Aukaverkanir sameiginlegar andhormónalyfjum

Allar andhormónameðferðir hafa það að markmiði að draga úr áhrifum estrógens víðs vegar um líkamann á sama hátt og gerist á breytingaskeiði. Meðferðirnar framkalla ýmsar aukaverkanir sem líkjast þeim breytingum sem verða í líkama konunnar við það að fara úr barneign og finnur um helmingur kvenna sem fer í slíka meðferð fyrir þeim. Þar á meðal eru:

  • Snemmbúin tíðahvörf (sem hugsanlega ganga til baka þegar andhormónameðferð lýkur),

  • hitakóf,

  • Þyngdaraukning eða bjúgmyndun,

  • leggangaþurrkur,

  • skapsveiflur,

  • geðlægð/þunglyndi.


Konur upplifa áhrif andhormónalyfja á mismunandi vegu og fjöldi og eðli einkenna kann að breytast með tímanum. Einkenninn eru að miklu leyti háð því hvar þú varst stödd þegar þú byrjaðir meðferðina, hvort þú varst enn í barneign eða komin yfir tíðahvörf og hve hratt estrógenmagnið minnkar í líkamanum. Kynntu þér betur hvaða áhrif tíðahvarfaeinkennin kunna að hafa á þig.

Hjá konum í barneign sem fara í meðferð til að stöðva starfsemi eggjastokka eða láta taka þá, minnkar estrógenmagnið mjög hratt. Þær upplifa oft mjög sterk tíðahvarfaeinkenni. Einkum á það við, hafi þær komist á breytingaskeið með því að fara í krabbameinslyfjameðferð og hefja síðan töku með andhormónalyfja sem minnka estrógenmagnið enn frekar.

Sértu þegar komin yfir tíðahvörf er minna estrógen í líkamanum en ella væri. Með því að taka inn aromatase-hemla minnkar estrógenmagnið enn frekar. Takir þú inn Arimidex® (efnafræðiheiti:anastrozole), Aromasin® (efnafræðiheiti: exemestane) eða Femara® (efnafræðiheiti: letrozole), máttu búast við að upplifa enn frekari tíðahvarfaeinkenni.

Tamoxifen verkar eins og veikt estrógen annars staðar í líkamanum en í brjóstvef, þar á meðal í heilanum. Heilahormónar sjá um að hitastillir líkamans starfi rétt. Þegar heilahormónar ná ekki að setja af stað meiri estrógenframleiðslu (af því að tamoxifen situr á estrógenviðtökunum), getur hitastillirinn ekki starfað eins og honum er ætlað frá náttúrunnar hendi og bregst hann þá við með því að skrúfa frá hita. Yfirleitt framkallar tamoxifen erfiðari hitakóf en aromatase-hemlar. Kynntu þér betur tamoxifen og hormónameðferðir við tíðahvarfaeinkennum (grein á ensku).

Lestu áfram til að fá meira að vita um aukaverkanir sameiginlegar öllum andhormónalyfjum.


Snemmbúin tíðahvörf

Sumar konur í barneign verða fyrir því að blæðingar hætta. Það gæti annað hvort þýtt að þær séu að fara inn í tímabundið breytingaskeið eða inn í snemmbúin tíðahvörf sem eru varanleg og ganga ekki til baka.

Hafir þú haft reglulegar blæðingar áður en þú byrjaðir að taka inn andhormónalyf, en blæðingar síðan orðið óreglulegar eða stöðvast alveg, munu reglulegar blæðingar að öllum líkindum byrja aftur þegar þú hættir að taka lyfið.

Flestar konur sem fara í gegnum breytingaskeið á eðlilegan hátt eru á aldrinum 51 til 52 ára. Sértu farin að nálgast þann aldur þegar þú byrjar að taka inn andhormónalyf ferðu hugsanlega inn í tíðahvörf eitthvað fyrr en þú hefðir annars gert.

Hafðu í huga að andhormónalyf eru gefin í fimm ár og stundum lengur. Þeim árum fylgir eðlileg öldrun sem allar konur upplifa og hefur áhrif á eggjastokkana. Hormónamagnið minnkar þegar heilahormónar senda frá sér sífellt færri boð. Þetta eðlilega fall í estrógenmagni er óskylt þeim áhrifum sem andhormónalyf hafa.

Fyrr eða síðar komast allar konur á breytingaskeið og fara úr barneign. Lestu meira um tíðahvörf og brjóstakrabbamein og hvernig þetta æviskeið kann að verða hjá þér.


 

Hitakóf

Um það bil helmingur þeirra kvenna sem taka inn andhormónalyf upplifir hitakóf. Þegar estrógenmagn líkamans minnkar eða estrógenviðtakar teppast, ruglast hitakerfi líkamans. Afleiðingin verður hitakóf. Þau geta verið væg og viðráðanleg, en þau geta einnig gert þér lífið leitt. Hitakóf eru hins vegar ekki hættuleg í sjálfum sér.

