Viðbótarskammtar

Ummæli sjúklings:

„Eftir síðasta skiptið mitt í geislunum var ég himinlifandi. Ég hoppaði um af kæti. Svo fékk ég vottorð frá lækninum um að ég hefði lokið meðferð. Það var eins og að fá afhent prófskírteini. Allir sem höfðu komið að því að veita mér meðferð höfðu skrifað undir það.”

- Margrét

*Hérlendis gildir eftirfarandi um viðbótarskammta:

Þeir eru gefnir konum sem fara í fleygskurð og eru yngri en 40 ára. Þá eru gefin 2 „Grays" á dag í átta skipti, samtals 16 „Grays" til viðbótar og þá á aðgerðarsvæðið í brjóstinu. Eingöngu er notuð útvortis geislun. Einnig eru gefnn viðbótarskammtur ef aðgerðin er ekki róttæk, hvort sem um fleygskurð er að ræða eða brjóstabrottnám. Sami skammtur og útvortis geislun. Innvortis geislun er ekki notuð.

brjostakrabbi

Fræðsla eins og hún birtist á vefnum www.breastcancer.org

Á fyrstu fimm til sex vikum geislameðferðar er allt brjóstsvæðið geislað. Síðustu eina eða tvær vikurnar verður þér gefinn viðbótarskammtur sem er beint nákvæmlega á svæðið umhverfis skurðinn. Þetta er aukaskammtur sem ýmist er gefinn með útvortis eða innvortis geislun. Meðferðarsvæði aukaskammts er yfirleitt minna en í aðalmeðferðinni. Yfirleitt þarf að setja upp nýja stundatöflu og skipuleggja geislagjöf áður en meðferð með aukaskömmtum getur hafist.

Útvortis geislun

Fáir þú aukaskammt af geislum útvortis, verður þú ekki vör við neinn mun á því og þeirri meðferð sem þú fékkst á allt brjóstið. Flestum konum er gefinn aukaskammtur útvortis geislunar með aðferð sem kallast rafeindageislun. Aðferðin er notuð vegna þess að með henni er unnt að beina geislaskammtinum hárnákvæmt á grunnt svæði nálægt yfirborði húðarinnar og hlífa þannig vefnum undir hörundinu. Skammturinn er gefinn með sama tæki og í geislameðferðinni og þú liggur trúlega í sömu stellingu.

Innvortis geislun

**Ítrekað skal að það sem hér fer á eftir á ekki við um geislameðferðir hér á landi, en fær að standa til fróðleiks.

Innvortis geislun er ekki jafn algeng og útvortis geislun. Sums staðar er þessi aðferð þó notuð til að gefa aukaskammt. Þegar geislað er innvortis er litlu röri komið fyrir undir húðinni á svæðinu þaðan sem æxlið var fjarlægt. Því næst er geislavirkum ögnum komið fyrir í rörinu sem gefa frá sér geisla á aðliggjandi vef. Venjulega eru þessar agnir eða "fræ" höfð í líkamanum í einn eða tvo sólarhringa. Á meðan liggurðu á sjúkrahúsi vegna þess að geislavirk starfsemi á sér stað innan í þér. Gripið er til sérstakra varúðarráðstafna til að tryggja öryggi þitt og annarra. Hjúkrunarfólk, læknar og gestir fá aðeins að staldra við hjá þér stutt í einu á meðan geislavirk fræ eru í rörinu. Engum er óhætt að koma mjög nálægt þér. Þegar meðferðinni er lokið eru geislavirku fræin fjarlægð, saumar og rör tekið úr og þú getur farið heim.  

Nýlegri aðferð felst í því að gefa innvortis geislun á göngudeild - án innlagnar. Við aðferðina er notaður skammtari sem kemur geislavirkum "fræjum" fyrir skamma stund og fjarlægir þau síðan. Með þessari aðferð er rörið áfram undir húðinni en þú ert ekki geislavirk þegar þú gengur út af deildinni.

Verið er að gera ýmsar rannsóknir á gildi þess að nota alfarið innvortis geislun við geislameðferð. Viljir þú lesa þér meira til um hana geturðu smellt á geislameðferð á hluta brjóstsins. 

 

*Grein merkt stjörnu er lýsing yfirlesara á Geisladeild á því hvernig og hvenær viðbótarskammtar eru gefnir hérlendis.

ÞB