Tegundir og mismunandi gráður DCIS
Að vita af hvaða tegund og gráðu hið staðbundna mein í mjólkurgangi er gerir það mögulegt að ákveða hvaða meðferð hentar best.
Ýmis þrep eru í þróun eðlilegra frumna yfir í afbrigðilegar frumur. Hugsi maður sér venjulegan stiga eru eðlilegar frumur í neðsta þrepinu, en ífarandi krabbameinsfrumur í því efsta. Á myndinni hér að neðan er þessu snúið við: eðlilegar frumur eru efst, ífarandi krabbameinsfrumur neðst:
Skýringar:
-
Eðlilegar frumur (Normal cells).
-
Of margar frumur í mjólkurgangi (Ductal hyperplasia).
-
Of margar frumur sem eru að byrja að fá óeðlilegt útlit (Atypical ductal hyperplasia eða ADH).
-
Of margar frumur sem vaxa eins og krabbamein en halda sig ennþá inni í mjólkurganginum (Ductal carcinoma in situ - DCIS).
-
Ýmsar undirtegundir DCIS (DCIS-MI; DCIS with microinvasion), sumar hættulegri en aðrar.
-
Stjórnlaus vöxtur frumna í mjólkurgangi sem hafa brotið sér leið gegnum eðlileg vefjarmörk og eru þar af leiðandi ífarandi (Invasive ductal cancer).
Kannski hefur þú heyrt minnst á mismunandi gráður staðbundins meins, og er þá átt við á hvaða þrepi í „stiganum” má skilgreina þær: í háu þrepi (gráðu) eða lágu. Stundum getur verið erfitt að átta sig á hvar í stiganum frumur eru staddar í ferlinu frá því að vera eðlilegar í að vera óeðlilegar.
Til dæmis getur stundum reynst erfitt fyrir meinafræðing að sjá mun á ADH – uppsöfnun frumna sem líta öðruvísi út en eðlilegar frumur en eru samt ekki að fjölga sér óeðlilega – og DCIS – þar sem frumur safnast fyrir sem fjölga sér stjórnlítið. Í þannig tilfellum er stundum talað um „DCIS-líkindi” til að lýsa fyrirbærinu.
Meinafræðingur greinir vefjarsýnið sem honum barst og lýsir tegundinni og gráðunni í meinafræðiskýrslu sinni. Gráðan ræðst af því í hve mörgum atriðum DCIS frumurnar víkja frá eðlilegum brjóstafrumum í vefjarsýninu.
Um er að ræða þrjár mismunandi gráður DCIS:
-
Lág gráða eða gráða I,
-
meðalgráða eða gráða II og
-
há gráða eða gráða III.
Venjulega er meðalgráðan flokkuð með lágu gráðunni. Auk þess eru ýmsar tegundir vaxtarmynsturs sem litið er til: gegnheilt, holótt, brúskótt og hnappar.
Gráða I (lág gráða) eða gráða II (meðalgráða) eða "ekki-dreps" DCIS:
DCIS fruma af gráðu I (lág gráða) getur líkst mjög eðlilegri frumu eða ADH frumu. Frumur af gráðu II er hægt að segja að séu af meðalgráðu. Þessar tvær gráðugerðir DCIS vaxa yfirleitt hægt.
Líkur kvenna með lágrar gráðu DCIS á að fá ífarandi tegund sjúkdómsins síðar meir (eftir fimm ár) eru meiri en þeirra sem ekki hafa fengið sjúkdóminn. Samanborið við konur með hárrar gráðu DCIS líður hins vegar lengri tími hjá konum með lágrar gráðu DCIS áður en meinið tekur sig upp eða nýtt krabbamein myndast en hjá hinum. Lágrar gráðu DCIS tekur á sig ýmsar myndir:
-
Gegnheilt DCIS: Krabbameinsfrumur fylla alveg upp í mjólkurgang.
-
Holótt DCIS: Op er á milli krabbameinsfrumna í sýktum mjólkurgöngum (eins og göt í svissneskum osti).
-
Fingrað DCIS: Krabbameinsfrumur raða sér í mynstur sem líkist fingrum í mjólkurgöngum. Séu frumurnar mjög smávaxnar er sagt að þær séu smáfingraðar (micropapillary).
|
Gegnheilt: Krabbameinsfrumur ná alls staðar saman A Krabbameinsfrumur. B Grunnhimna. |
|
Holótt: Op er á milli klasa af krabbameinsfrumum og vaxtarlagið minnir á svissneskan ost. A Krabbameinsfrumur. |
|
Fingrað: Frumurnar vaxa inn á við í mjólkurganginn eins og greinar eða fingur. A Krabbameinsfrumur. |
Gráða III (há gráða) DCIS:
Þar sem vaxtarmynstrið er af hárri gráðu hafa DCIS frumur tilhneigingu til að vaxa hraðar en lægri gráðu frumur. Konur með hárrar gráðu DCIS eiga fremur á hættu að fá ífarandi krabbamein en þær sem eru með lægri gráðu DCIS, ýmist um það leyti sem þær greinast með staðbundið mein í mjólkurgangi eða síðar. Líkur á að sjúkdómurinn taki sig fyrr upp hjá þeim en öðrum (innan fimm ára í staðinn fyrir eftir fimm ár eða síðar) eru einnig meiri en þeirra sem greinast með mein af lægri gráðu. Hárrar gráðu DCIS er stundum lýst sem drepi (comedo) eða frumudauða (comedo necrosis). Í drepi safnast fyrir dauðar krabbameinsfrumur í æxli. Þegar krabbameinsfrumur vaxa mjög hratt eru margar sem ekki fá þá næringu sem þær þurfa sér til viðgangs. Þessar sveltu frumur drepast og skilja eftir leifar sem sýna fram á frumudauðann (kalkanir).
|
Drep: Hér er svæði sem einkennist af „frumudauða”, ummerkja eða leifa dauðra krabbameinsfrumna. Leifarnar benda til að æxli vaxi svo hratt að æxlisfrumur svelti í hel vegna þess að blóðstreymi nægir ekki til að sjá þeim fyrir næringu. A Lifandi krabbameinsfrumur. |
ÞB