Eftirlit vegna kjarnakrabbameins
Að lokinni meðferð komið þið læknir þinn ykkur saman um framhaldið, hvernig eftirliti skuli háttað, hvenær þú komir næst og hvaða rannsóknir er rétt að gera í sambandi við næstu skoðun. Í eftirliti gæti falist:
-
Læknisskoðun verður líklega á dagskrá á fjögurra til sex mánaða fresti næstu 5 árin og einu sinni á ári að þeim tíma liðnum. Takir þú inn tamoxifen eða önnur móthormónalyf, geturðu haft samband við lækni þinn um meðferðina og hugsanlegar aukaverkanir af henni hvenær sem er.
-
Hafir þú farið í fleygskurð eða aðra aðgerð sem gerir þér kleift að halda brjóstinu, þarftu að fara í brjóstamyndatöku af því brjósti þegar liðið er hálft ár frá því að geislameðferð lauk. Eftir það er rétt að láta taka brjóstamyndir af báðum brjóstum einu sinni á ári.
-
Hafir þú farið í brjóstnám og annað brjóstið verið fjarlægt þarftu að láta fylgjast með hinu brjóstinu og fara í brjóstamyndatöku einu sinni á ári. Séu miklar líkur taldar á því að þú fáir aftur brjóstakrabbamein, hvort sem það er vegna þess að mörg dæmi eru um krabbamein í ættinni (fjölskyldusagan) eða þú ert með BRCA1 eða BRCA2 stökkbreytt krabbameinsgen, kann læknir þinn að mæla með að þú farir í segulómskoðun til viðbótar við árlega brjóstamyndatöku.
-
Takir þú inn tamoxifen, ferðu í læknisskoðun og skoðun hjá kvensjúkdómalækni árlega, því að lyfið kann að auka líkur á leghálskrabbameini. Þú þarft að láta lækni þinn vita tafarlaust um öll óvenjuleg teikn eða einkenni, svo sem óeðlilegar blæðingar. (Hafi legið verið tekið á þetta að sjálfsögðu ekki við.)
-
Hafi meðferðin orðið til þess að valda ótímabærum tíðahvörfum eða þú hefur farið úr barneign á eðlilegan hátt og tekur inn aromatase-hemla, þarftu að láta fylgjast reglulega með beinheilsu þinni með beinþéttnimælingum. Þegar estrógenmagn í líkamanum minnkar við tíðahvörf eða vegna aromatase-hemla, getur það haft áhrif á beinheilsuna.
Hugsanlega þarftu á frekari rannsóknum að halda eða fleiri heimsóknum til læknis en hér er lýst. Það fer eftir þörfum þínum. Spyrðu lækni þinn með hverju hann mælir.
ÞB