Meðferð við slímkrabbameini

Þið læknir þinn vinnið saman að því að leggja línurnar fyrir meðferðinni við slímkrabbameini þínu. Auðveldara er að meðhöndla hreint slímkrabbamein heldur en ífarandi mein frá mjólkurgangi svo hugsanlega þarf ekki eins ágenga meðferð — sér í lagi ef æxlið er smávaxið og krabbamein hefur ekki dreift sér í eitla.

Meðferðin gæti falist í:

  • Skurðmeðferð til að fjarlægja æxlið og grunsamlega eitla. Skurðmeðferð gæti verið eitthvað af eftirfarandi:

    • Fleygskurður: Skurðlæknir fjarlægir aðeins æxlið („hnútinn”) og svolítið af heilbrigðum aðliggjandi vef. Stundum eru einnig fjarlægðir eitlar úr holhönd til rannsóknar.

    • Einfalt brjóstnám: Eingöngu er fjarlægður brjóstvefur, án þess að fjarlægja eitla eða vöðvavefinn undir brjóstvefnum. Hugsanlega er tekið sýni úr varðeitli til að kanna ástand eitlana næst æxlinu og hvort þar er einhverjar krabbameinsfrumur að finna.

    • Breytt róttækt brjóstnám: Brjóstið er allt fjarlægt, himna brjóstvöðvans og einhverjir holhandareitlar. Þar sem gangaæxli er yfirleitt smávaxið og hefur litla tilhneigingu til að dreifa sér, er þessi aðgerð sjaldan framkvæmd.

Viðbótarmeðferð, svo sem með andhormónum og/eða krabbameinslyfjum

  • Andhormónameðferð felst í að taka inn lyf eins og tamoxifen eða aromatase-hemla, sem ýmist loka fyrir áhrif estrógens eða minnka magn estrógens í líkamanum. Nánast öll slímkrabbameinsæxli eru estrógen-viðtaka-jákvæð, sem þýðir að sennilega reynist andhormónalyf árangursríkt. Markmiðið með viðbótarmeðferð með andhormónalyfjum er að draga úr líkum á að krabbameinið taki sig upp aftur.

  • Krabbameinslyfjameðferð felur í sér að fá frumudrepandi lyf, ýmist í töfluformi eða með lyfjagjöf í æð. Lyfin berast með blóðrásinni til allra hluta líkamans. Markmiðið er að tortíma öllum krabbameinsfrumum sem kunna að hafa sáð sér út frá upprunalega meininu (frumæxlinu). Skoðanir eru skiptar á því hvort nauðsynlegt sé að gefa frumudrepandi lyf þegar um slímkrabbamein er að ræða.

Margir læknar byggja meðmæli sín með viðbótarmeðferð á því hve stórt æxlið var og hvort einhver merki finnast um að það hafi borist í eitla. Hér á eftir fara nokkrar þumalputtareglur – en mundu að læknar kunna að hafa ólíkar skoðanir á því hvort viðbótarmeðferð sé nauðsynleg við slímkrabbameini.

  • Sé æxlið minna en 1 cm og engar eða mjög fáar krabbameinsfrumur í einum holhandareitli: Hugsanleg er mælt með andhormónalyfi, en frekari meðferð er óþörf.

  • Sé æxlið 1 til 2,9 cm að stærð, engar eða mjög fáar krabbameinsfrumur í einum holhandareitli: Meðferð með krabbameinslyfjum kemur til greina ásamt andhormónameðferð.

  • Sé æxlið 3 cm eða stærra og hefur sáð sér til eitla í holhönd: Mælt er sterklegar með krabbameinslyfjameðferð og andhormónameðferð að henni lokinni. 

Þið læknir þinn getið rætt áhættu og ávinning af meðferðum umfram þá að skera burt meinið. Ákvörðunin gæti oltið á tilfinningu fyrir því hvað ykkur finnst að sé þér fyrir bestu.

Flest slímkrabbamein eru án viðtaka fyrir prótínið HER2/neu (HER2-viðtaka neikvæð), þannig að yfirleitt væri ekki gefið lyfið trastumuzab (Herceptin®). Gakktu samt úr skugga um það við lækni þinn hvort það lyf kynni að koma þér að gagni.

 ÞB