Umfang meins hefur áhrif á mögulegar meðferðarleiðir

í Stuttu máli

Brjóstinu er skipt í fjögur svæði eða fjórðunga:

  • Efri ytri fjórðung,
  • efri innri fjórðung,
  • neðri innri fjórðung,
  • neðri ytri fjórðung.

Læknar nota þessi orð til að lýsa hvar í brjóstinu meinið er að finna. Þeir nota einnig "hægri" og "vinstri" til að skýra hvort brjóstið er átt við, t.d. "vinstri efri ytri fjórðungur".

Áður en unnt er að ákveða hvort þú getur farið í fleygskurð eða þarft að láta taka allt brjóstið, þarf læknirinn að setja saman mynd af því hvernig krabbameinið lítur út hjá þér og hvernig líklegt er að það muni hegða sér.

Meðferð við DCIS er háð fjórum atriðum:

  1. Umfangi hins staðbundna æxlis, þar á meðal hve stóran blett það nær yfir, stærð æxlis, skurðbrúnir, niðurstöður geislarannsókna á vefjarsýni og hvort einhver útferð er um geirvörtu.

  2. "Persónuleika" eða einkennum hins staðbundna meins, þar á meðal gráðunni, hvort dauðar frumur er að finna í æxlinu, vaxtarmynstrið, hvort íferð er greinanleg í smásjá og hvort hormónáviðtakar eru fyrir hendi eða ekki.

  3. Fjölskyldusögu, því hvort margir nánir ættingjar hafa greinst með brjóstakrabbamein.

  4. Aðtriðum sem snerta sjálfa þig sérstaklega.

Umfang eða útbreiðsla staðbundins meins/DCIS

Með Greiningartækni eins og brjóstamyndatöku (röntgen), ómun eða segulómun má sjá hve útbreitt meinið er og hvar það er að finna: DCIS kann að finnast í nánd við smásæjar kalkútfellingar með eða án fyrirferðaraukningar (hnúts).

Útbreiðsla:

Er DCIS, staðbundið æxli, að finna á fleiri en einum stað í brjóstinu — og hve langt er á milli þeirra ef svo er?

  • Einshreiðurs sjúkdómur táknar að DCIS er aðeins að finna á einum bletti í einum ferningi.

  • Fjölhreiðra sjúkdómur táknar að DCIS er að finna á fleiri en einum bletti í einum ferningi.

  • Margmiðja sjúkdómur þýðir að DCIS er að finna í fleiri en einum ferningi.

Finnist DCIS á fleiri en einum bletti vill læknirinn fá að vita:

  • Hvort DCIS finnst í einum ferningi (er fjölhreiðra).

  • Hvort DCIS finnst í fleiri ferningum en einum ( er margmiðja).

  • Hve langt er á milli svæðanna.

Nauðsynlegt er að gera nákvæmar rannsóknir til að átta sig á útbreiðslu sjúkdómsins áður en kemur til skurðaðgerðar. Nákvæmar rannsóknir eftir skurðaðgerð eru einnig mikilvægar til að fá fullvissu um að allt krabbamein hafi verið fjarlægt.

Stærð æxlis:

Útbreiðsla DCIS eða umfang er einnig skilgreint út frá stærðinni, sem yfirleitt kemur fram í meinafræðiskýrslunni. Með því að vita hve æxlið er stórt verður auðveldara fyrir þig og lækni þinn að velja bestu meðferðina í þínu tilfelli.

Brjóstvefurinn sem var fjarlægður í því skyni að greina hann á rannsóknarstofu kallast sýni. Í meinafræðiskýrslu má finna upplýsingar um stærð sýnis í yfirlitskafla skýrslunnar. Þar gæti t.d. staðið „5,0 x 4,5 x 3,0 cm" (sentímetrar). Stundum er stærð æxlis gefin upp í meinafræðiskýrslunni — til dæmis „1,2 x 1,0 x 0,5 cm"— og umsögn eins og „DCIS finnst í öllu sýninu". Það þýðir að allt hið afbrigðilega svæði (bletturinn þar sem DCIS æxlið er ásamt svæði með dreifiðum DCIS frumum) gæti náð stærðinni 5,0 x 4,5 x 3,0 cm.

Hafi þurft að skera í annað sinn til að fjarlægja grunsamlegan vef sem hefur orðið eftir við fyrstu aðgerð og í þeim vef finnast einnig DCIS krabbameinsfrumur er litið á það þannig:

  • Stærðir svæðanna eru lagðar saman ef þau lágu hvort upp að öðru.

  • Séu svæðin aðskilin er stærð hvors um sig mæld og litið á sjúkdóminn sem fjölhreiðra eða margmiðja eftir atvikum.

