Að halda sig við geislameðferð

Árangur geislameðferðar er að mjög miklu leyti háður því að gefinn sé allur sá geislaskammtur sem mælt er með án þess að rjúfa þurfi meðferðina í einhverjum mæli.

Þessir tveir þættir geislameðferðar skipta öllu máli vegna þess að:

  • Fullan geislaskammt þarf til að losna við þær krabbameinsfrumur sem verða eftir að skurðaðgerð lokinni.

  • Geislameðferð hefur mest áhrif þegar geislað er samfellt og án þess að hlé verði á meðferðinni. Yfirleitt eru geislar gefnir einu sinni á dag alla virka daga, þ.e. 5 daga í viku, í 5 til 7 vikur.

Við það má bæta að með því að hitta lækninn reglulega meðan á meðferðinni stendur og að henni lokinni, er auðveldast að takast á við aukaverkanir meðferðarinnar og greina eins fljótt og auðið er ef meinið tekur sig upp.

Vandamál sem geta gert það erfitt að fylgja meðferðaráætlun:

  • Meðferðin stangast á við kröfur tengdar atvinnu, þarfir fjölskyldunnar eða fjarlægðir gera þér erfitt fyrir að mæta í geislana. Þetta gæti valdið því að þú sleppir úr eða frestar bókuðum tíma í geislameðferð. 

  • Ertingin sem geislun veldur í húðinni getur gert það að verkum að hún verður aum, flagnar eða, eins og stundum gerist, hleypur upp í blöðrum. Hafir þú einnig farið í eitlanám og eitlar verið fjarlægðir úr holhöndinni, geta óþægindin þar versnað. Verðir þú fyrir aukaverkunum af þessu tagi gæti þig langað mest til að hætta í geislameðferðinni. 

Leiðir til að sigrast á vandamálunum og halda sig við geislameðferð:

  • Talaðu við starfsfólkið á geisladeild um tímasetningar á geislameðferðinni. Það mun eftir föngum reyna að setja upp stundaskrá sem kemur til móts við þarfir þínar.

  • Ekki er líklegt að stutt hlé sem vara aðeins einn eða tvo daga dragi úr áhrifum geislameðferðar. Þurfir þú á stuttu hléi að halda, skaltu tala við lækninn þinn og byrja aftur í meðferðinni eins fljótt og þú mögulega getur.

  • Komist þú ekki hjá því að sleppa bókuðum tíma, má bæta honum við í lokin. Ræddu þetta atriði við starsfólk geisladeildar.

  • Lestu um aukaverkanir geislameðferðar og hvernig unnt er að bregðast við þeim. 

  • Ef særindin í húðinni eru mikil, skaltu biðja lækni þinn um að skrifa upp á sterkari húðverndarvörur. Endrum og sinnum getur reynst nauðsynlegt að gera stutt hlé þannig að húðin fái tíma til að jafna sig. Ræddu við lækni þinn um hve langt hlé þér er óhætt að taka og hvernig þú getur tekið upp þráðinn aftur á sem þægilegastan hátt.   

ÞB