Þunglyndi og sinnuleysi

Hugsanir þínar og tilfinningar í sambandi við brjóstakrabbamein, meðferðin og áreynslan sem það kostar að ná heilsu, getur haft áhrif á hve vel þér gengur að halda þig við meðferð. Finnir þú til þunglyndis, eins og sumir sem fá krabbamein gera, kann þér að finnast að þú hafir ekki þrek til að fylgja meðferðarplaninu eftir. Stundum kann þér líka að finnast endalausar læknisheimsóknir og lyfjatökur yrfirþyrmandi og fyllist jafnvel reiði vegna þessa. Orsakirnar geta verið ýmsar:

  • Ekki er auðvelt að finna til sjálfstæðis og framkvæmdavilja einhvern daginn og eiga síðan að fara í meðferð daginn eftir. Kannski missirðu öðru hverju úr lyf eða bókaðan tíma „óviljandi" — því þú þráir það eitt að geta bara haldið áfram að lifa lífinu og láta eins og þú hafir aldrei veikst. Að taka inn töflu getur einnig verið óvelkomin dagleg áminning um brjóstakrabbamein. Þig langar kannski bara til að „að taka þér frí" endrum og sinnum.

  • Hugsanlega efast þú um að meðferðarplanið geti eitthvað gert fyrir þig. Hafi læknir þinn eða hjúkrunarfræðingur ekki upplýst þig nógu vel um tilgang meðferðarinnar og hverju henni er ætlað að áorka, kanntu að spyrja sjálfa þig hvort það sé nokkuð gagn í henni hvort eð er. Vantreystir þú almennt læknum og lyfjum getur það dregið úr vilja þínum og áhuga á að halda þig við efnið. 

  • Þér kann að finnast að meðferðinni ætti að vera lokið og þú laus úr henni löngu áður en læknirinn samþykkir að svo sé. Séu upphaflegu meðferðirnar að baki, getur verið erfitt fyrir þig að ímynda þér hvernig krabbameinið geti tekið sig upp — einkum og sér í lagi hafi meðferðin verið „ágeng". Það á t.d. við um brjóstnám og krabbameinslyfjameðferð. Því er þér ef til vill ekki fyllilega ljóst hvers vegna langtímameðferð og eftirlit er nauðsynlegt.

Mikilvægt er að taka á öllum þeim tilfinningum sem kunna að koma í veg fyrir að þú takir inn lyfin eða mætir hjá lækni. Eftirfarandi ráð geta kannski eitthvað hjálpað:

  • Hugsaðu um brjóstakrabbamein sem ólæknandi (krónískan) sjúkdóm. Krónískir sjúkdómar — svo sem sykursýki, hár blóðþrýstingur og asmi — eru ekki endilega lífshættulegir, en það þarf að hafa stjórn á þeim. Það getur hjálpað þér að hugsa um krabbamein á sama hátt á meðan þú ert í meðferð. Í einhver ár þarftu að hitta lækni reglulega og fylgja meðferð þar til henni er að fullu lokið. 

  • Sértu að velta einhverju fyrir þér í sambandi við meðferðina, skaltu spyrja lækni þinn eða hjúkrunarfræðing. Læknir þinn eða hjúkrunarfræðingur láta þér ef til vill ekki í té nákvæmar upplýsingar nema þú biðjir um þær. Vertu viss um að þú skiljir hvers vegna þörf er fyrir ákveðna meðferð eða lyf og hvers vegna þarf að taka inn lyf í marga mánuði og jafnvel ár. Bara að vita hvernig þetta virkar allt saman getur kveikt vilja þinn til að halda þig við meðferðina. Læðist að þér efasemdir um hvort meðferðin skilar tilætluðum árangri, skaltu segja lækni þínum frá því eða hjúkrunarfræðingnum. *Nýttu þér endilega þá þjónustu sem stendur til boða á LSH og þú getur kynnt þér hér.

  • Biddu um hjálp við andlegri og tilfinningalegri vanlíðan eða depurð. Stundum getur reynst erfitt að skilja á milli þunglyndis og þreytu sem meðferð hefur framkallað. Segðu lækni þínum eða hjúkrunarfræðingi frá því hvernig þér líður og biddu um hjálp til að finna leiðir að betri líðan. Ráðgjafi eða sálfræðingur sem vinnur með fólki sem fengið hefur krabbamein getur veitt mikla hjálp. *Um sálfræðiþjónustu o.fl. á LSH geturðu lesið hér.

  • Gakktu í stuðningshóp eða biddu um að komast í samband við aðra manneskju sem hefur gengið í gegnum það sama og þú ert að takast á við.  Það kann að auðvelda þér að halda þig við meðferðina getir þú talað við manneskju sem er komin lengra í meðferð við brjóstakrabbameini en þú. Ýmsir stuðningshópar eru til og þú getur kynnt þér nánar það sem verið er að gera inni á Stuðningur hér á vefnum. Skoðaðu efnisyfirlitið til vinstri þar sem m.a. er sagt frá og eru tengingar við Samhjálp kvenna, Ljósið endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð, Kraft og fleiri, fyrir utan þann stuðning sem veittur er á LSH. Sértu vel læs á ensku geturðu farið inn á ameríska vefinn breastcancer.org þar sem hægt er að komast í samband við fólk allan sólarhringinn og fá upplýsingar, ráð og hvatningju gegnum Discussion Boards og Live Chat Rooms.

 

*Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda.

ÞB