Að halda sig við meðferð

Meðferð við brjóstakrabbameini felur í sér að nausynlegt er að sýna staðfestu um langa hríð. Fyrstu meðferðir, eins og meðferð með krabbameinslyfjum og geislameðferð, gera ráð fyrir reglulegum heimsóknum á göngudeildir sjúkrahúsa. Einnig getur reynst nauðsynlegt að taka inn lyf í allt að 5 eða jafnvel 10 ár að fyrstu meðferðum loknum til að draga úr líkum á að meinið taki sig upp.

Besti árangur næst þegar meðferðaráætlun er fylgt samviskusamlega. Það getur hins vegar reynst þrautin þyngri að halda sig við meðferð. Á það einkum við þegar fyrstu mánuðirnir eru að baki.

Margar og mismunandi ástæður geta verið fyrir því að fólk fylgir ekki meðferðaráætlun eða klárar hana ekki. Hafðu hugfast að þetta er vandamál sem margir eiga við að glíma. Sért þú í þeim sporum ertu ekki ein um það! Hins vegar er það svo, að því betur sem meðferðaráætlun er fylgt, þeim mun meiri líkur eru á að hún komi að gagni.

Staðreyndin er sú að þegar fyrstu meðferðum er lokið — skurðaðgerð, geislameðferð og hugsanlega meðferð með krabbameinslyfjum — langar marga (og ef til vill þig) til að hætta einfaldlega að hugsa um þetta. Málið er afgreitt! Þetta er búið og gert - að baki! Þú komst í gegnum þetta og vilt ekki þurfa að hugsa um krabbamein framar. Þú þráir að vakna að morgni eins og ekkert hafi í skorist, taka við því sem dagurinn ber í skauti sér, sofna að kvöldi og sofa til næsta dags án þess að leiða hugann að krabbameini. Eins og aðrir vilt þú geta hugsað um framtíðina og gert áætlanir án þess að ótti við krabbamein sé að þvælast fyrir þér.

Þessar óskir eru sterkar og fullkomlega eðlilegar. Samt veistu trúlega innst inni að einhver ótti eða kvíði vegna krabbameins mun líklega fylgja þér alla ævi. Þú hefur hugsanlega ákveðið í samráði við lækni þinn að besta meðferðaráætlunin felist í langtíma andhormónameðferð eða öðrum lyfjum sem þú þarft að taka reglulega — á hverjum degi, í hverri viku eða einu sinni í mánuði — árum saman. Við það bætist að þú þarft að fara í eftirlit reglulega svo hægt sé að fylgjast með heilsufari þínu og ganga úr skugga um að allt sé í lagi hjá þér.

ÞB