Heilræði um húðvernd

Hér eru fáeinar ábendingar um hvernig þú getur dregið úr viðkvæmni húðarinnar meðan á geislameðferð stendur og hjálpað henni til að verða eðlileg eftir að henni lýkur.

Meðan á meðferð stendur og að henni lokinni:

  • Notaðu ylvolgt fremur en heitt vatn þegar þú ferð í sturtu.

  • Láttu ekki bununa úr sturtuhausnum lenda beint á brjóstinu.

  • Forðastu sterkar og ilmmiklar sápur. Þess í stað skaltu nota mjúka sápu án ilmefna. (*Þannig sápur fast t.d. í heilsubúðum og heilsuhornum stórmarkaða.)

  • Til að koma í veg fyrir roða og ertingu skaltu forðast að láta húð nuddast við húð. Það gerist oftast á örfáum stöðum:

    • Þar sem handleggurinn þrýstist upp að holhöndinni og brjóstinu utanverðu.

    • Meðfram fellingunni við brjóstið neðanvert þar sem brjóstið slapir hugsanlega og liggur yfir efri maganum.

    • Meðfram skorunni á milli brjóstanna.

Til að koma í veg fyrir að tveir húðfletir nudist saman skaltu reyna að halda handleggnum frá líkamanum þegar þess er nokkur kostur. Vertu í sterkum bróstahalda (víralausum) sem heldur þétt við og heldur brjóstunum uppi og aðskilur þau hvort frá öðru. Sértu með stór brjóst geturðu sett mjúkan þvottakút eða flúnels- eða bómullarbút undir brjóstin. Vertu í víðum fötum.

  • Hvort sem konur eru í geislameðferð eða ekki er sveppasýking algeng í húðfellingunni undir brjóstunum – einkum hjá konum með stór brjóst og þegar heitt er. Merki um sveppasýkingu eru roði, dálítill kláði og stundum ógreinileg hvít skán á húðinni. Sértu með sveppasýkingu skaltu losa þig við hana áður en þú byrjar í geislameðferð þannig að hún versni ekki við meðferðina. Sveppadrepandi áburður (eins og notaður er á fótsvepp) gefst yfirleitt vel.,

  • Púðraðu brjóstið og svæðin milli húðfellinga reglulega með maísmjöli (Maizena) til að þurrka upp raka, minnka núning og viðhalda ferskleika. Þú getur annað hvort notað barnapúður búið til úr maísmjöli eða sigtað matreiðslumaísmjöl (þú skalt forðast talkúm). Berðu það á með púðurkvasta eða settu solítið af maísmjöli í þunnan nælonhnésokk eða sokk og bittu fyrir. Klappaðu varlega með sokknum á húðina til að púðra hana. Mæli læknir þinn með að þú notir krem eða áburð, berðu hann þá fyrst á húðina og púðraðu síðan yfir með maísmjöli. *„Mælum ekki með púðri," segir hjúkrunardeildarstjóri.

Meðan á meðferð stendur

  • Í upphafi meðferðar, áður en þú ferð að finna fyrir hliðarverkunum, skaltu bera gott rakakrem á húðina daglega eftir hverja geislun. *Mælt er með tegundum sem ekki er víst að fáist hérlendis eins og Eucerin, Aquaphor, Biafene og Radiacare. Aloe-vera áburður er mjög góður og í heilsuhúsum fást einnig góð rakakrem án óæskilegra aukaefna. Rakakrem má einnig bera á að kvöldi. Sofir þú í gömlum bol eða skyrtu fer ekki áburður í sængurfötin.

  • Við vægum roða, kláða og sviða getur verið gott að nota aloe vera áburð eða hlaup. Einnig er gott að nota milt 1% hydrokortison krem. Berðu þunnt lag af kreminu yfir viðkvæmu svæðin þrisvar á dag.

  • Roðni einhver svæði illa, fer að klæja í þau, svíða eða brenna og væg krem slá ekki lengur á óþægindin, biddu þá lækni þinn um sterkari sterakrem sem fást gegn lyfseðli, t.d. 2,5% hydrokortíson krem eða bethamethasone.

  • Sumum konum finnst það draga úr óþæginum að blása köldu lofti á svæðið með hárþurrku sem stillt er á kalt.

  • Láttu þér ekki koma til hugar að vera í brjóstahaldara sem nuddar húðlaust svæði.

Meðan á meðferð stendur og að henni lokinni

  • Berðu rakakrem oft á húðina og farðu í venjulega sturtu, notaðu milda sápu (eða slepptu henni) og þurrkaðu húðina varlega.

  • Myndist blöðrur á húðinni eða vessar úr henni á stöðum þar sem hún hefur flagnað, skaltu láta hana í friði! Blaðran heldur svæðinu hreinu á meðan ný húð vex undir henni. Þegar blaðra springur getur verkjað í og vessað úr húðlausa svæðinu. Haltu blettinum tiltölulega þurrum og þvoðu hann einungis upp úr volgu vatni. Þurrkaðu varlega og settu á hann LÍMLAUSAN plástur, eins og xeroform plástur (með „vaselín” hlaupi) eða „second skin” plástur sem er til í ýmsum gerðum og leggst eins og þunn húð yfir sárið. Til að draga úr verkjum sem blöðrur og flögnuð húð getur valdið þér skaltu taka inn verkjatöflur sem fást án lyfseðils (paratabs, magnyl) eða biðja lækni þinn að skrifa lyfseðil fyrir sterkara lyfi ef þörf krefur.

  • *Hafðu samband við deildina ef sáramyndun er mikil eftir að meðferð lýkur.

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot/athugasemd hjúkrunardeildarstjóra.

ÞB