Þreyta

Að berjast við krabbamein tekur á kraftana. Margar konur sem gangast undir geislameðferð fá að reyna að þreyta er algeng og þrálát hliðarverkun meðferðarinnar. Þreytan sem þú kannt að finna fyrir í geislameðferð er ólík þeirri þreytu sem fylgir því að leggja hart að sér við vinnu og hún hverfur ekki við góðan nætursvefn. Þreyta sem afleiðing geislameðferðar er yfirþyrmandi tilfinning allsherjar orkuskorts. Ein kona af hverjum þremur fer að finna til þreytu af þessu tagi eftir því sem líður á meðferðina.

Ástæður þess að konur finna fyrir þessari tegund þreytu meðan á geislameðferð stendur geta verið:

 • Áhrif geislunar á líkamann.

 • Hinn strangi agi sem það felur í sér að mæta daglega í meðferð.

 • Tilfinningalegt álag af að greinast með krabbamein og ganga í gegnum meðferð við því.

 • Eftirstöðvar líkamlegra áhrifa af fyrri meðferð með krabbameinslyfjum. Meðal þeirra er slæmur blóðhagur, verkir, stirðleiki og líkamleg óþægindi.

 • Breytingar á mataræði og lifnaðarháttum vegna raskana af völdum meðferðar.

 • Þyngdaraukning sem getur reynst hamlandi.

 • Streita sem stafar af að reyna að sinna jöfnum höndum meðferð, fjölskyldu, vinnu og félagslegum skyldum.

Að yfirvinna þreytu

Þótt ef til vill sé ekki til nein lækning við þreytu eru ýmsar leiðir færar til að draga úr áhrifum hennar á tilveruna:

 • Hlustaðu á líkama þinn. Þú matt búast við að upplifa þreytu öðru hverju meðan á geislameðferð stendur. Sértu vakandi fyrir henni, reiknir með henni og sættir þig við hana, áttu auðveldara með að ráða við hana þegar hún lætur á sér kræla.

 • Skipulegðu daglegt líf upp á nýtt. Séu áætlanir um dagleg verkefni innan afmarkaðs og raunhæfs ramma – sem þú getur með góðu móti staðið við – minnkar streitan sem tengist þreytunni.

 • Reyndu að hreyfa þig. Dálítil hreyfing ætti að auka þér orku. Reyndu að fara reglulega í gönguferð eða synda svolítið. Finnist þér orkan aukast við það, geturðu hugsanlega lengt þann tíma sem þú hreyfir þig eða gerir æfingar á degi hverjum. Reyndu samt ekki of mikið á þig!

Ummæli konu:

„Þegar ég var hálfnuð í geislameðferð hafði ég ekki nema helming þeirrar orku sem ég var vön að hafa. Fljótlega fór ég að leggja mig tvisvar eða þrisvar á dag. Fyrir utan smá orkuskot sem ég fékk við það að meðferðinni lauk tók það mig næstum þrjá mánuði að verða aftur sjálfri mér lík.” —Julie

 • Hvíldu þig oftar. Mörgum sjúklingum finnst það gefa sér orku að fá sér stuttan lúr nokkrum sinnum á dag. Sparaðu orkuna fyrir það sem mestu máli skiptir að koma í verk yfir daginn.

 • Biddu aðra um hjálp og þiggðu hjálp þegar þér er boðin hún. Rétti tíminn til að biðja um hjálp – heima og í vinnu – er á meðan á meðferð við alvarlegum sjúkdómi stendur. Biðjir þú fjölskyldu, vini eða samstarfsfólk að létta undir með þér, fá þeir kærkomið tækifæri til að leggja þér lið í baráttunni við krabbameinið. Á því græða allir. Fólk í ýmsum söfnuðum er oft tilbúið að hlaupa undir bagga með þeim sem eru hjálpar þurfi.

 • Fylgdu heilsusamlegu og fitulitlu mataræði. Borðaðu fimm til níu skammta af ávöxtum og grænmeti á dag. Forðastu fituríkan mat, skyndibita og áfengi.

Langi þig til að lesa þér betur til, skaltu fara inn á síðuna þar sem fjallað er um langvarandi þreytu með því að smella á undirstrikuðu orðin.

ÞB