Að gleyma að taka lyfin

Margs konar lyf við brjóstakrabbameini, þar á meðal móthormónalyf og sum krabbameinslyf, eru tekin í pilluformi um munn. Þótt það sé þægilegra en að mæta hjá lækni eða á göngudeild til að fá sprautu, er einnig auðveldara að gleyma lyfjunum. Ýmsar ástæður geta orðið til þess að þú vanrækir að taka inn lyfin:

  • Þegar daglegt líf hefst á nýjan leik vill gleymast að þörf sé á því að taka inn lyf.

  • Finnist þér þú vera orðin hraust á nýjan leik, þykir þér ef til vill sem nú sé nóg komið - mörgum árum áður en meðferðinni er í raun lokið. 

  • Eftir því sem tíminn líður fækkar heimsóknum til lækna í eftirlit og því verður sífellt færra sem minnir á meðferðaráætlunina. 

  • Takir þú inn fleiri en eitt lyf, getur reynst erfitt að fylgjast með þeim öllum.

Kannanir sýna að fólki með krabbamein reynist oft erfitt að halda sig við meðferðaráætlun. 

Með því að taka inn lyfin eins og mælt er fyrir um, skilar meðferðin bestum árangri. Þótt fimm ár (og stundum meira) kunni að virðast langur tími, hafa ótal rannsóknir verið gerðar til að ganga úr skugga um hve lengi er nauðsynlegt að taka lyfin til að þau skili sem bestum árangri. 

Til að halda sig við meðferðina er hugsanlega ekki nóg að treysta á minnið eitt. Jafnvel þegar fólk heldur að það hafi munað eftir að taka töfluna sína, kemur fyrir að því skjátlast. Rannsóknir sýna að þegar fólk með krabbamein segist hafa tekið lyfin eins og ráð er fyrir gert, hafa margir vikið frá því í mun meiri mæli en þeir gerðu sér grein fyrir.

Athugaðu hvort eftirfarandi ráð geta hjálpað þér að muna eftir að taka inn lyfin:

  • Biddu lækni þinn eða hjúkrunarfræðing að láta þig hafa lyfjaplanið skriflega. Í planinu ætti að lýsa stærð og útliti töflunnar, hve oft á að taka hana, hvernig eigi að taka hana (tyggja, gleypa með vatni o.s.frv.), hvort hún skuli tekin á fastandi maga eða með mat. Biddu um leiðbeiningar um hvað þú átt að gera ef þú gleymir pilluskammti, hvort þú megir til dæmis taka töflu síðdegis eða að kvöldi hafir þú gleymt að taka hana að morgni eða hvort þú eigir að bíða til næsta dags.

  • Búðu til lyfjadagbók. Notaðu dagatal eða vasadagbók til að fylgjast með hvaða lyf þú tekur og hvenær dagsins. Til eru á netinu dagatöl sem geta hjálpað þér við þetta. Munir þú ekki hvort þú ert búin að taka inn lyfið, geturðu alltaf flett því upp og athugað málið. 

  • Taktu alltaf inn lyfin á sama tíma. Getir þú tengt ákveðnar daglegar athafnir því að taka inn lyfin — t.d. ákveðinni máltíð, þegar þú burstar tennurnar eða áður en þú ferð í háttinn— eru meiri líkur á að þú munir eftir þeim.

  • Notaðu tölvu eða vekjaraklukku til að minna þig á. Vinnir þú að jafnaði við tölvu með dagatals- og minnisforriti (t.d. Outlook) geturðu látið hnippa í þig þegar kominn er tími til að taka inn lyf. Þú getur líka stillt vekjaraklukkuna á réttan tíma fyrir lyfin. Séu svona tæki ekki við hendina, en þú sest undir stýri daglega, geturðu bundið slaufu um stýrið til að minna þig á. *Þessum aðferðum þarf að fylgja einlægur ásetningur um að taka eftir merkjunum og sinna þeim!

  • Komdu vikuskammti af lyfjum fyrir í pilluboxi. Í pilluboxi er sérstakt hólf fyrir hvern dag. Svona box geturðu fengið í næsta apóteki eða pantað á netinu.

  • Tölvustýrð lyfjaskömmtun er hentug fyrir þá sem taka inn þrjú eða fleiri lyf að staðaldri á ólíkum tímum dagsins eða vikunnar. Lyfjunum er pakkað í skammta fyrir hverja inntöku og þau afhent í rúllu þar sem hver skammtur dagsins er í merktum poka. Á pokanum koma fram upplýsingar um lyfin, hver á að taka þau, hvaða læknir ávísar þeim, dagsetning og hvenær dags á að taka þau inn. Skila þarf lyfseðli í apótekið og óska eftir þjónustunni. Kynntu þér verð þjónustunnar og hvort hægt er að fá lyfin send heim ef það hentar þér betur en að sækja þau.

  • Biddu vin eða fjölskyldumeðlim - eða einhvern sem þú ert í tengslum við í gegnum stuðningshóp - að vera "lyfjavinur" þinn. Ef það er einhver úr stuðningshópi geti þið stutt hvor aðra eða hvort annað, aðalatriðið er að viðkomandi manneskja sé í aðstöðu til að minna þig á lyfin sem þú þarft að taka og ganga úr skugga um að þú hafir gert það.

  • Gakktu frá því við lækni þinn að það sé ákveðið hvenær þú kemur næst í eftirlit. Það getur veitt þér stuðning og auðveldað þér að muna eftir lyfjunum eigir þú að hitta lækni þinn reglulega. Heimsóknina geturðu notað m.a. til að spyrja spurninga um lyfin eða aukaverkanir þeirra.

  • Mundu eftir lyfjunum á ferðalögum. Farir þú að heiman skaltu taka með þér nóg af lyfjum í upprunalegum umbúðum og taka pilluboxið með þér og vasabókina. Einnig gæti verið skynsamlegt að taka með sér lyfseðil á hvert einstakt lyf til öryggis. Þegar þú ferðast með flugi skaltu ævinlega hafa öll lyf og lyfseðla í handfarangrinum þínum, því fyrir kemur að farangur týnist og komi ekki fram fyrr en seint og um síðir. Þá geturðu verið örugg um að hafa lyf við hendina. 

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB