Hvenær á geislameðferð við?
Vegna þess hve áhrifarík og tiltölulega hættulaus geislameðferð er, gegnir hún ákveðnu hlutverki í meðhöndlun brjóstakrabbameins á öllum stigum, allt frá stigi 0 til IV. Hún getur átt við konur sem hafa farið í fleygskurð jafnt og konur sem fóru í brjóstnám.
Eftir fleygskurð
Nú orðið er mælt með því við flestar konur sem farið hafa í aðgerð sem miðast að því að varðveita brjóstið (fleygskurð eða takmarkað brjóstnám) að þær fari í geislameðferð ef æxlið er:
-
Minna en fjórir sentímetrar (*háð stærð brjóstsins, því að stærð æxlis og stærð brjósts þarf að vera í réttum hlutföllum).
-
Staðsett öðrum megin í brjóstinu og hægt að fjarlægja það án þess að taka of mikið af aðliggjandi heilbrigðum vef.
Eftir brjóstnám
Um það bil 20-30% kvenna þurfa að fara í geislameðferð eftir brjóstnám og láta geisla svæðið þar sem brjóstið var áður. (*Þetta hlutfall kann að vera lægra hér á landi.) Konur sem sendar eru í geislameðferð að loknu brjóstnámi eru þær sem reynslan segir að eigi að öðrum kosti mest á hættu að krabbameinið taki sig upp á ný. Konur sem eru í miðlungshættu á að krabbamein taki sig upp (á eins konar „gráu svæði”) gætu viljað komast í geislameðferð bæði af læknisfræðilegum en ekki síður tilfinningalegum ástæðum. Flestar konur vilja hafa fullvissu fyrir því að allt hafi verið gert sem hægt var til að yfirbuga krabbameinið þannig að þær þurfi (vonandi) aldrei að kljást við það aftur.
Margar rannsóknir hafa sýnt fram á gildi geislameðferðar eftir brjóstnám hjá ýmsum hópum kvenna (einkenni krabbameins hjá þessum hópum kvenna eru talin upp hér að neðan). Fleiri rannsóknir og kannanir eru í vinnslu til að fá enn frekari þekkingu á því hvað kann að reynast árangursríkast.
Hið venjulega er að læknir mæli með geislameðferð eftir brjóstnám þegar:
-
Meinið eða æxlið er stærra en fimm sentímetrar. Um getur verið að ræða einn hnút, nokkra hnúta saman eða jafnvel klasa sem aðeins eru greinanlegir í smásjá en eru samtals fimm sentímetrar erða stærri.
-
Krabbamein hefur að miklu leyti borist í sog- eða blóðæðar í brjóstinu.
-
Vefurinn sem var fjarlægður sýnir að skurðbrúnir voru ekki hreinar.
-
Eitlar í holhönd sem sýna krabbameinsfrumur eru fjórir eða fleiri EÐA einn eða fleira þegar í hlut á kona á barneignaaldri.
-
Krabbamein hefur sáð sér í hörund (staðbundið langt gengið krabbamein eða bólgukrabbamein í brjósti).
Geislameðferð kemur EKKI til greina ef:
-
Þetta svæði líkamans hefur þegar verið geislað.
-
Bandvefssjúkdómur er fyrir hendi, svo sem helluroði (lupus), liðagigt eða háræðabólga (vasculitis) sem gerir þig viðkvæma fyrir hliðarverkunum geislunar.
-
Þú ert barnshafandi.
-
Þú ert ekki tilbúin að fylgja eftir áætlun sem gerir ráð fyrir að þú sért geisluð daglega eða þér er það ómögulegt vegna fjarlægðar.
Er unnt að endurtaka geislameðferð á sama svæði?
Læknar munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að losa þig við allar hugsanlegar krabbameinsfrumur sem kunna að vera eftir í líkama þínum. Við geislameðferð er venjan sú að geislalæknir sér til þess að þú fáir hámarks lækningaskammt – skammt sem drepur krabbameinsfrumur en heilbrigður vefur í brjóstinu þolir. Þar sem þú færð alla þá geislun sem heilbrigðar frumur ráða við er ekki mögulegt að meðhöndla sama svæði aftur með fullum geislaskammti. Láti krabbamein aftur á sér kræla á sama svæði í brjóstinu, fer það eftir geislamagninu sem þú ert þegar búin að fá hvort unnt er að gefa þér takmarkaðan skammt af geislum á ný á sama svæði eða ekki.
Mikilvægt er að hafa í huga að þetta á við um að veita geislameðferð aftur á sama hluta líkamans. Komi krabbamein upp annars staðar í líkamanum – fyrir utan brjóstið sem búið var að geisla áður – er hægt að beita fullri geislameðferð á það svæði.
*Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda.
ÞB