Viðbrögð húðarinnar
Óþægilegustu og bagalestu aukaverkanir geislameðferðar koma fram á húðinni þar sem hún er geisluð. Að mörgu leyti líkjast viðbrögð húðarinnar sólbruna, með dálitlum roða og meðfylgjandi kláða, brunatilfinningu, eymslum og hugsanlega flagnar húðin af. Ólíkt því sem gerist við sólbruna bregst húðin við geislum smátt og smátt og hugsanlega aðeins á stöku stað.
Hið fyrsta sem þú tekur eftir á meðan þú ert í geislameðferð er að húðliturinn breytist og verður rauður í stað þess að vera bleikur. (Sértu mjög dökk á hörund getur húðin dökknað mikið og erfiðara reynst að koma auga á roðann.) Sum svæði húðarinnar kunna að roðna meira en önnur: Nálægt handarkrikanum, innanvert á efri hluti brjóstsins (við skoruna) og í fellingunni undir brjóstinu. Hugsanlega verða viðbrögð húðarinnar væg og bundin við þessi svæði.
Húðin kann að bregðast hastarlega við geislun og á stærra svæði. Líkur aukast á að það gerist ef:
-
Þú ert mjög ljós á hörund og sólbrennur auðveldlega.
-
Þú ert með stór brjóst.
-
Þú hefur farið í brjóstnámsaðgerð og geislameðferðin er miðuð við að senda stóra skammta á húðina.
-
Þú ert nýbúin að vera í meðferð með krabbameinslyfjum.
Eins og við sólbruna getur húðin þornað, orðið sár og aum viðkomu. Erting eykst. Húðin tekur að flagna eins og af gömlum sólbruna í þurrum flygsum eða það tekur að vessa úr henni eins og brunablöðru. Líklega mun húðin aðeins flagna á fáum afmörkuðum svæðum brjóstsins. Springi blaðra og skilji eftir sig húðlausan blett getur það valdið verkjum og vessað úr sárinu. (*Þetta er sjaldgæft.) Ástandið getur versnað sé ekki hirt um sárið og það kemst sýking í það. Geislalæknir getur aðstoðað þig við að ráða bót á þessum ummerkjum eða einkennum.
Hér eru ábendingar um hvernig unnt er að draga úr áhrifum af viðbrögðum húðar við geislun:
-
Prófaðu að ganga í víðum skyrtum, helst úr bómull.
-
Valdi húðin umhverfis meðferðarsvæðið á brjóstinu þér verulegum óþægindum, skaltu ganga í linum, víralausum brjóstahaldara úr bómull.
-
Slepptu því að ganga í brjóstahaldara.
Smám saman mun fölbleik ný húð taka að gróa og hylja svæðið sem var meðhöndlað. Á meðan nýja húðin er að vaxa er hún afar viðkvæm. Kannski liggur blaðra eða gamlar þurrar húðflögur ofan á nýju húðinni. Ekki kroppa í blöðruna eða gömlu húðina. Þær vernda nýju húðina sem liggur undir. Geislalæknir eða hjúkrunarfræðingur hittir þig daglega til að hjálpa þér í gegnum þennan erfiða (en tiltölulega stutta) tíma. Verði vandamálin sérlega erfið viðureignar, gæti læknir þinn eða hjúkrunarfræðingur hugsanlega lagt til að þú gerir hlé á meðferðinni þannig að húðin nái að jafna sig.
Breytingar á húðinni gerast smátt og smátt og hægt að segja fyrir um þær í vikulegri skoðun hjá geislalækni og hjúkrunarfræðingi. Þér þarf að vera ljóst hvaða viðbrögð húðin kann að sýna til þess að þau komi þér ekki á óvart. Til allrar hamingju eru húðvandamál af völdum geislameðferðar aðeins tímabundin. Læknir þinn, hjúkrunarfræðingur eða geislafræðingur geta látið þig hafa áburð, lyf og lyfseðil upp á ýmislegt sem getur dregið úr óþægindunum. Komi í ljós að ekki dregur úr verkjum eða ertingu, skaltu tala við lækni þinn og láta vita.
Þegar geislameðferð er lokið
Áhrif meðferðarinnar á húðina kunna að halda áfram að versna í um það bil viku eftir að henni lýkur en þá fer húðin að lagast. Djúpur roðinn og eymslin ættu að hverfa á fyrstu vikunum eftir að meðferð lýkur. Dálítið lengri tími líður áður en húðin fær aftur á sig eðlilegan lit að fullu. Meðferðarsvæðið kann að vera sólbrúnt eða bleikt í allt að hálft ár frá því að þú fórst síðast í geislana.
Sértu dökk á hörund getur húðin verið orðin afar dökk við lok meðferðar og það geta liðið þrír mánuðir til hálft ár (stundum meira) áður en húðin verður eðlileg á ný.
Sumar konur hafa áfram svolítið rjóðan eða sólbrúnan blæ á húðinni í mörg ár eftir meðferð. Nokkrar verða varar við lítinn blett með örsmáuðum æðum í húðinni þar sem brjóstið var geislað.
Þetta fyrirbæri nefnist háræðavíkkun. Háræðahópar víkka út og mynda upphleypta dökkrauða bletti á húðinni. Háræðavíkkun er EKKI merki um að krabbamein sé að taka sig upp. Yfirleitt hverfa þeir ekki af sjálfum sér.
Reykir þú, getur stundum hjálpað að hætta að reykja. Það er þó ekki einhlitt. Stundum er hægt að laga háræðavíkkun með súrefnisþrýstimeðferð. Viljir þú losna við blettina getur leysigeislameðferð einnig hugsanlega dugað. Talaðu við húðlækni sem hefur æfingu í að fjarlægja fæðingarbletti og annars konar bletti af húð.
Er óhætt að vera í sól meðan á geislameðferð stendur?
-
Meðan á meðferð stendur er best að láta sól alls ekki skína á meðferðarsvæðið.
-
Notaðu sólföt sem ná vel upp fyrir brjóstin.
-
Ekki er mælt með því að fara í sund meðan á meðferð stendur.
-
Hafðu eitthvað yfir þér þegar þú ert ekki í vatni.
-
Gakktu í stórri bómullarskyrtu vegna þess að hún er svöl, hylur meðferðarsvæðið og ver það gegn sól.
-
Farir þú í sundlaug, getur gefist vel að bera vaselín eða annan vatnsþolinn áburð á meðferðarsvæðið til að halda klórnum í laugarvatninu frá hörundinu. *Þetta fer þó illa með merkingar sem farið er eftir við staðsetningu geislareitar.
-
Forðastu klór. Klórinn þurrkar húðina mjög mikið og getur gert viðbrögð hennar verri.
Þegar meðferð er lokið getur húðin sem varð fyrir geislun orðið viðkvæmari fyrir sól en hún var áður. Þér er óhætt að fara út í sólina og njóta hennar, en þú verður skilyrðislaust að nota sólarvörn:
-
Notaðu sólarvörn með 30 í styrk (SPF 30) eða meira á meðferðarsvæðið. (Að nota sterka sólarvörn á allan líkamann er raunar afar skynsamlegt.)
-
Berðu á þig sólarvörnina hálftíma áður en þú ferð út í sól.
-
Berðu aftur á þig á nokkurra stunda fresti og alltaf þegar þú kemur upp úr vatni.
*Málsgrein merkt stjörnu er athugasemd lesara.
ÞB