Einkenni og greining slímkrabbameins

Í þessari grein finnurðu upplýsingar um einkenni slímkrabbameins og mismunandi aðferðir við að greina það.

Einkenni og teikn

Hið sama á við um slímkrabbamein brjósti og aðrar tegundir brjóstakrabbameins, að til að byrja með veldur það hugsanlegum engum einkennum. Með tímanum kann að myndast nógu stór hnútur í brjóstinu til að þú getir fundið fyrir honum með sjálfskoðun eða við læknisskoðun. Æxlin geta verið á bilinu 1 til 5 cm að stærð.

Greining

Greining á gangaæxli gerist yfirleitt í nokkrum áföngum:

  • Brjóstið er þreifað. Læknir þinn finnur ef til vill hnút í brjóstinu þegar hann þreifar það eða þú finnur hann sjálf við þreifingu.

  • Brjóstamyndataka.Með henni er unnt að staðsetja æxlið og leita að merkjum um krabbamein í báðum brjóstum.

  • Segulómun (MRI), ómskoðun eða hvort tveggja kann að koma til greina. Þá fást ítarlegri myndir af brjóstunum og unnt að leita teikna um krabbamein annars staðar í líkamanum.

  • Sýnistaka. Með því að taka sýni er unnt að fjarlægja allt æxlið eða hluta þess og skoða í smásjá. Sýni má taka með því að nota sérstaka nál (grófnálarsýni) eða með því að gera lítinn skurð (brottskurðarsýni). Vefjarsýni er lykilþáttur í því að fá fram nákvæma greiningu því á myndum er ekki unnt að greina gangaæxli frá öðrum tegundum brjóstakrabbameins eða góðkynja hnút (ekki krabbamein).

Þegar meinafræðingur rannsakar vefinn í smásjá, leitar hann að litlum klösum krabbameinsfrumna sem virðast „fljóta" í slímpollum. Æxlið kann að vera að mestu leyti slím eða þá aðallega krabbameinsfrumur sem eru aðskildar með lítilsháttar slími.  

Slímkrabbamein kann einnig að finnast nærri eða saman við aðrar algengari tegundir brjóstakrabbameinsfrumna. Stundum finnst staðbundið krabbamein í mjólkurgangi (DCIS) nærri slímkrabbameininu. Í slímkrabbameinsæxli kunna einnig að finnast ífarandi krabbameinsfrumur frá mjólkurgangi. Myndi ífarandi krabbameinsfrumurnar meira en 10% æxlisins, yrði meinið greint sem „blandað" slímkrabbamein. „Hreint" slímkrabbamein samanstendur að minnsta kosti 90 hundraðshlutum af slímkrabbameinsfrumum (90%).

Hið sama á við um slímkrabbamein og aðrar sjaldgæfar tegundir brjóstakrabbameins að sérstaka færni þarf til þess að greina það. 

  • Hormónaviðtaka-jákvætt: Rannsóknir sýna að í 90-100% tilfella af „hreinu" slímkrabbameini reynast krabbameinsfrumur hafa viðtaka fyrir estrógen og í 50-68% tilfella fyrir prógesterón.

  • HER2-neikvætt: Slímkrabbamein reynist yfirleitt ekki hafa viðtaka fyrir prótínið HER2/neu.

  • Eitlar neikvæðir: Hreint slímkrabbamein sáir sér afar sjaldan í eitla. Það á einkum við ef æxlið er 1-2 cm eða minna. Æxli sem eru stærri en það kunna að sá sér í eitla. Stundum benda krabbameinsfrumur í eitlum til þess að æxlið sé í rauninni blandað slímkrabbamein þar sem einnig er að finna ífarandi krabbameinsfrumur frá mjólkurgangi. 

 ÞB