Dagleg meðferð

Ummæli konu:

„Ég var ekkert hrædd fyrr en kom að fyrstu geislagjöfinni. Þá varð mér órótt vegna þess að það var verið að geisla mig nálægt hjartanu. Læknirinn talaði við mig og hjálpaði mér að skilja hvers vegna öllu var óhætt og hve mikil vinna var lögð í að senda geisla á hárrétt svæði. Það er mikilvægt að læra að treysta bæði lækninum og meðferðinni sjálfri.”

- Marjorie

Þú verður að líkindum svolítið kvíðin í fyrsta skiptið þótt vel hafi gengið að bóka tíma og allt sé undirbúið þannig að meðferðin geti hafist. Læknirinn Marisa Weiss segir: „Það er ekki fyrr en eftir að meðferð er hafin sem þú getur slakað á, gert hana að föstum lið á degi hverjum og öðlast vissu um að hún mun hjálpa þér en ekki skaða.” Til þess að veita þér tilfinningu fyrir því sem við er að búast fer hér á eftir stutt lýsing á heimsókn á geisladeild:radiation_monitored[2]
Stækka mynd

Geislafræðingur við stjórn línuhraðals sem notaður er til að veita geislaskammti á brjóst krabbameinssjúklings.

Mynd birt með góðfúslegu leyfi Varian Medical Systems, Inc.

  • *Eigir þú ekki erfitt um gang, er einfaldast að komast á geisladeild með því að nota inngang sem liggur niður nokkrar tröppur í útálmu vinstra megin við aðalinngang Landspítalans við Hringbraut (kringluna). Deildin er strax á vinstri hönd eftir að inn er komið. Viljir þú nota aðrar inngönguleiðir er leiðin að réttri álmu rækilega merkt. Þú byrjar á að fara niður í kjallara eins og þú sért að fara í blóðsýnistöku. Þegar komið er að deildinni þarftu að gefa þig fram við afgreiðslu. Þér er síðan vísað áfram og boðið sæti á biðstofu.

  • Um leið og röðin kemur að þér ertu látin vita og þú færð úthlutað sjúkrahússloppi sem þú geymir svo framvegis í skáp eða hillu sem er merkt þér. Þú þarft að fara úr öllu að ofan og fjarlægja alla skartgripi sem gætu truflað meðferðina (t.d. síða hálsfesti).

  • Geislafræðingur eða hjúkrunarfræðingur fylgir þér inn í meðferðarherbergið þar sem þú leggst á bekk með hendur fyrir ofan höfuð. Bekkinn er hægt að hækka og lækka svo þægilegt sé fyrir þig að leggjast út af. Þegar þú ert lögst fyrir er bekkurinn hækkaður í rétta stöðu fyrir tækið. Sértu að fara í geislameðferð eftir brjóstnám er hugsanlegt að gúmmídúkur sé settur ofan á húðina en við það eykst geislaskammturinn á hörundið og vefinn undir því.

  • Næst þarf að stilla línuhraðalinn þannig að hann meðhöndli hvert svæði. Mestur tími fer raunar í að koma tækinu í þá stöðu sem beinir geislanum rétt á afmarkaða svæðið og stilla inn réttan skammt. Þegar tækinu hefur verið komið fyrir fer geislafræðingurinn út úr stofunni. Þótt þér kunni að finnast þú vera ein og yfirgefin, ertu það ekki. Geislafræðingur eða hjúkrunarfræðingur sér þig allan tímann á skjá og heyrir í þér um hljóðnema .

  • Geisla- eða hjúkrunarfræðingur kveikir síðan á tækinu til að gefa geislaskammtinn. Þú finnur ekki fyrir neinu og því er eina leiðin til að vita hvort verið er að geisla þig sú að hlusta eftir suði í tækinu. Meðan á geislun stendur þarftu að liggja grafkyrr þótt þú þurfir ekki að halda niðri í þér andanum. Ekki tekur nema frá hálfri mínútu upp í eina til tvær að gefa geislaskammt (það fer eftir tækinu sem notað er).

  • Geisla- eða hjúkrunarfræðingurinn kemur síðan aftur inn til að stilla tækið á ný til að gefa geisla frá öðru horni þann daginn. Algengast er að geislað sé frá tveimur mismunandi hornum daglega. Sé eitlasvæðið geislað að auki, getur þurft að bæta við einu til þremur svæðum.

  • Þótt einhver tilbrigði kunni að vera við ferlið er yfirleitt gert ráð fyrir að hver dagleg meðferð taki fimmtán mínútur.

 

*Hérlendis er ekki til siðs að taka „portmyndir". Á breastcancer.org má hins vegar lesa að Í hverri viku eru teknar röntgenmyndir af meðferðarsvæðinu sem kallast „portmyndir”. Eru þær til þess ætlaðar að ganga úr skugga um meðferðin hafi tilætluð áhrif og geislar fari á rétt svæði. (Merkingar á húðinni geta færst til og því er áríðandi að ganga úr skugga um það á fleiri en einn hátt að meðferð hitti hárnákvæmt í mark.

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

 ÞB