Meðferð við LCIS

Greining á LICS hefur ekki í för með sér neina meðferð í líkingu við það sem átt er við þegar talað er um krabbameinsmeðferðir, svo sem skurðaðgerð, geislameðferð eða meðferð með krabbameinslyfjum. Hins vegar kann að vera ástæða til að ákveða að fylgst sé vel með hvort í ljós koma einhver merki um ífarandi brjóstakrabbamein. Einnig gæti þér fundist rétt að gerðar væru ráðstafanir til að draga úr líkum á að þú fáir krabbamein í framtíðinni, t.d. með lyfjagjöf eða skurðaðgerð.

  • Með því að fylgjast vel með, en það felst í því að fara reglulega í brjóstaskoðun og brjóstamyndatöku eftir nánara samkomulagi við lækni þinn. Markmiðið er að vera á varðbergi gagnvart merkjum um ífarandi brjóstakrabbamein – og bregðast snemma við þeim, verði þeirra vart. Svona eftirlit gæti falist í eftirfarandi:

  • Tíðri sjálfskoðun brjósta svo að þú lærir að þekkja brjóstin þín og verðir vör við óvenjulegar breytingar á þeim. Biddu lækninn að sýna þér réttu handtökin og segja þér hve oft þú átt að skoða brjóstin. *Frábært myndband er sýnt á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands. Smellir þú á feitletruðu orðin hér að ofan finnur þú einnig mjög góðar leiðbeiningar.

  • Læknisskoðun á brjóstunum að minnsta kosti tvisvar á ári.

  • Brjóstamyndatöku einu sinni á ári.

  • Ef til vill með því að fara í fleiri myndatökur eins og segulómun (MRI) ef áhættuþættir brjóstakrabbameins eru fleiri hjá þér en LCIS eða mörg dæmi um brjóstakrabbamein í fjölskyldu þinni (föður- og/eða móðurætt).

  • Með lyfjum eins og tamoxifen eða raloxifene (Evista®). Þessi lyf hafa reynst árangursrík í því að draga úr hættu á brjóstakrabbameini. Yfirleitt er LCIS hormónaviðtaka-jákvætt sem merkir að vöxtur óeðlilegu frumnanna örvast af estrógeni og/eða prógeteróni. Ákveðir þú að taka inn lyf til að minnka líkur á brjóstakrabbameini er líklegt að þau lyf verði tamoxifen eða Evista®.

Sértu enn í barneign er líklegt að læknir þinn mæli með að þú takir inn tamoxifen, lyf sem hindrar að estrógen komist að frumunum og senda þeim boð um að vaxa. Tamoxifen stuðlar að því að draga úr hættu á að ífarandi brjóstakrabbamein nái að þróast síðar meir. Í stórri klínískri (læknisfræðilegri) rannsókn (The Breast Cancer Prevention Trial) kom fram að konur sem tóku inn tamoxifen í 5 ár minnkuðu líkur á ífarandi brjóstakrabbamein um 46%.

Sértu komin yfir tíðahvörfin kann læknir þinn að mæla með að þú takir inn raloxifen (Evista®), annað lyf sem kemur í veg fyrir áhrif estrógens á brjóstavef. Með stórri rannsókn sem gekk undir nafninu STAR (Study of Tamoxifen and Raloxifene) var sýnt fram á að raloxifene skilaði jafn góðum árangri og tamoxifen í því að draga úr líkum á ífarandi krabbameini hjá konum sem komnar voru úr barneign og greindust með LCIS.

  • Með fyrirbyggjandi brjóstnámi. Þá eru bæði brjóstin fjarlægð í því skyni að draga úr líkum á brjóstakrabbameini. Sértu með fleiri áhættuþætti en LCIS, svo sem stökkbreytt gen, BRCA1 eða BRCA2 eða mörg tilfelli brjóstakrabbameins í fjölskyldu þinni, gæti hugsast að þú vildir ræða þennan möguleika við lækni þinn. Fyrirbyggjandi brjóstnám felur í sér að taka bæði brjóstin því að LCIS, líkt og þessir umræddu áhættuþættir, eykur líkurnar á brjóstakrabbameini í báðum brjóstum. Hafðu hugfast að LCIS ógnar ekki heilsu þinni hér og nú. Þú hefur nógan tíma til að ræða við lækni/lækna og vega og meta alla kosti og galla sem fylgja fyrirbyggjandi skurðaðgerð.


*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB