Samanburður á andhormónameðferðum
Þið læknir þinn þurfið að ræða hinar ýmsu tegundir andhormónalyfja og bera þær saman til að komast að niðurstöðu um hves konar meðferð hentar þér best.
Til eru ferns konar andhormónalyf. Ýmist draga þau úr eða taka alveg fyrir hæfileika estrógens til að kveikja á vexti brjóstakrabbameinsfrumna með hormónaviðtökum.
-
Tamoxifen—er best þekkta SERM-lyfið (Selective Estrogen-Receptor Modulator)— og tekur sæti estrógens í estrógenviðtökum. Tamoxifen hefur verið samþykkt handa konum bæði fyrir og eftir tíðahvörf og á öllim stigum sjúkdómsins, séu hormónaviðtakar fyrir hendi, hvort heldur er fyrir eða eftir skurðaðgerð.
-
Aromatase-hemlar draga úr estrógenframleiðslu eftir tíðahvörf. Aromatasae-hemlar eru aðeins ætlaðir konum komnum úr barneign með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum. Allar tegundir hafa verið samþykktar handa konum með dreifðan sjúkdóm (meinvörp), en þær eru Arimidex® (efnafræðiheiti anastrozole), Aromasin® (efnafræðiheiti: exemestane) og Femara® (efnafræðiheiti: letrozole). Einnig hefur verið heimilað að nota hvert þeirra handa konum með sjúkdóminn á fyrstu stigum á ýmsum tímum eftir skurðaðgerð.
-
Faslodex—er eina tiltæka ERD-lyfið (Estrogen-Receptor Downregulator) —og eyðileggur hormónaviðtaka. Meðferð með faslodexi er ætluð konum komnum yfir tíðavörf með dreift brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum. Til meðferðar með þessu lyfi má grípa þegar önnur andhormónalyf, t.d. aromtase-hemlar eða tamoxifen, eru hætt að virka. Faslodex® má einnig nota samhliða öðrum móthormónalyfjum.
-
Að stöðva starfsemi eggjastokka eða taka þá minnkar estrógenframleiðslu kvenna í barneign með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum. Starfsemi eggjastokka er stöðvuð með lyfjum sem koma í veg fyrir að eggjastokkarnir framleiði estrógen. Eggjastokkar eru teknir með skurðaðgerð.
Þegar þið læknir þinn takið að hugleiða hvaða andhormónameðferð kunni að henta ÞÉR best, muntu vilja bera saman lyf í sama flokki og meðferðir með hinum ýmsu lyfjum. Sum lyf hafa verið prófuð saman þannig að samanburðurinn byggist á niðurstöðum úr hundruðum og jafnvel þúsundum tilfella í klínískum rannsóknum. Önnur lyf hafa ekki verið prófuð hvert með öðru og því ekki hægt að bera þau saman á þann hátt.
Með hliðsjón af aðstæðum þínum kanntu að velja ákveðinn kost núna og breyta síðan til eftir því sem þörf gerist.
Mismunur SERM-lyfja innbyrðis
Tamoxifen er það andhormónalyf sem mest er notað í heiminum og þarf af leiðandi mest notaða SERM-lyfið. Talið er að besta meðferð fyrir konur í barneign með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum á öllum stigum sjúkdómsins fáist með tamoxifeni. Það má einnig gefa konum komnum yfir tíðahvörf með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum.
Toremifene (tegundarheiti: Fareston®) er lyf sem heimilað hefur verið að gefa konum komnum úr barneign með dreift krabbamein (fjarmeinvörp). Talið er að lyfið hafi í för með sér ívið minni hættu á krabbameini í legslímhúð en tamoxifen. Toremifene hefur hins vegar ekki verið tiltækt jafn lengi og tamoxifen og aðeins verið prófað á konum með fjarmeinvörp brjóstakrabbameins. Miklu sjaldnar er ávísað á það en tamoxifen, líklega vegna þess að læknar hafa meiri reynslu af tamoxifen og þekkja til niðurstaðna rannsókna sem sýna að tamoxifen gagnast bæði við krabbameini á fyrstu stigum og þeim síðari.
Mismunur aromatase-hemla innbyrðis
Hver tegund aromatase-hemla um sig (Arimidex®, Aromasin® og Femara®) sýnir betri árangur en tamoxifen þegar lyfin eru borin saman með klínískum hætti. Hins vegar er ekki vitað hvernig lyfin standa sig innbyrðis því engar klínískar rannsóknir hafa verið gerðar þar sem ein tegund aromatase-hemla er borin saman við aðra.
Þegar bornar eru saman rannsóknir á hverri tegund aromatase-hemla fyrir sig kemur hins vegar í ljós að lyfin þrjú virðast skila svipuðum árangri. Aukaverkanir þeirra eru einnig mjög svipaðar. Hjá konum komnum úr barneign með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum hafa allar tegundir aromatase-hemla náð að:
-
Draga úr líkum á að brjóstakrabbameinið taki sig upp aftur,
-
draga úr líkum á að nýtt brjóstakrabbamein nái að myndast í öðru hvoru brjóstinu,
-
hægja á eða stöðva framvindu langt gengins sjúkdóms.
Hvert aromatase-lyf hefur verið samþykkt af FDA (Food and Drug Administration) til notkunar gegn sjúkdómnum á fyrri stigum á mismunandi tíma eftir skurðaðgerð:
-
Arimidex—strax eftir skurðaðgerð.
-
Aromasin—eftir tvö til þrjú ár á tamoxifeni.
-
Femara — strax eftir skurðaðgerð og eftir fimm ár á tamoxifeni.
