Einkenni og greining kjarnakrabbameins

Í þessari grein má lesa um hvernig komist er á slóð kjarnakrabbameins og hvernig greiningu þess er háttað.

Teikn og einkenni

Eins og aðrar tegundir brjóstakrabbamein veldur kjarnakrabbamein hugsanlega engum einkennum til að byrja með. Með tímanum kann að myndast hnútur og hann getur ýmist verið mjúkur og hvapkenndur eða þéttur viðkomu. Flest æxli kjarnakrabbameins eru smávaxin — minni en 2 cm. Kjarnakrabbamein kann að valda verk, bólgu, roða eða eymslum í brjóstinu.

Greining

Með rannsóknum sem felast í að ná myndum af vef inni í brjóstinu, eins og röntgenmyndum (brjóstamyndum) og ómskoðun, má stundum finna kjarnakrabbamein. Þar birtist meinið sem lítill hnútur með skýrum útlínum. Hins vegar benda ýmsar rannsóknir til að ekki megi treysta brjóstamyndatökum við greiningu kjarnakrabbameins. Ein rannsókn sýndi að meiri líkur voru á að finna meinin þegar konan skoðar brjóstin sjálf eða við skoðun hjá lækni sem þreifar brjóstið.

Greining á kjarnakrabbameini gerist venjulega stig af stigi:

  • Með læknisskoðun á brjóstinu. Læknir þinn getur hugsanlega fundið hnút við þreifingu.

  • Með brjóstamyndatöku  sem staðsetur æxlið og kanna jafnframt hvort merki um krabbamein sem víðar að finna í brjóstinu.

  • Með ómskoðun til að fá fram viðbótarmyndir af brjóstinu og kanna hvort merki finnast um krabbamein víðar í brjóstinu.

  • Með því að taka sýniÞá er fjarlægður hluti úr æxlinu eða æxlið allt og það skoðað í smásjá. Unnt er að ná örfáum frumum með því að taka fínnálarsýni eða hnúturinn er fjarlægður með litlum skurði (skurðsýni). Sýnið er lykillinn að nákvæmri greiningu því með myndgreiningu er ekki unnt að greina milli kjarnakrabbameins og annarra tegund brjóstakrabbameins.

Þegar meinafræðingur skoðar sýnið í smásjá kunna að koma í ljós mikilvæg atriði:

  • Skýr og vel afmörkuð skil milli æxlisvefs og eðlilegs brjóstvefs. Kjarnakrabbamein þrýstist upp að aðliggjandi heilbrigðum vef en vex ekki inn í hann eins og ífarandi mein frá mjólkurgangi gerir yfirleitt. 

  • Stórvaxnar krabbameinsfrumur sem líta út fyrir að vera af hárri gráðu. Þær eru því mjög ólíkar eðlilegum og heilbrigðum brjóstafrumum. Hinsvegar haga kjarnakrabbameinsfrumur sér ekki eins og frumur af hárri gráðu sem eru ágengar og skipta sér og dreifa hratt. Kjarnakrabbameinsfrumur hafa tilhneigingu til að renna saman í greinilegum lögum og erfitt að koma augu á frumuvegg hverrar frumu fyrir sig. Frumuveggur er ysta lag frumu.

  • Ónæmisfrumur (hvítar blóðfrumur, s.k. eitilfrumur og plasmafrumur) á ystu mörkum æxlisins. Hlutverk ónæmisfrumna er að verjast sjúkdómum og hverju því sem þær skynja sem ógn við líkamann. Talið er að þessar frumur stuðli að því að halda kjarnakrabbameini í skefjum og komi í veg fyrir að þær skipti sér og dreifi ört.

Sýni æxlið öll þessi atriði er talið að um dæmigert kjarnakrabbamein sé að ræða. Stundum eru atriðin færri sem greina má og stundum finnast ífarandi krabbameinsfrumur inni á milli.

Auk þess sem að ofan er sagt tjá kjarnakrabbameinsfrumur stundum prótín sem kallast p53. Hugsanlegt er að meinafræðingurinn kanni hvort p53 er fyrir hendi til að ganga úr skugga um að á ferðinni sé kjarnakrabbamein.

Fleiri atriði geta skorið úr um tegundina:

  • Hormónaviðtaka-neikvætt: Yfirleitt er hormónaviðtaka ekki að finna á kjarnakrabbameini.

  • HER2-viðtaka-neikvætt. Á kjarnakrabbameinsfrumum finnast yfirleitt ekki viðtakar fyrir prótínið HER2/neu.

Erfitt getur reynst að greina kjarnakrabbamein og oft ekki einfalt að greina muninn á kjarnakrabbameinsfrumum og frumum sem mynda ífarandi mein frá mjólkurgangi. Spyrðu lækninn þinn um þessi atriði, ef þú telur ástæðu til.

 ÞB