaka eða ekki. Ekki gera ráð fyrir að það sé gert sjálfkrafa. Spurðu lækni þinn og biddu hann um að láta rannsaka þetta, hafi það ekki þegar verið gert.
Þótt meinið sé ekki með hormónaviðtaka eru engu að síður ýmsar góðar meðferðir tiltækar við staðbundnu meini í mjólkurgangi - DCIS.
Hugsanleg breyting í stigun sjúkdómsins
Þegar niðurstöður allra meinarannsókna liggja fyrir getur það breyst á hvaða stigi krabbameinið er talið eða niðurstaðan verið óbreytt. Allt fer það eftir eðli og útbreiðslu sjúkdómsins.
Lýsing hvers krabbameins gefur til kynna:
-
Stærð æxlis (T),
-
ástand eitla (N-stöðu),
-
dreifingu (íferð) (M-stöðu),
Samanlögð niðurstaða þessara þriggja þátta (TNM) gefur til kynna á hvaða stigi krabbameinið er.
Greiningin kann að hljóða upp á „DCIS á stigi 0" frá upphafi til enda. Þegar þú skoðar meinafræðiskýrsluna sérðu hugsanlega "Tis, N 0, M 0" sem þýðir að æxlið (T) er staðbundið ("in situ"), ekkert krabbamein hefur borist í eitla (N 0) og engin merki um meinvörp (M 0). Einnig er til í dæminu, fari svo að örlítill blettur finnist við smásjárskoðun (minni en einn millibeter) sem sýnir smásæja íferð, að stigið verði „Tis-mic". Sé aðallega um DCIS að ræða, en blettur finnst með smásærri íferð sem er einn millimeter, telst stigið vera T 1-mic. Þá flyst stigunin upp um einn, og í stað þess að vera á stigi 0 telst sjúkdómurinn vera á stigi I, en hann er þá líka hættuminnstur sjúkdóma á I. stigi.
Auðvitað veldur það geðshræringu að fá að vita að það sem var sagt að væri „bara DCIS", sú tegund krabbameins sem er hættuminnst, er í raun og veru eitthvað alvarlegra. Hafðu hugfast að það skiptir engu hvað kemur út úr rannsóknunum, læknar munu eftir sem áður geta boðið þér margvíslega meðferð við sjúkdómnum.
ÞB