Áhrif á bringuna

Geislalækningateymið – sá hópur lækna, geisla- og eðlisfræðinga sem undirbýr meðferðina - leggur sig á undirbúningstímanum fram um að reikna út og takmarka geislun við svæðið sem þarf nauðsynlega að geisla og minnka eftir föngum alla geislun á aðliggjandi, heilbrigðan vef. Svo hægt sé að geisla allt brjóstið þar sem það flæðir yfir bringuna verður þó ekki hjá því komist að hluti brjóstkassans lendi inni á geislunarsvæðunum (þar með taldir bringuvöðvar og rifbeinin undir brjóstinu).

Verkir

Bæði meðan verið er að gefa geislana og fljótlega á eftir, gætirðu fundið fyrir snöggum sársaukastingjum ekki ósvipuðum rafstraumi. Hugsanlega fannstu fyrir svipuðum óþægindum eftir skurðaðgerðina. Þessir verkir stafa af bólgum og ertingu í taugum vefja og hægt að lina þá með bólgueyðandi lyfjum (Tylenol®, Advil®, Motrin®, Aleve®, ibuprofen, acetaminophen). Fljótlega að meðferð lokinni hverfa verkirnir sjálfkrafa.

Hafi verið grætt í þig stórt gervibrjóst og teygist á vefjum umhverfis það eða þeir verða fyrir þrýstingi, gætu verkirnir orðið meiri.

Stirðleiki í vöðvum

Til lengri tíma litið gætir þú fundið fyrir stirðleika í vöðvum á bringunni af völdum einhvers konar álags eins og því að ryksjúga eða framkvæma önnur erfið verk. Mestar líkur eru á að finna til stirðleika í stóra brjóstvöðvanum (pectoralis major) en hann tengir öxlina framanverða við bringuna. Stirðleikanum veldur örvefur, afleiðing geislameðferðar. Örvefur gerir vöðvann stífari og ósveigjanlegri en hann var. Yfirleitt er þetta ekki mikið vandamál, kemur fyrir endrum og sinnum, en lagast með lyfseðilslausum verkjalyfjum.

Hætta á rifbeinsbroti

Geislun á brjóstkassann getur gert það að verkum með tímanum að rifbeinum er hættara við að brotna. Hætta á þessu er hins vegar fremur lítil (kemur aðeins fyrir hjá um 1% kvenna). Hættan er meiri eftir brjóstnám vegna þess að enginn brjóstvefur verndar rifbeinin. Sama má segja þegar gervibrjóst er grætt í konur í stað brjóstsins vegna þess að gervibrjóst eru stíf og lítil vernd í þeim gegn höggi.

Þá sjaldan rifbein brotnar er það yfirleitt af völdum einhvers konar áfalla, slyss eða harkalegrar hreyfingar eins og slæmt hóstakast getur verið. Brotið eða brákað rifbein grær yfirleitt hjálparlaust.

ÞB