Fyrir hverja er andhormónameðferð?

Andhormónameðferð er mikilvægur möguleiki fyrir konur sem eru með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum. Það á við um konur á öllum aldri, með sjúkdóminn á hvaða stigi sem er, ýmist með öðrum meðferðum eða án. Sumar tegundir andhormóna geta einnig gagnast konum sem aldrei hafa fengið brjóstakrabbamein en eru í áhættuhópi þar sem líkur á sjúkdómnum eru yfir meðallagi.

Þú gætir haft gagn af andhormónameðferð ef þú ert með:

  • Staðbundið mein, svo sem DCIS (Ductal Carcinoma in Situ). Andhormónameðferð dregur úr hættu á að staðbundið krabbamein taki sig upp. Það sem skiptir þó meira máli er að hún minnkar einnig líkur á alvarlegu ÍFARANDI krabbameini í annað hvort brjóstið.

  • Ífarandi krabbamein á fyrstu stigum. Andhormónameðferð getur dregið úr hættu á að krabbamein taki sig upp aftur, svo og á líkum á nýju krabbameini í öðru hvoru brjóstinu.

  • Stórt æxli í brjóstinu. Andhormónameðferð getur stuðlað að því að minnka æxlið fyrir skurðaðgerð og hugsanlega gert þér kleift að halda brjóstinu. *Hérlendis er hugsanlegt að upprunaleg stærð æxlis ráði úrslitum um hvort allt brjóstið er tekið eða fleygur úr því, jafnvel þótt ákveðið sé að minnka æxlið fyrir skurðaðgerð.

  • Krabbamein sem hefur tekið sig upp. Hafi krabbamein með hormónaviðtaka tekið sig upp, getur andhormónameðferð komið að gagni. Andhormónameðferð er beitt á mismunandi vegu eftir því hvort meinið hefur tekið sig upp á ný

  • Dreift krabbamein (meinvörp). Andhormónameðferð getur stuðlað að því að koma böndum á dreift krabbamein, minnka það og koma í veg fyrir að það sái sér frekar en orðið er.

  • Miklar líkur eru á brjóstakrabbameini en það hefur ekki greinst. Andhormónameðferð getur dregið úr líkum á sjúkdómnum og komið í veg fyrir hann hjá konum sem

Konur með brjóstakrabbamein ÁN hormónaviðtaka þurfa að íhuga aðrar meðferðarleiðir. Séu krabbameinsfrumur án estrógen- og/eða prógesterónviðtaka sem andhormónar geta verkað á, kemur andhormónameðferð að litlu gagni og ekki þess virði að kljást við aukaverkanir þegar ávinningur er enginn.


Atriði sem þarf að hafa í huga þegar valin er andhormónameðferð

Hjá mörgum konum getur andhormónameðferð skilað miklum árangri með tiltölulega litlum aukaverkunum. Hún er þó ekki gallalaus. Ýmis atriði þarf að íhuga og vega kosti og galla áður en byrjað er í meðferðinni. Þú og læknir þinn þurfið að ræða þessi atriði og vega hugsanlega kosti eða gagnsemi á móti þeim aukaverkunum sem búast má við í þínu tilfelli. Þið þurfið líka að ræða hvernig kostir og gallar meðferðarinnar kunna að hafa áhrif á aðra þætti heilsu þinnar.

Láttu ganga fyrir að hugsa fyrst um það sem snertir krabbameinið. Kynntu þér eftir getu mismunandi meðferðir með andhormónum. Fáðu að vita hvaða tegund eða tegundir kunna að gagnast þér. Kynntu þér síðan aukaverkanir lyfjanna. Að síðustu skaltu taka til athugunar hvaða áhrif meferðin kann að hafa á aðra þætti heilsu þinnar.

Fyrsta skref: Fáðu að vita hvaða andhormónalyf henta þér best

Eftirfarandi atriði úr greiningu krabbameinsins hjálpa þér og lækni þínum að ákveða meðferðarleið:

  • Hormónastaða krabbameinsins —Er krabbameinið með viðtaka fyrir hormónana estrógen eða prógesterón (hormóna-jákvætt) eða án hormónaviðtaka (hormóna-neikvætt)?

  • Aðrar meðferðir sem þú hefur farið í —Hefurðu þegar farið í meðferð með krabbameinslyfjum og/eða í geislameðferð? Hefurðu áður farið í annars konar andhormónameðferð?

  • Líkurnar á að meinið taki sig upp —Eru einhver atriði sem kunna að gera það að verkum að hætta á að meinið taki sig upp sé meiri en gengur og gerist hjá þér eða líkurnar á að þú fáir nýtt brjóstakrabbamein. Hvað getur þú gert til að draga úr líkunum?

Annað skref: Veldu með lækni þínum heppilegustu meðferðina

Bendi svörin við spurningunum hér að ofan til að andhormónameðferð geti hjálpað þér, er næsta skref að ákveða með lækninum hvernig best sé að standa að henni. Eftirfarandi atriði þarf að hafa í huga: 

Hvort þú ert enn í barneign eða komin úr barneign

  • Ertu enn í barneign og hefur blæðingar mánaðarlega? Ertu á breytingaskeiði með óreglulegar blæðingar eða komin úr barneign og hætt að hafa blæðingar? (Auk breytinga á tíðum hefur það ýmis önnur áhrif á líkamann að fara úr barneign, þar á meðal byrjandi beinþynningu). 