Flestum konum finnst hitakófin óþægilegasta aukaverkun andhormónalyfja. Sumar venjast þeim, aðrar finna leið til að lifa með vandanum. Yfirleitt dregur úr hitakófum með tímanum. Konur sem finna fyrir alvarlegum hitakófum þurfa að læra að takast á við þau meðan á andhormónameðferðinni stendur.

Unnt er að taka inn lyf við hitakófum, þar á meðal væga skammta af vissum þunglyndislyfjum og öðrum lyfjum sem draga úr starfsemi boðefna í heila sem stjórna hitamyndun. Effexor® (efnafræðiheiti: vanlafaxine) og Paxol® (efnafræðiheiti: paroxetine) eru dæmi um þannig lyf. Umfangslítil rannsókn leiddi í ljós að Neurontin® (efnafræðiheiti: gabapentin), lyf sem notað er við flogaveiki, fækkar verulega hitakófum og dregur úr styrk þeirra hjá konum sem taka inn tamoxifen.

Ræddu þessa möguleika við lækni þinn, dragi ekki úr hitakófum og þau halda áfram að vera vandamál. Þú átt skilið að vera laus við þau.

Takir þú annað hvort inn tamoxifen eða aromatase-hemla og færð hitakóf, getur þú hugsanlega spurt lækni þinn hvort mögulegt sé fyrir þig að fá að hætta að taka lyfin í eina til tvær vikur og byrja síðan aftur á minni skammti sem síðan er stækkaður í það sam þú varst að taka. Hugsanlega aðlagar líkaminn sig betur ef styrkleikinn er aukinn hægt og rólega.

 

Breytingar í kynfærum

Þú kannt að verða vör við kláða í kynfærunum og illa þefjandi útferð meðan á andhormónameðferð stendur. Stafar það af því að skortur á estrógeni getur valdið breytingum á "umhverfinu" sem verður til þess að gerlar ná að þrífast. Það getur valdið stöðugri sveppasýkingu í leggöngum og ytri sköpum (þar á meðal á svæðum sem ekki liggja utan á eins og undir sníphettunni). Sýkingunni fylgir hvítt klístur eða ystingur í og umhverfis kynfæri.

Til að draga úr hættu á sveppasýkingu skaltu skola leggöng og ytri sköp varlega með vatni reglulega. Spurðu lækni þinn hvort þér sé óhætt að nota örlítið af MJÖG mildri sápu.

Sértu með greinilegi einkenni sveppasýkingar eða læknir þinn hefur greint sveppasýkingu, geturðu fengið lyf sem hjálpa þér að vinna bug á henni. Sýkladrepandi lyf er í sumum tilfellum hægt að fá án lyfseðils.

Þurrkur í leggöngum er enn önnur aukaverkun þess að hafa lítið estrógen í þessum líkamshluta. Útferð í leggöngum getur þornað og safnast upp í hvítt, þykkt klístur. Þess háttar útferð líkist sveppasýkingu en er það ekki. Stundum geta samfarir reynst sársaukafullar og það getur orðið til að draga úr kynlífi þínu og kynlífslöngun eða orðið til að taka fyrir það. Vatnsleysanleg sleipiefni sem fást án lyfseðils í apótekum geta bjargað þessu. Allar breytingar í kynfærum skaltu óhrædd ræða við lækni þinn.

 

Ógleði og uppköst

Um tíundi hluti kvenna í andhormónameðferð upplifir ógleði sem vandamál, en yfirleitt hætta ógleði og uppköst eftir fáeinar vikur. Ekki er algengt að ástandið vari lengur en fáeina mánuði. Að finna til ógleði eða velgju getur verið óþægilegt ástand jafnvel þótt það sé hættulaust. Biddu lækni þinn um ógleðilyf til að draga úr þessum aukaverkunum. Lestu líka meira um hvernig takast má á við ógleði og uppköst.

 

Þyngdaraukning

Margar konur þyngjast meðan á meðferð með krabbameinslyfjum stendur og af sterum sem stundum eru gefnir samhliða þeim. Sú þróun kann að halda áfram eftir að krabbameinslyfjameðferð lýkur á meðan þú ert á andhormónalyfjum. Margar konur segjast bæta á sig meðan þær eru á andhormónalyfjum þótt ástæðan sé alls ekki ljós.

Margar konur vilja kenna andhormónalyfjunum um. Þær fullyrða iðulega að tamoxifen eða aromatase-hemlar valdi því að þær hafa bætt á sig kólóum sem þær losna ekki við. Tvær stærstu rannsóknirnar sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum og í Kanda á vegum National Surgical Adjuvant Breast and Bowel Project (NSABP) sýndu hins vegar að konur sem tóku inn lyfleysu voru allt eins líklegar til að bæta á sig kólóum og konur sem tóku inn tamoxifen.