Aromatase-hemlarnir hafa allir verið samþykktir af FDA handa konum með fjarmeinvörp brjóstakrabbameins með hormónaviðtökum. Flestir læknar eru þeirrar skoðunar að lyfin þrjú hafi sams konar áhrif og enginn munur sé á vikni þeirra. Sumir læknir eru á því að það sé eins og að velja á milli kók og pepsí að gera upp á milli lyfjanna þegar kemur að því að meðhöndla fjarmeinvörp.
Svolítill munur er á lyfjunum þegar kemur að aukaverkunum þannig að þú kannt að eiga auðveldara með að þola eitt lyf en annað. Stundum er það þannig að læknir þekkir einfaldlega betur eitt lyf en annað og ávísar því oftast á það.
Munurinn á SERM-lyfjum og aromatase-tálmum
Þar sem aromatase-hemlar virka einungis á konur komnar úr barneign er aðeins hægt að bera saman SERM-lyf og arinatase-hemla þegar í hlut eiga konur komnar yfir tíðahvörf með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum.
Fyrir 2004 var öllum konum komnum úr barneign gefið tamoxifen sem fyrsta andhormónalyf eftir skurðaðgerð. Hins vegar sýndu nýlegar rannsóknir að aromatase-hemlar gáfu betri raun en tamoxifen og því var leiðbeiningum um meðferð breytt í samræmi við það þegar í hlut áttu konur komnar úr barneign með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum. Af þeirri ástæðu er nú orðið algengt að læknar
-
byrji á að gefa arimidex eða femara, eða
-
láti konurnar skipta yfir í arimidex eða aromasin eftir að hafa verið tvö til þrjú ár á tamoxifeni, eða
-
láti konurnar skipta yfir í femara þegar þær hafa verið fimm ár á tamoxifeni.
-
Læknir þinn kann að vilja að þú skiptir yfir í aromatase-hemla sé tamoxifen hætt að virka eða þú átt erfitt með að ráða við aukaverkanir þess.
Munurinn á SERM-lyfjum, aromatase-tálmum og ERD-lyfjum
Faslodex® (efnafræðiheiti: fulvestrant) er eina ERD-lyfið sem til þessa hefur fengist samþykkt af FDA til að meðhöndla konur komnar úr barneign með langt gengið brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum sem ekki svarar lengur meðferð með tamoxifeni eða aromatase-tálmum.
Þegar ákveðið er hvort eigi heldur að gefa tamoxifen, aromatase-hemla eða faslodex er það gert í ljósi þess hver staða konunnar er. Hér eru þrír möguleikar og einhver þeirra gæti átt við þig:
-
Hafirðu verið í barneign, tekið tamoxifen í tvö til fimm ár, krabbameinið tekið sig upp að nýju og þú nú komin úr barneign, er hugsanlegt að læknirinn leggi til að næst fáir þú aromatase-hemla.
-
Sértu komin úr barneign, hefur tekið aromatase-hemla í tvö til fimm ár en krabbameinið tekið sig upp aftur, kann læknirinn að vilja skipta yfir í aðra tegund aromatase-hemla.
-
Sértu komin úr barneign, ert með fjarmeinvörp brjóstakrabbameins og hefur þegar prófað fleiri en eina tegund aromatase-hemla, kann læknir þinn að ákveða að skipta yfir í faslodex eða láta þig byrja aftur að taka tamoxifen.
Munurinn á að stöðva starfsemi eggjastokka með lyfjum og að taka þá
Aðeins er gripið til þess ráðs að stöðva starfsemi eggjastokka eða taka þá þegar í hlut eiga konur með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum sem enn eru í barneign.
Þegar starfsemi eggjastokka er stöðvuð er það gert með lyfjum sem hafa þau áhrif að koma í veg fyrir að eggjastokkarnir framleiði estrógen. Lyfið er gefið með því að skjóta því undir húðina á maganum í hylki sem skammtar lyfið. Þannig lyfjaskammtur er gefinn mánaðarlega í nokkra mánuði. Læknirinn lætur taka blóðsýni til að fylgjast með hvernig estrógenmagn minnkar með tímanum.
Eggjastokkar eru teknir með skurðaðgerð. Gerðir eru tveir litlir skurðir á magann og eggjastokkarnir fjarlægðir í gegnum þá. Þótt þetta teljist skurðaðgerð er hún minniháttar og þú verður trúlega orðin góð eftir fáeina daga.
Með báðum aðferðum er dregið mjög úr estrógenmagni líkamans. Þar sem báðar aðferðirnar hafa í rauninni í för með sér að þú kemst á breytingarskeið máttu búast við einkennum eins og hitakófum, leggangaþurrki, þyngdaraukningu og þreytu. Við eggjastokkanám ferðu fyrirvaralaust úr barneign að afstaðinni aðgerð, en með því að fá mánaðarlega lyf gefst líkamanum tími til að aðlagast minnkandi estrógenmagni.
Báðar aðferðirnar valda ófrjósemi, þannig að þú getur ekki eignast börn eftir þær. Hins vegar kunna aðrir kostir að vera fyrir hendi, svo sem ættleiðing.
Meðferðin sem hentar ÞÉR best
Andhormónalyf kunna að virka vel við margar og mismunandi aðstæður. Meðmæli með ákveðinni meðferð kunna að breytast eftir því hvers þú þafnast, hvaða árangri meðferð skilar, hvernig þér líður með henni eða vegna framfara sem orðið hafa á þessu sviði. Þegar þú kemur í eftirlit til læknis þíns er mikilvægt að þið farið yfir stöðuna, staðfestið annað hvort óbreytta lyfjanotkun eða breytið lyfjum eftir því sem kann að gagnast þér best.
ÞB