Að halda sig við andhormónameðferð

Andhormóna- eða and-östrogenmeðferð ver allan líkamann með því að loka fyrir áhrif hormóna (aðallega östrogens) á krabbameinsfrumur. Þessi tegund meðferðar virkar aðeins á þær tegundir brjóstakrabbameins þar sem hormónaviðtakar finnast á krabbameinsfrumum. (Krabbameinið er þá hormónaviðtaka-jákvætt).

Andhormónameðferðir eru notaðar til þess að minnka líkurnar á að meinið taki sig upp, minnka líkur á að nýtt krabbamein myndist, svo og til að draga úr líkum kvenna á að fá brjóstakrabbamein sem eru í áhættuhópi.

Flest andhormónalyf — þar með talin tamoxifen® og aromatase-hemlar — eru tekin um munn (pillur), á hverjum degi. ERD-lyf eru gefin með sprautu mánaðarlega.

Andhormónalyf eru yfirleitt tekin í fimm ár eða lengur og fer það eftir því á hvaða stigi sjúkdómurinn var og tegund lyfs. Sumar konur byrja á að taka eina tegund andhormónalyfs og skipta síðan yfir í annað lyf eftir 2-3 ár. Þegar fimm ára meðferð er lokið velja sumar konur að taka halda áfram meðferð með andhormónalyfi eða -lyfjum í fimm ár til viðbótar.

Bestur árangur af andhormónalyfjum fæst með því að taka inn lyfin eins og mælt er fyrir um, ár eftir ár. Að fylgja fyrirmælum um skammta —bæði hvað varðar skammtastærð og lengd meðferðar — er mjög mikilvægt vegna þess að:

 • Því betur sem þú heldur þig við meðferðina, þeim mun betur gagnast hún þér í því markmiði þínu að draga úr líkum á að sjúkdómurinn nái að þróast eða taka sig upp.

 • Komi það fyrir hvað eftir annað að þú sleppir skammti af andhormónalyfinu, er erfiðara fyrir lækni þinn að sjá hvort lyfið er raunverulega að skila tilætluðum árangri, og þar með verður erfiðara að ákveða hvort best sé að þú haldir þig við lyfið eða skiptir hugsanlega yfir í annað lyf.

Margar konur eiga erfitt með að halda sig við andhormónameðferð í þau fimm ár sem meðferðin tekur yfirleitt. Rannsókn sem m.a. var gerð af Dr. Ann H. Partridge við Dana-Farber Cancer Institute í Boston sýndi að 23% sjúklinga tóku ekki inn tamoxifen-töflurnar í 20 skipti af hverjum hundrað eða oftar (20% tímans).

Í rannsókninni kom einnig fram að konur áttu erfiðara með að halda sig við meðferðina eftir því sem árinu liðu og fór úr 87% fyrsta árið í 50% á fjórða ári.

Eftir því sem Dr. Partridge segir breytir það ekki miklu þótt gleymist að taka inn andhormónalyf endum og sinnum. En hún bætir því við að ekki sé óhætt að missa samtals úr einhverja mánuði, því það dregur úr þeirri vernd sem meðferðinni er ætlað að veita.

Vandamál sem geta gert það erfitt að halda sig við andhormónameðferð:

 • Þegar taka þarf lyf daglega í mörg ár getur komið fyrir að það gleymist að taka þau eða því er sleppt af einhverjum ástæðum.

 • Tilfinning þess að meðferðin sé ekki ómaksins verð. Það á einkum við um þær sem aldrei hafa greinst með brjóstakrabbamein en taka lyfin í því skyni að minnka líkur á að fá sjúkdóminn. Kannanir sýna að konur sem taka inn tamoxifen í því skyni að minnka líkur á að fá brjóstakrabbamein hætta fremur í meðferð en þær konur sem taka lyfin til að koma í veg fyrir endurmein (að sjúkdómurinn taki sig upp aftur).

 • Aukaverkanir tamoxifens eru hitakóf, ógleði, ótímabær tíðahvörf og breytingar í leggöngum. Sjaldgæfari en jafnframt alvarlegri aukaverkanir en þær sem þegar eru nefndar, geta komið upp, þar á meðal blóðtappi og krabbamein slímhúð legsins.

 • Meðal aukaverkana aromatase-hemla eru hitakóf, lið- og vöðvaverkir, ógleði, hægðateppa, niðurgangur, höfuðverkur, bakverkur og beinþynning í litlum mæli. 

 • Aukaverkanir ERD-lyfja líkjast aukaverkunum aromatase-hemla.

 • Finnir þú fyrir óþægilegum aukaverkunum af andhormónalyfjunum sem þú tekur inn í töfluformi, er hugsanlegt að þú hættir að taka þær inn án þess að segja lækni þínum frá því. Þar með glatar þú þeirri vörn sem lyfin geta veitt.

Leiðir til að yfirvinna vandamálin:

 • Notaðu töflubox til að fylgjast með skömmtunum. Þú getur lesið meira um hvernig þú getur munað eftir lyfjunum með því að smella á Að gleyma að taka lyfin eða Að gleyma að mæta í lyf, skoðun eða eftirlit, eða ákveða að sleppa því.

 • Séu aukaverkanir andhormónalyfs að angra þig, skaltu tala við lækni þinn eða hjúkrunarfræðing án tafar. Reyndu ekki að bíta á jaxlinn eða þrauka án þess að segja neitt. Það mun einungis hafa í för með sér að ólíklegra er að þú haldir þig við meðferðina þegar fram í sækir. 

 • Þú finnur nákvæmari upplýsingar í kaflanum á brjostakrabbamein.is sem heitir Aukaverkanir andhormónalyfa.

  ÞB