Að muna eftir að mæta

Í upphafi meðferðar máttu búast við að þurfa að mæta margsinnis hjá læknum. Meðferðum eins og skurðaðgerð (hugsanlega uppbyggingu brjósts), krabbameinslyfjameðferð og geislameðferð fylgja tíðar ferðir á sjúkrahús eða stofu. Þegar fram líða stundir hittirðu lækninn þinn sjaldnar. Hvort heldur sem er, þá er auðvelt að missa þráðinn og gleyma bókuðum tíma auk þess sem árekstur kann að verða í sambandi við vinnuna eða heimilið.  

Eftirfarandi ráð geta hugsanlega auðveldað þér að fylgjast með hvenær þú þarft að mæta næst í skoðun, viðtal eða eftirlit hjá lækni:

  • Notaðu dagatal og skráðu í það lyfjagjafir og viðtalstíma hjá lækni þínum.  Hengdu upp stórt veggalmanak þar sem þú átt leið um á hverjum degi (*baðherbergið er tilvalinn staður). Sækir þú vinnu og hafir daglegan aðgang að tölvu, geturðu notað dagatals- og minnisforritið í tölvunni. Merktu líka við þá daga sem þú þarft að gera ráð fyrir að fari í að ná þér eftir lyfjagjöfina, t.d. með því að krossa yfir þá,.

  • Færðu inn á dagatalið alla merkisdaga hjá fjölskyldu, vinum og í vinnu sem þú vilt ekki missa af.  Sýni það sig að mikilsverðir atburðir rekast á við meðferðina, skaltu tala við þá sem málið snertir, hvort sem það er vinnuveitandinn, samstarfsfólk, nágrannar, ættingjar eða vinir — og athuga hvort hægt er að finna einhverja lausn. Þegar sjúkraleyfi lýkur, gætir þú þurft að draga úr vinnu og þá gæti verið mikil hjálp í vottorði eða bréfi frá lækni þínum sem staðfestir að þú þurfir að fara varlega og fækka vinnustundum. 

  • Þurfir þú að mæta oft í geisla, lyf eða aðra meðferð, reyndu þá að fá tíma á þeim degi vikunnar sem hentar þér best. Sértu til dæmis í vinnu, kann að vera auðveldara fyrir þig að fá lyfin seinni hluta vikunnar svo að þú hafir helgina til að jafna þig. (*Oft versnar líðanin ekki fyrr en á 2. eða 3. degi eftir lyfjagjöf - gott að hafa það í huga.) Viljir þú eiga góða helgi fyrir fjölskyldu og vini, getur verið ráðlegt að fara fyrstu daga vikunnar. Hvernig sem þú vilt hafa það, þá er mjög gott að stíla alltaf inn á sama vikudag því þá er auðveldara að muna þá. *Flestir krabbameinslæknar á LSH eru þar á ákveðnum dögum, tvisvar til þrisvar í viku, og hið sama gildir um hjúkrunarfræðingana sem gefa lyfin. Þurfir þú nauðsynlega að hitta lækninn er ekki víst að þú getir ráðið miklu um hvenær það verður. 

  • Veldu vin, ættingja, nágranna eða annan stuðningsaðila til að mæta með þér. Það hjálpar þér að mæta á tilskyldum tíma að hafa félagsskap og sé einhver sem getur ekið þér, auðveldar það þér að einbeita þér að meðferðinni og viðtalinu við lækninn, sé um slíkt að ræða. 

  • Ræddu við lækninn ef tími rekst á við einhvern atburð í fjölskyldunni sem ekki er unnt að flytja eða stangast á við fyrirhugað orlof. Ekki er óhugsandi að unnt sé að laga meðferðarplanið að þeim atburðum án þess að það raskist mikið.

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB