Tímaskortur og þörf fyrir stuðning

Kröfur daglegs lífa geta stundum komið í veg fyrir að fólk haldi sig við meðferð. Meðferðum við brjóstakrabbameini eins og lyfjameðferð og geislameðferð fylgja ferðir og heimsóknir á göngudeildir sjúkrahúsa og tíma þarf til að jafna sig á eftir. Allt tekur þetta sinn toll. Viðtöl við lækna, bið á biðstofum o.s.frv. kann að setja venjulega dagskipan úr skorðum og koma í veg fyrir að þú komist yfir eða ráðir við að sinna verkum heima og á vinnustað.

Eftirfarandi ráð geta ef til hjálpað þér að fá þann stuðning sem þú þarft á að halda:

  • Segðu fjölskyldu þinni, vinum, nágrönnum og samstarfsfólki hvernig stundaskráin þín lítur út og biddu um hjálp þegar þú þarft á henni að halda. Það getur létt heilmikið á þegar aðrir vita við hverju er að búast og hvernig hægt er að liðsinna þér. Ættingjar, vinir eða nágrannar geta kannskt hjálpað þér með að gæta barna eða aka þér til læknis eða í meðferð — ef þú bara biður um það.

  • Talaðu við félagsráðgjafa sjúkrahússins og athugaðu hvort þú getir ekki fengið heimilishjálp í einhvern tíma eða útvegaðu hana eftir öðrum leiðum ef þú mögulega getur.  Þú gætir þurft hjálp við að gæta barns eða barna, hjálp við heimilisstörfin eða fá sendan mat heim. Með því að fela einhverjum öðrum þessi störf kann að losna sá tími sem þú þarft til að sinna meðferðum.

  • Sértu í vinnu hjá öðrum, skaltu spyrja yfirmann þinn hvort þú getir breytt vinnutíma þannig að þú fáir að vinna meira á þeim dögum sem þú þarft ekki að fara í meðferð og fengið að vera frá til að fara í meðferð og jafna þig. *Þetta á við þegar lögbundnu sjúkraleyfi lýkur. Kynntu þér réttindi þín. Hugsanlega geturðu sinnt einhverjum verkefnum heima. Sé það vandamál, viltu kannski fá að ræða þann möguleika að stytta vinnudaginn og fara í hlutastarf meðan á meðferð stendur. Hvernig sem það nú er, skaltu láta yfirmann þinn vita hvernig þú reiknar með að stundaskráin þín líti út þannig að þið getir fundið lausn sem kemur öllum að gagni.

  • Leitaðu aðstoðar eftir öðrum leiðum. Hérlendis búum við í litlu samfélagi þar sem oft er tiltölulega stutt til næstu ættingja eða vina sem hlaupa fúslega undir bagga auk þess sem félagsleg aðstoð og stuðningur er í mörgum tilfellum í boði. Þetta á ekki endilega við um þá sem búa erlendis og búa ekki við sama félagslega öryggi. Eigir þú ekki aðstoð ættingja eða vina vísa og hefur ekki ráð á að borga fyrir hana, skaltu tala við lækni þinn eða hjúkrunarfræðing sem geta þá vísað þér á félagsráðgjafa eða samtök sem veita aðstoð fólki í þínum sporum.

  • Klínískar rannsóknir. Ekki er mikið um slíkt hér á landi, en sjúklingar sem taka þátt í rannsóknum á nýjum lyfjum eiga oftar en ekki auðveldra með að halda sig við meðferðaráætlun en aðrir. Það kann að stafa af því að fólkið sem stjórnar rannsóknunum er í mjög miklu sambandi við sjúklingana sem taka þátt í henni. Talsvert er um viðtöl, sendar eru út tilkynningar og áminningar, ítarlegri upplýsingar eru veittar um meðferðarferlið en ella og nýjum upplýsingum komið á framfæri. Í klínískri rannsókn er yfirleitt veitt sú meðferð (það lyf) sem best hefur reynst eða annað sem kann að reynast enn betra. Þennan möguleika geta þeir sem eru í aðstöðu til að nýta sér, rætt við lækni sinn eða hjúkrunarfræðing.

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB