Áhrif á hjarta og lungu
Samkvæmt nýlegri rannsókn (grein á ensku) eiga konur sem fengu geislameðferð á brjóst fyrir miðjan níunda áratug síðustu aldar fremur á hættu að fá hjartaáfall en meðaltal gerir ráð fyrir. Ástæðan var sú að með gömlu tækjunum lenti töluverður geislaskammtur á hjartanu sem liggur nálægt vinstra brjósti. Til allrar hamingju hafa á liðnum árum orðið miklar tæknilegar framfarir og hjartakvillar af völdum geislunar nú sjaldgæfir. Tækin sem nú eru notuð til að reikna út meðferðarsvæði, skammta og geislunarsvæðið eru miklu betur úr garði gerð þannig að hægt er að hlífa eðlilegum vef við áhrifum geislunar.
Jafnvel með hinum hugvitsamlegu tækjum nútímans lendir lítill hluti lungnanna sem liggja undir rifbeinunum inni á meðferðarsvæðinu þegar geisla þarf allt brjóstsvæðið. Örvefur getur myndast í þessum litla hluta lungnanna þegar geislameðferðinni lýkur, ekki ósvipað þeim örvef sem myndast eftir lungnabólgu. Ólíklegt er að örvefuinn valdi vandræðum. Þú átt að geta hreyft þig og gert æfingar á nokkurn veginn sama hátt og áður. Rannsóknir sýna að fólk sem heldur áfram að reykja meðan á geislameðferð stendur á fremur á hættu að verða fyrir lungnaskemmdum eða fá lungnakrabbamein en aðrir.
Myndist örvefur, sést hann yfirleitt á röntgenmyndum af bringunni sem kunna að vera teknar af öðrum ástæðum. Hafðu þetta í huga ef þú skyldir þurfa að fara í röntgenmyndatöku af bringunni – að öðrum kosti kann læknirinn sem les úr myndunum að ætla að þú sért með lungnabólgu eða meinið hafi tekið sig upp. Einkenni örvefjar sem eru afar sjaldgæf, geta verið þurr hósti (án slímmyndunar) og mæði. Hverfi einkennin ekki af sjálfu sér, hverfa þau yfirleitt við tiltölulega stuttan steralyfjakúr.
ÞB