Margar ástæður kunna að vera fyrir þyngdaraukningu:

  • Hugsanlega þyngdist þú á meðan þú varst í krabbameinslyfjameðferð áður en andhormónameðferð hófst.

  • Þú hreyfir þig ef til vill minna en áður en borðar jafnmikið (eða jafnvel meira). Hugsanlega þarftu einnig á færri hitaeiningum að halda til að standa í stað vegna tíðahvarfabreytinga og almennra breytinga á efnaskiptum. 

  • Þú kannt að hafa hætt að reykja og snarlar hugsanlega meira í staðinn.

  • Þú átt ef til vill í baráttu við ofát vegna særðrar sjálfsmyndar, kvíða eða þunglyndis. 

  • Þú ert að eldast. Konur hafa tilhneigingu til að bæta á sig holdum þegar aldurinn færist yfir. 


Hafir þú ekki þyngst fyrsta hálfa árið á andhormónum verður þetta trúlega ekkert vandamál fyrir þig. Reyndar eru til konur sem LÉTTAST meðan á andhormónameðferð stendur og sumum hefur tekist að losa sig við aukakíló sem höfðu safnast á þær með árunum.

 

Geðsveiflur og þunglyndi

Þú kannt að finna fyrir geðsveiflum eða þunglyndi þegar þú tekur inn andhormónalyf, en ekki er vitað hvort það stafar eingöngu af lyfjunum. Tvær stórar rannsóknir sem gerðar voru af NSABP sýndu að depurð eða þunglyndi var ekki algengara hjá konum sem tóku inn tamoxifen en þeim sem tóku inn lyfleysu.

Hver svo sem orsökin kann að vera, er rétt að takast á við depurð sem ekki hverfur fljótlega. Hana þarf að meta og fá meðferð við henni hjá reyndum fagaðila. Það fer eftir því hve alvarleg depurðin eða þunglyndið reynist vera hvort rétt er að meðhöndla það með sálfræðimeðferð, lyfjum eða hvoru tveggja.

Til að létta aðeins á kann læknir þinn að mæla með að þú hættir að taka inn andhormónalyfin um tíma eða skammturinn verði minnkaður. Það kann að draga töluvert úr depurðinni en yfirleitt hverfur vandamálið ekki alveg. Þunglyndislyf ásamt ráðgjöf kunna að veita varanlegri bót.

Konur á andhormónalyfjum hafa sumar kvartað undan kvíðaköstum. Verðir þú vör við kvíðaköst (óvæntan ótta, mæði, andþrengsli, herping fyrir brjósti) sem ekki hverfa, skaltu leita hjálpar. Lyf og ráðgjöf geta gert gæfumuninn.

Þetta er erfitt tímabil í lífi þínu. Ekki sætta þig við óþarfa sársauka - hvort sem hann er líkamlegur eða andlegur. Leitaðu hjálpar!

 

Orkutap

Þú kannt að finna fyrir orkuleysi meðan á meðferð með andhormónalyfjum stendur á sama hátt og hefði hugsanlega gerst við náttúrleg tíðahvörf. Í báðum tilvikum minnkar estrógenmagn líkamans sem er sá brunnur sem margar konur sækja orku sína í. Reyndar getur margt annað en andhormónalyf stuðlað að orkutapi. Hreyfingarleysi, þyngdaraukning, verkir, hitakóf, ótti, óvissa, áhyggjur og þunglyndi eru allt saman orkuþjófar. Reyndu að finna stund fyrir sjálfa þig einhvern tíma dagsins til að gera eitthvað sem virkilega veitir þér gleði og þú nýtur í botn, eitthvað sem kveikir áhuga þinn og gefur þér þar af leiðandi meiri orku.

  

Beinverkir hjá konum með fjarmeinvörp brjóstakrabbameins(krabbamein sem hefur dreift sér í önnur líffæri eða líkamshluta) 

Hjá konum með fjarmeinvörp brjóstakrabbameins geta allar tegundir andhormónalyfja framkallað ástand þar sem verkir blossa upp skömmu eftir að byrjað er á lyfjunum. Verkirnir aukast um hríð meðan meinið bregst við því að fá ekki lengur estrógenið sem það þarfnast sér til viðgangs. Þótt þessi aukaverkun sé óþægileg er hún merki um að meðferðin skilar árangri. (Ekki fá allir þessa verki. Fáir þú enga verki, þarf það alls ekki að þýða að meðferðin virki EKKI). Verkjalyf geta slegið á óþægindin af verkjunum, sem oft hverfa að fáum mánuðum liðnum.  


* Málsgrein merkt stjörnu er innskot  yfirlesara.

ÞB