  • Tamoxifen er það lyf sem ævinlega er gefið konum í barneign.

  • Að stöðva starfsemi eggjastokka eða taka þá er annar kostur fyrir konur í barneign, stundum ásamt einhverri annarri meðferð  sem hefur áhrif á hormónabúskapinn. 

  • Aromatase-hemlar eru aðeins fyrir konur komnar úr barneign.

  • Faslodex® (efnafræðiheiti: fulvestrant) er annar möguleiki fyrir konur komnar úr barneign með langt genginn sjúkdóm.

Stig brjóstakrabbameinsins

  • Tamoxifen er eina andhormónalyfið sem hefur verið samþykkt í því skyni að draga úr líkum kvenna sem mikil hætta er á að fá brjóstakrabbamein (án þess að hafa greinst með sjúkdóminn) og fyrir konur með staðbundið brjóstakrabbamein (ekki ífarandi). Þetta er það lyf sem notað er þegar í hlut eiga konur í barneign, á hvað stigi sjúkdómsins sem er.

  • Verið er að rannsaka hvaða áhrif aromatase-hemlar hafa á konur sem ekki hafa greinst með brjóstakrabbamein og möguleika lyfsins á að draga úr hættu á sjúkdómnum. 

  • Aromatase-hemlar er það lyf sem fyrst verður fyrir valinu þegar veita á konum komnum úr barneign með ífarandi brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum andhormónameðferð.  

  • Önnur andhormónalyf koma einnig til greina og fer það eftir því á hvaða stigi sjúkdómurinn er og ástandi þínu.

Einkenni brjóstakrabbameinsins

  • Fyrstu niðurstöður benda til að aromatase-hemlar verki betur en tamoxifen þegar um er að ræða brjóstakrabbamein með HER2 viðtökum hjá konum komnum úr barneign. Í niðurstöðum rannsóknar var lagt til að velja andhormónameðferð með tilliti til ER+/PR+ or ER+/PR- hlutfalls viðtaka fyrir estrógen og prógesterón (ER+/PR+ or ER+/PR-). 

 

Þriðja skref: Hafðu í huga aðra þætti heilsu þinnar en krabbameinið

Hugsanlega er eitthvað fleira að hrjá þig sem hefur ekkert með krabbameinið að gera en þarf að taka sérstakt tillit til á meðan þú ert í meðferð með andhormónum. Yfirleitt ráða þeir þættir ekki úrslitum um hvaða meðferð verður fyrir valinu, en þeir gefa hins vegar vísbendingu um hvaða þáttum þarf að huga að í tengslum við hugsanlegar aukaverkanir meðan á meðferð stendur. 

 

  • Blóðtappi
    Hafir þú einhvern tíma fengið blóðtappa, vill læknir þinn að öllum líkindum ekki að þú takir inn tamoxifen. Sértu hins vegar enn í barneign, blóðtappinn var ekki alvarlegur og tamoxifen mikilvægur þáttur í að vernda þig, kann læknirinn að mæla með að þú takir jafnframt inn blóðþynningarlyf (t.d. aspirín).  

  • Alvarleg beinþynning
    Sumir læknar vilja láta mæla beinþéttnina áður en byrjað er á andhormónameðferð því í ljós hefur komið að mörg þessara lyfja hafa áhrif á beinheilsu. Hafir þú farið í beinþéttnimælingu (DEXA-skann), og fengið að vita að þú ert með byrjandi beinþynningu (eða beinþynningu), þarf hugsanlega að gefa þér beinstyrkjandi lyf. Hrífi lyfin ekki og þú hefur brotnað nýlega, gæti læknirinn mælt með að þú takir fremur inn tamoxifen en aromatase-hemla. Telji læknirinn hins vegar brýnt að þú takir inn aromatase-hemla og að það geti skipt sköpum fyrir þig, þarf hugsanlega að gera áhrifaríkari ráðstafanir til að styrkja bein þín jafnframt töku aromatase-hemlanna.

  • Liðagigt
    Liðagigt er algeng hjá konum, hvort sem þær hafa greinst með brjóstakrabbamein eða ekki. Aromatase-hemlar geta valdið verkjum í liðum og vöðvum. Þú kannt að finna fyrir þannig verkjum í fyrsta sinn þegar meðferð hefst eða kunnuglegir verkir að versna.

  • Ekkert legnám
    Sértu enn með leg, kann læknir þinn að mæla með að þú fáir ekki tamoxifen því það er talið tengjast hærri tíðni leghálskrabbameins.

Svarið við spurningunni "fyrir hverja er andhormónameðferð?" nær því yfir æði stóran hóp kvenna. Á hverjum tíma þurfið þið læknir þinn að skoða og meta árangur meðferðar í ljósi aukaverkana hennar.

Með því að fræðast um mismunandi andhormónalyf áttu auðveldara með að ræða við lækni þinn.  

ÞB