Hve lengi stendur andhormónameðferð?
Það fer eftir ástandi og aðstæðum þínum hve lengi þú þarft að taka inn andhormónalyf. Meðferð ræðst af því hvort um er að ræða:
-
Viðbótarmeðferð (eftir skurðaðgerð, krabbameinslyfjameðferð og/eða samhliða og eftir geislameðferð). Stundum er talað um fyrirbyggjandi meðferð í þessu samhengi (e.: adjuvant therapy).
-
Formeðferð (fyrir skurðaðgerð til að minnka æxli), e.: neoadjuvant therapy).
-
Meðferð við fjarmeinvörpum (þegar krabbamein hefur sáð sér í önnur líffæri eða aðra líkamshluta).
Eftir fyrstu meðferð: Viðbótarmeðferð með andhormónum
Þegar um er að ræða brjóstakrabbamein á fyrstu stigum fylgir andhormónameðferð yfirleitt í kjölfar fyrstu meðferðar svo sem skurðaðgerðar, meðferðar með krabbameinslyfjum og/eða geislameðferðar. Andhormónameðferð að loknum fyrstu meðferðum kallast viðbótarmeðferð eða fyrirbyggjandi meðferð.
Yfirleitt er talið æskilegt að viðbótarmeðferð með andhormónum standi frá fimm upp í tíu ár. Hafir þú nýlokið við fyrstu meðferð og ert um það bil að hefja andhormónameðferð til viðbótar, má gera ráð fyrir að læknir þinn hafi annað hvort skrifað upp á tamoxifen, aromatase-hemilinn Arimidex® (efnafræðiheiti:anastrozole) eða Femara® (efnafræðiheiti: letrozole) sem einnig er aromatase-hemill sem þú þarft að taka í fimm ár til að byrja með.
Hafir þú þegar tekið inn tamoxifen í tvö til þrjú ár og ert nú komin úr barneign, kann læknir þinn að mæla með að þú skiptir yfir í aromatase-hemilinn Aromasin® (efnafræðiheiti: exemestane) þann tíma sem eftir er allt að fimm árum. Með öðrum orðum: Þú tekur inn aromasin í tvö til þrjú ár eftir að hafa tekið inn tamoxifen í tvö til þrjú ár, þannig að samtals verði meðferðartíminn fimm ár.
Hafir þú þegar verið á tamoxifeni í fimm ár, ert komin úr barneign og krabbameinið hefur ekki tekið sig upp, kann læknir þinn að mæla með að þú takin inn andhormónalyfið femara önnur fimm ár til viðbótar.
Ekki er vitað hvort það gagnast konum með sjúkdóminn á fyrstu stigum sem hafa tekið inn aromatase-hemil (arimidex, aromasin eða femara) að halda áfram að taka inn andhormónalyf. Verið er að rannsaka það til að fá svar við þeirri mikilvægu spurningu.
Fyrir skurðaðgerð: Formeðferð með andhormónum
Sé æxlið í brjóstinu stórt eða krabbameinið hefur sáð sér í umtalsverðan fjölda eitla og hormónaviðtakar fyrir hendi á krabbameinsfrumum, kann læknir þinn að mæla með að þú farir í formeðferð með andhormónum. Andhormónameðferð fyrir skurðaðgerð gæti orðið til þess að minnka æxlið.
Formeðferð með andhormónum kann að standa í þrjá til sex mánuði - svo framarlega sem hún virkar og æxlið minnkar. Meðferðin verður sniðin að aðstæðum þínum og þarf því ekki að verða eins og hér er lýst. Hún getur orðið lengri eða skemmri eftir aðstæðum.
Meðferð við krabbameini sem hefur dreift sér
Konur með dreift krabbamein (meinvörp) með hormónaviðtökum halda yfirleitt áfram að taka inn andhormónalyf á meðan þau gera eitthvert gagn. Hætti ein tegund andhormóna að verka, má reyna aðra. Yfirleitt mun læknir þinn mæla með að andhormónalyfi sé skipt út fyrir annað með hliðsjón af viðbrögðum þínum við lyfinu.
Annað sem kann að ráða því hve meðferð með andhormónum stendur lengi
Reynist nýtt lyf áhrifaríkara gegn þeirri tegund krabbameins sem þú ert með en lyfið sem fyrir er, geturðu hugsanlega skipt um lyf.
Meðferðartíminn kann einnig að ráðast af aukaverkunum. Sumar konur finna aðeins fyrir vægum aukaverkunum eða tekst að ráða við þær án mikilla óþæginda. Aðrar konur kunna aftur á móti að finna fyrir töluverðum aukaverkunum eða eiga erfitt með að ráða við þær aukaverkanir sem þær finna fyrir. Séu lífsgæði þín minni af völdum andhormónalyfsins sem þú tekur en þau ella gætu verið, kann læknir þinn að mæla með að þú skiptir um lyf til að athuga hvort þú ræður betur við það.
Fleira getur komið til því kannski varstu í barneign þegar þú greindist með brjóstakrabbamein en hefur við meðferðirnar farið úr barneign. Þú kannt einnig að hafa verið með brjóstakrabbamein án hormónaviðtaka þegar þú greindist fyrst, en síðan hefur nýtt og annars konar brjóstakrabbamein þróast þar sem hormónaviðtakar eru fyrir hendi. Því gætu lyf sem ekki hentuðu við fyrstu greiningu gagnast þér eftir því sem sjúkdómurinn breytist.
Lestu meira um:
-
Hvernig þið læknir þinn veljið andhormónameðferð. (Að ákveða andhormónameðferð.)
ÞB