Að ákveða andhormónameðferð

Miklar líkur eru á að andhormónameðferð geti gagnast þér mjög vel, séu hormónaviðtakar á krabbameinsfrumunum. Læknirinn byrjar á að fara yfir sjúkraskrárnar þínar til að átta sig á hvaða hlutverki andhormónalyf kunna að gegna í þínu tilfelli. Síðan ræðir hann við þig um kostina í stöðunni og leitast við að kynnast þér og óskum þínum, kemur með tillögur og hjálpar þér að taka ákvörðun. Möguleikar á meðferð og meðmæli kunna að breytast þegar fram líða stundir.

Talið er að á öll stig ífarandi brjóstakrabbameins með hormónaviðtökum hrífi aromatase-hemlar (arimidex, aromasin, femara) betur en tamoxifen og þeim fylgi einnig færri aukaverkanir. Tamoxifen er engu að síður gott lyf og það lyf sem oftast er gefið konum sem eru í barneign.

þegar valin er rétta andhormónameðferðin fyrir þig þarf læknirinn að taka tillit til nokkurra atriða. Sumir læknar byggja meðmæli sín á leiðbeiningum sem gefnar eru út af samtökum krabbameinslækna í Bandaríkjunum (American Society of Clinical Oncology - ASCO). Síðan eru tekin inn í myndina atriði sem snerta þig persónulega, hvaða tegund brjóstakrabbameins þú ert með, á hvaða stigi það er, hvort þú ert enn í barneign eða komin yfir tíðahvorf og hvaða líkur eru á að meinið taki sig upp á ný. Læknirinn þarf einnig að taka tillit til annarra meðferða sem þú kannt að hafa farið í. Loks er mikilvægt að taka tillit til annarra sjúkdóma sem þú kannt að vera með og vega kostina sem lyfið kann að hafa fyrir krabbameinsmeðferðina með hliðsjón af þeim. Annar langvinnur sjúkdómur eða veikindi kunna að gera þér erfitt fyrir að þola hugsanlegar aukaverkanir andhormónalyfs. Taka verður fullt tillit til hættunnar sem brjóstakrabbameininu kann að fylgja og vega og meta gagnsemi lyfja með tilliti til hennar og annarra sjúkdóma.

Val á andhormónalyfi með tilliti til frjósemi

Andhormónalyfið sem þið læknir þinn veljið, ræðst að miklu leyti af því hvort þú ert í barneign eða komin úr barneign.

Sértu enn í barneign liggja þessir kosti fyrir:

 • Sértu með sjúkdóminn á fyrri stigum geturðu tekið inn tamoxifen í fimm ár.

 • Þú getur ákveðið að láta stöðva starfsemi eggjastokkanna (með lyfjum) eða taka þá (með skurðaðgerð).

 • Þegar tekið hefur verið fyrir starfsemi eggjastokka með lyfjum eða þeir verið teknir, ertu komin úr barneign. Þá kynni læknir þinn einnig að mæla með aromatase-tálmum sem þú tækir í fimm ár (eða það sem eftir lifir af fimm árum, hafir þú þegar tekið inn tamoxifen í tvö eða þrjá ár).


Sértu komin úr barneign eru þessir kostir fyrir hendi:

 • Sértu með sjúkdóminn á fyrstu stigum geturðu tekið inn aromatase-hemla, annað hvort Arimidex® eða Femara®, eftir fyrstu meðferð (skurðaðgerð, krabbameinslyfjameðferð, geislameðferð).

 • Hafir þú byrjað á að taka inn tamoxifen geturðu skipt yfir í aromatase-hemilinn Aromasin® eftir tvö til þrjú ár og haldið áfram með það lyf þar til meðferð hefur staðið í fimm ár.

 •  Eftir fimm ár á tamoxifeni er hægt að taka inn Femara® í fimm ár til viðbótar (framhaldsmeðferð).

 • Taki sjúkdómurinn sig upp aftur eða nýtt brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum hefur náð að þróast á meðan þú tókst inn tamoxifen, geturðu tekið inn eitthvert þeirra þriggja lyfja sem eru aromatase-hemlar, þ.e. arimidex, aromasin eða femara.

 • Sértu með dreifðan sjúkdóm (meinvörp) og hann tók sig upp á sama tíma og þú tókst inn aromatase-hemla, kann læknir þinn að vilja að þú prófir að taka inn tamoxifen eða Faslodex® (efnafræðiheiti: fulvestrant), hafirðu ekki fengið þau lyf áður. Stundum er mælt með því að skipta úr einum aromatase-hemla yfir í annan ef vera kynni að þú brygðist við nýrri tegund þótt önnur hafi ekki virkað. Lestu meira um hvaða kostir eru á andhormónameðferð við krabbameini sem hefur sáð sér.

 
Tegund brjóstakrabbameins og val á andhormónalyfi

Læknir þinn og þú þurfið að taka tillit til þess hvaða tegund af brjóstakrabbameini þú ert með þegar ákveðið er hvaða andhormónalyf sé best að þú takir.

 • Góðkynja mein: Sértu með góðkynja hnút sem engu að síður eykur til muna líkur á að þú fáir brjóstakrabbamein, er tamoxifen eina andhormónalyfið sem samþykkt hefur verið af FDA (The U.S. Food and Drug Administration) *og hið sama á við hérlendis.

 • Staðbundið krabbamein (DCIS): Tamoxifen er eina andhormónalyfið sem FDA hefur samþykkt fyrir konur með staðbundið brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum (DCIS). Í læknisfræðilegum (klínískum) rannsóknum eru aromatase-hemlar gefnir konum komnum úr barneign með DCIS.

 • HER2-jákvæður sjúkdómur: Heppilegra er að gefa konum komnum úr barneign með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum sem einnig er HER2-jákvætt aomatase-hemla fremur en tamoxifen.

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB