Áhrif á brjóstið
Meðan geislameðferð á allt brjóstið stendur yfir verða flestar konur varar við að brjóstið verður fyllra, það bólgnar og harðnar. Bólga samfara húðertingu gerir brjóstsvæðið aumt viðkomu. Geirvartan sem oft er næmasti hluti brjóstsins getur orðið einkar viðkvæm.
Þegar meðferðinni er lokið og bólgan tekur að minnka í brjóstinu, getur það virst stinnara, ávalara og unglegra en áður og slapir minna (sumar konur gantast með að þær þyrftu að fara í geislameðferð með hitt brjóstið til að hafa þau bæði jafn kotroskin). Breytingar sem þessar á brjóstinu stafa af örvef og bjúg.
Þér gæti einnig fundist brjóstið virka minna en áður. Það er aðallega vegna þess að fjarlægður var brjóstvefur við sýnatökur og fleygskurð sem ekki vex á ný. Brjóstið gæti einnig virst minna af því að það er ávalara en áður.
Á tímanum sem líður milli skurðaðgerðar og geislameðferðar gæti brjóstið virst í senn bæði dofið og aumt viðkomu. Þetta er óþægileg tilfinning sem þarf tíma til að venjast. Líði þér svona, viltu hugsanlega ekki láta snerta á þér brjóstið. Með tímanum getur þessi tilfinning í brjóstinu lagast töluvert, en hugsanlega ekki að fullu.
Hjá ungum konum er ein aukaverkun geislameðferðar því miður sú að brjóstið getur ekki lengur framleitt mjólk að neinu ráði. Því geta þær að öllum líkindum ekki haft barn á því brjósti sem fékk meðferð með geislum.
ÞB