Meðferð við kjarnakrabbameini

Í sameiningu leggið þið læknir þinn línurnar fyrir meðferð við kjarnakrabbameini. Til eru þeir læknar sem finnst nóg að meðhöndla greinilegt kjarnakrabbamein með skurðmeðferð og láta þar við sitja. Þá er ekki bætt við neinum viðbótarmeðferðum svo sem meðferð með krabbameinslyfjum eða geislameðferð. Ástæðan er sú að kjarnakrabbamein er yfirleitt smávaxið æxli, frumurnar ekki ágengar og sá sér sjaldan í eitla. Aðrir læknar telja að öll tilfelli kjarnakrabbameins skuli meðhöndla á sama hátt og ífarandi mein frá mjólkurgangi´. „Ósvikið" kjarnakrabbamein er fremur sjaldgæft og erfitt að greina það svo ótvírætt sé og því vilja margir læknar vera vissir um að krabbameinið sé meðhöndlað til fulls. Sé kjarnakrabbameinið að einhverju leyti ódæmigert er meðferðin alltaf sú sama og við ífarandi meini frá mjólkurgangi. Komist verður að niðurstöðu um hvers konar meðferð hentar þér best út frá einkennum meinsins svo sem stærð æxlis, gráðu og því hvort krabbamein hefur sáð sér í eitla. Meðferðarplanið gæti falist í:

  • Skuðmeðferð í því skyni að fjarlægja æxlið og ef þess gerist þörf, þá eitla sem krabbamein hefur náð til. Hafi kjarnakrabbamein á annað borð sáð sér í eitla, er yfirleitt ekki um að ræða flæri en 3 eitla. Skurðaðgerðir sem til greina koma eru:

    • Fleygskurður: Skurðlæknir fjarlægir aðeins þann hluta brjóstsins þar sem æxlið er að finna og svolítið af eðlilegum aðliggjandi vef. Hann kann einnig að skera burta nokkra eitla.

    • Einfalt brjóstnám: Þá er brjóstið tekið án þess að eitlar í holhönd séu fjarlægðir. Hugsanlega má taka varðeitlasýni til að kanna hvort eitill eða eitlar næst æxlinu sýni merki um að meinið hafi sáð sér.

    • Breytt róttækt brjóstnám: Þá er brjóstið tekið, himnan á brjóstvöðvanum og fleiri eða færri eitlar úr holhönd.

  • Krabbameinslyfjameðferð: Meðferð með krabbameinslyfjum felst í að fá frumudrepandi lyf, ýmist í töfluformi eða beint í æð. Lyfin berast með blóðrás um allan líkamann. Markmiðið er að eyða öllum krabbameinsfrumum sem kunna að hafa dreift sér út frá frumæxlinu. 

  • Geislameðferð: Í geislameðferð er orkumiklum geislum beint að svæðinu þar sem krabbameinið fannst eins og bringu eða eitum í holhönd. Svona hnitmiðuð geislun getur tortímt þeim krabbameinsfrumum sem kunna enn að vera til staðar.

Flest kjarnakrabbameinsæxli reynast ekki hafa viðtaka fyrir estrógen eða prógesterón (hormóna). Því er meðferð með andhormónalyfjum svo sem tamoxifeni eða aromatase-hemlum  yfirleitt ekki beitt, en þannig lyf trufla getu estrógens til að ýta undir vöxt krabbameinsfrumna. Hið sama gildir um HER2-viðtaka. Þeir eru yfirleitt ekki fyrir hendi heldur þannig að ekki er unnt að meðhöndla meinið með trastuzumab (Herceptin®). Þú ættir samt að fá það staðfest af krabbameinslækni þínum hvort þessi lyf geti komið þér að gagni eða ekki.  

 ÞB