Að halda sig við krabbameinslyfjameðferð

Krabbameinslyf eru lyf sem berast um allan líkamann og ráðast á allar frumur sem skipta sér hratt. Það er ástæða þess að þau geta unnið á krabbameinsfrumum því þær skipta sér hraðar en flestar aðrar frumur líkamans. Frumur í blóði, munni og hári skipta sér einnig tiltölulega hratt. Því geta krabbameinslyf haft í för með sér aukaverkanir sem hafa áhrif á þessa líkamshluta.

Miklar líkur eru á að meðferð með krabbameinslyfjum felist í samsettum krabbameinslyfjum sem eru valin til að ráðast á mismunandi tegundir krabbameinsfrumna í líkamanum. Lyfin eru gefin með því að setja upp nál og gefa þau í æð, þau eru einnig gefin um munn og eru þá í pilluformi, hylki eða vökvi. 

Meðferð með krabbameinslyfjum skilar mestum árangri þegar gefinn er fullur skammtur í þann fjölda skipta sem læknir hefur gefið fyrirmæli um. Best er einnig þegar unnt er að gefa krabbameinslyfin á réttum tíma, án umtalsverðra tafa.

Meðferð með krabbameinslyfjum byrjar yfirleitt fljótlega eftir skurðaðgerð. Lyfin eru gefin í svokölluðum lyfjahringjum þar sem hverri lyfjagjöf fylgir ákveðinn tími sem ætlaður er til hvíldar. Yfirleitt varir meðferð með krabbameinslyfjum frá þremur mánuðum upp í hálft ár.

Vandamál sem geta gert það erfitt að halda sig við meðferðaráætlunina: 

  • Meðferðin kann að stangast á við kröfur á vinnustað, þarfir fjölskyldunnar eða búseta fjarri þeim stað sem lyfin eru gefin geta gert hana erfiðari en ella. Það getur orðið til þess að þú missir af eða þarft að fresta bókaðri lyfjagjöf.

  • Árangur krabbameinslyfa sem taka á um munn (töflur, hylki eða vökvi) er háður því að tekinn sé réttur skammtur af lyfinu á réttum tíma. Erfitt getur reynst að fylgjast með skömmtum, einkum þegar taka þarf inn fleiri tegundir lyfja og henda reiður á þeim. 

  • Meðal algengra aukaverkana krabbameinslyfja eru ógleði, óþægindi, verkir, þreyta, hármissir, ófrjósemi, vægt minnisleysi og aukin sýkingarhætta. Sumar konur finna lítið fyrir aukaverkunum. Aðrar finna fyrir þeim á hverjum degi. Dæmi um sjaldgæfa og alvarlega aukaverkun eru hjartaskemmdir. Hver og ein af þessum ástæðum getur valdið því að þú komist ekki í bókaðan tíma eða fresta þurfi lyfjagjöf. 

Leiðir til að sigrast á vandamálunum:

  • Spyrðu lækni þinn hverju þú mátt búast við í sambandi við þá krabbameinslyfjameðferðina sem þú ferð í svo að þú vitir eins mikið og unnt er áður en hún hefst. 

  • Hafðu hugfast að aukaverkanir tengjast ekki á nokkurn hátt þeim árangri sem meðferðin skilar. Hvort sem þú finnur fyrir aukaverkunum eða ekki eru lyfin að deyða krabbameinsfrumur í líkamanum. Meðferðin verkar auk þess best ef þú fylgir þeirri meðferð sem ákveðin hefur verið og á réttum tíma.

  • Ekki er góð hugmynd að sleppa lyfjahring í því skyni að fara í leyfi eða af öðrum persónulegum ástæðum. Hins vegar getur þú beðið lækni þinn að skipuleggja lyfjahringina þannig að væntanlegir (stór)atburðir í lífi þínu eigi sér stað á vikum þar sem vænta má að þér líði betur en ella.

  • Sértu í vinnu getur verið ráð að reyna að fá lyfin á fimmtudegi eða föstudegi þannig að þú hafir helgina til að hvilast og komast yfir hugsanlegar aukaverkanir.

  • Þegar þú finnur fyrir aukaverkunum af krabbameinslyfjunum, skaltu hafa samband við hjúkrunarfræðinginn eða lækni þinn og biðja um hjálp. Ekki halda að þú megir ekki "ónáða" þau og að þú verðir bara að bíta á jaxlinn.

  • Flestum aukaverkunum má halda í skefjum með lyfjum eða draga úr þeim með breytingum í mat og drykk, breytingum á bókuðum tímum eða tímabundinni notkun hárkollu eða höfuðfata. Þú getur fundið nákvæmar upplýsingar um efnið inni á brjostakrabbamein.is Að takast á við aukaverkanir krabbameinslyfja.

ÞB