Endanleg æxlisstærð er ákveðin þegar

  • allt meinið hefur verið fjarlægt,

  • skurðbrúnir eru hreinar,

  • brjóstamyndir (röntgen) sýna ekki lengur neitt afbrigðilegt.

Þegar staðbundið mein á í hlut hefur stærðin engin áhrif á stigið - ólíkt því sem gerist með ífarandi brjóstakrabbamein þar sem samband er milli stærðar og stigs. DCIS telst alltaf stig 0. Það getur verið af hvaða stærð sem er og verið á mörgum stöðum í brjóstinu.

Stærð og útbreiðsla DCIS hefur aftur á móti áhrif á hvernig brjóstið er meðhöndlað. Til dæmis eru unnt að taka lítil æxli sem hægt er að fjarlægja til fulls með aðgerð sem leyfir brjóstinu að halda sér. Sé meinið hins vegar útbreitt og finnist á stóru svæði í brjóstinu, gæti þurft að taka allt brjóstið.

Þegar fyrir liggur að allt meinið hefur verið fjarlægt má reikna endanlega stærð æxlis. Farðu yfir meinafræðiskýrsluna með lækninum til að átta þig á hve víðtækt vandamálið er.

Skurðbrúnir:

Skurðbrúnir geta einnig gefið vísbendinu um útbreiðslu sjúkdómsins. Sé æxlið til dæmis 1,2 x 1,0 x 0,5 cm en krabbameinsfrumur að finna víða í skurðbrúnum eða mjög nálægt þeim, er meinið hugsanlega stærra en mælingin gefur til kynna. Finnist krabbameinsfrumur í skurðbrúnum (jákvæðar skurðbrúnir), kann læknir þinn að mæla með að þú verðir skorinn aftur.

Skilgreining á neikvæðum skurðbrúnum (engar krabbameinsfrumur) er breytileg frá einu sjúkrahúsi til annars. Flestir meinafræðingar eru þó sammála um að best sé að hrein skurðbrún sé að minnsta kosti tveir millimetrar.  Því breiðari sem hrein skurðbrún er,  þeim mun minni líkur eru á að krabbameinið taki sig upp. Nauðsynlegt getur reynst að skera aftur til að fá hreinar skurðbrúnir.

Röntgenmyndataka eftir vefskurðarsýni:

Hafi staðbundið mein uppgötvast nálægt klösum af smásæjum kalkmyndunum er algengt að tekin sé röntgenmynd af brjóstinu hálfum mánuði eftir að vefurinn var fjarlægður. Á henni sést hvort kalkmyndanirnar eru allar horfnar.

Kvíðir þú því að láta taka röntgenmynd af brjóstinu sem enn er viðkvæmt eftir brottskurðinn og ert hrædd um að finna til, geturðu beðið lækni þinn um verkjalyf sem þú getur tekið áður en þú ferð í myndatökuna. Þú gætir líka beðið um að vön manneskja sái um myndatökuna svo að hana taki fljótt af.

Komi í ljós við meinafræðirannsókn að töluvert hefur fundist af krabbameinsfrumum í skurðbrúnum, má með fleiri myndatökum leiða í ljós hvort fleiri afbrigðilegum svæðum er fyrir að fara í brjóstinu. Stundum er mælt með segulómun (MRI) til að ganga úr skugga um þetta atriði.

Finnist ekki áþreifanlegar sannanir um eitthvað afbrigðilegt, er skynsamlegt að skera aftur. Finnist mörg grunsamleg svæði og þú kýst engu að sýður að halda brjóstinu, sé þess er nokkur kostur,  þarf að greina og meta þau svæði. Þú verður samt að átta þig á að sé meinið þegar útbreitt í brjóstinu, skurðbrúnir ekki hreinar og myndatökur að afloknum brottskurði sýna fleiri svæði sem geta talist grunsamleg, mun læknir þinn hugsanlega mæla með að allt brjróstið verði tekið (brjóstnám).

Blóðug útferð um geirvörtu:

Komi blóð út um geirvörtuna getur það þýtt að krabbameinsfrumur séu í eða meðfram aðalmjólkurgöngum sem opnast út í geirvörtuna. Segulómun af brjóstinu getur sagt til um hvort fleiri svæðum sé fyrir að fara með DCIS og hvort þau eru aðskilin eða samhangandi. Finnist DCIS víða í mjólkgurgöngum er yfirleitt mælt með að brjóstið sé tekið (brjóstnám). Sé meinið hins aðeins á einum stað og útferðin kemur þaðan og hvergi annars staðar frá, er yfirleitt hægt að fjarlægja það með fleygskurði og gera konum þar með kleift að halda brjóstinu.

ÞB